| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Sögusviðið > Samfélag í nýju landi
 
S÷gusvi­i­ »
  Landnámið »
  Hvaðan kom fólkið? »
  Samfélag í nýju landi »
  Rúnir og munnleg geymd »
  Norræn trú og kristni í norðri »
  Kristnitaka Íslands »
  Bˇkmenning berst til ═slands »
  Aldur og efni handrita »
  Handritas÷fnun og ┴rnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Samfélag í nýju landi

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Menn með fornbréf í Reykjabók AM 345 fol.

Þjóðfélagsgerðin
Landnámsöld á Íslandi er talið lokið um 930 en við tók tímabil sem oft er kennt við stjórnarfar landsins og nefnt ■jˇ­veldis÷ld. Stofnun Alþingis og setning landslaga markar upphaf þjóðveldisins, sem hefur verið skilgreint sem samfélag fólks og ætta undir forystu höfðingja sem voru jafnir að lögum. Íslendingar virðast hafa sótt fyrirmyndir um réttarfar sitt og lög til Vestur-Noregs, þaðan sem hluti landnemanna átti rætur að rekja. Þar þekktist svipað fyrirkomulag, háð voru héraðsþing sem lutu þó mismunandi lögum eftir landshlutum. Alþingi Íslendinga var hins vegar sameiginlegt þing fyrir allt landið og landsmenn lutu allir sömu lögum. Þinginu var valinn staður á Þingvöllum en þangað sótti fólk hvaðanæva að á landinu, ekki aðeins til þinghalds heldur einnig á mannamót, þar sem viðskipti, leikar og aðrar skemmtanir fóru fram þá viku sem þinghald stóð.

Hlutverk Alþingis
Alþingi kom saman að sumarlagi ár hvert en starfsemi þess var tvíþætt. Þar starfaði lögþing, eða lögrétta, sem hafði það hlutverk að úrskurða um lagaþrætur, kveða á um gildi laga og túlkun þeirra. Á Alþingi var líka háð dómþing, en þau deilumál sem ekki tókst að útkljá með sátt manna í millum voru lögð í dóma á þingum, eins og tíðkast hafði meðal germanskra þjóða um langan aldur. Í landinu var þó ekkert framkvæmdavald til að framfylgja lögum eða dómum og hvorki löggæslusveitir né herlið. Eina embætti þjóðveldisins var lögsögumannsembættið en sá sem gegndi þeirri virðingarstöðu hafði það hlutverk að segja upp lögin í heyranda hljóði á Alþingi, þriðjung ár hvert, og stjórna fundum lögréttu.

Lagaþekking í munnmenntasamfélagi
Fyrstu nær 200 árin voru lög Íslendinga varðveitt í munnlegri geymd, þau byggðust á venjurétti og minni lögfróðra manna sem hlutu þjálfun í að úrskurða um réttmæti lagagreina eða túlkun þeirra í samræmi við almennt samkomulag um hvað væru gildandi lög í landinu. Uppsaga laganna á Alþingi var liður í að viðhalda og staðfesta það samkomulag formlega en lögréttunni var ætlað að ‘rétta’ lög eða lagatúlkun sem hafði e.t.v. vikið frá hefðinni. Í dómsmálum byggðust sönnunargögn ýmist á vitnisburði votta, þ.e. vætti manna um málið, ellegar kvið, s.s. búakvið þar sem sveitungar sakaraðila lýstu því fyrir dómi hvort þeir héldu þá sanna að sök eða ekki.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Skreyttur upphafsstafur, dreki og ljón, úr AM 346 fol. frá því um 1350.

Goðar og bændur
Við stofnun Alþingis um 930 var landinu skipt í 36 goðorð sem var fjölgað í 39 nokkru síðar. Goðorð voru grunneiningar í stjórnskipun landsins. Þeim var stjórnað af goðum eða goðorðsmönnum, sem voru ættar- eða héraðshöfðingjar, og valdamesta stétt landsins. Goðorðin voru persónuleg eign goðanna og gátu gengið í erfðir en einnig kaupum og sölum. Menn gátu fengið þau að gjöf eða átt þau í sameign við aðra en einnig misst þau vegna starfsglapa. Allir bændur voru skyldugir til að fylgja einhverjum goða en þó að eigin vali. Skyldur goðans fólust í því að vernda fólk sitt og verja gegn yfirgangi, stuðla að friði í héraði og gæta laga og réttar. Goðar sátu í lögréttu á Alþingi og hafði hver þeirra tvo ráðgjafa þar sér til fulltingis. Alls sátu því 144 menn í lögréttu, auk beggja biskupa landsins eftir kristnitökuna. Goðarnir höfðu þó einir atkvæðisrétt við úrskurði lögréttunnar en þeir nefndu einnig menn í alla dóma.

Dómar og þing
Um 960 var landinu skipt í fjórðunga, kveðið á um fjölda goðorða og þinga í hverjum þeirra og settir á fót fjórðungsdómar á Alþingi. Níu goðorð voru í Sunnlendingafjórðungi, Austfirðingafjórðungi og Vestfirðingafjórðungi en tólf í Norðlendingafjórðungi og fengu hinir fjórðungarnir uppbótargoða á Alþingi til að gæta jafnræðis þar. Alls áttu því 48 goðar lögréttusetu, og fóru með vald til lagaréttingar, en goðorðin (full goðorð og forn) voru áfram 39.

Í fjórðungum voru háð árleg vor- og haustþing þar sem þrír goðar voru saman um þinghald. Vorþingin voru m.a. dómþing í héraði, þar sem óútkláð deilumál fóru í dóm, en þar voru líka ýmsar greiðslur inntar af hendi og settar verðlagsskrár. Á haustþingum voru störf Alþingis um sumarið kynnt fyrir héraðsmönnum. Á Alþingi voru fjórðungsdómar, einn fyrir hvern fjórðung, þar sem dæmt var í sakarefnum sem ekki hafði tekist að ljúka á vorþingum. Í upphafi 11. aldar var nýr dómur settur á fót, fimmtardómur eða fimmti dómurinn á Alþingi, sem var eins konar úrslitadómur þar sem meirihluti réði niðurstöðu dómsmála. Þá niðurstöðu var ekki hægt að véfengja eða leggja aftur fyrir dóm.

Grágás, GKS 1157 fol
Stækkaðu myndina enn meira
Skreyttur upphafsstafur við upphaf Þingskapaþáttar í Konungsbók Grágásar, GKS 1157 fol., f. 9va. Þingskapaþáttur er aðeins varðveittur í Konungsbók sem talin er frá miðri 13. öld.

Álitamál um goðorð og goðorðsmenn
Frásagnir eða lýsingar á upphafi og skipulagi þjóðveldisins er helst að finna í varðveittum lagaskrám þess auk ritheimilda frá 12. og 13. öld, s.s. Íslendingabók, Landnámu, Íslendingasögum og samtíðarsögum, en þetta eru langt í frá samhljóða heimildir. Lagasafn þjóðveldisins er nefnt Grágás og eru brot þess meðal elstu varðveittu handritaleifa. Grágás var ekki heildstæð lögbók heldur safn lagaskráa og lögskýringa frá ýmsum tímum. Tvö aðalhandrit Grágásar, Konungsbók GKS 1157 fol. og Staðarhólsbók AM 334 fol., hið fyrra tímasett til um 1250 en hitt til um 1270, hafa t.d. mislanga texta og ólíkrar gerðar og uppröðunar, þótt þeim beri saman í meginatriðum. Þær bækur hafa e.t.v verið teknar saman, mögulega í og með sem viðmið, í aðdraganda þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd eða stuttu síðar, þegar við blasti að landinu yrðu sett ný lög.

Konungsbók er þó ein til frásagnar um stjórnskipun þjóðveldisins en lýsingar hennar á fjölda goðorða, þinga og dóma eru engu að síður sú heimild sem oft er byggt á, þótt ekki sé hún óumdeild. Af Íslendingasögum að dæma, sem greina frá atburðum frá landnámi fram yfir kristintöku en eru skráðar mun síðar, virðast goðorðin hafa verið heldur fleiri en lýst er í Konungsbók Grágásar, en af frásögnum í samtíðarsögum, af atburðum á 12. og 13. öld, má ráða að þau hafi verið öllu færri. Víst er að valdahlutföll innan þjóðveldisins breyttust er tímar liðu og völd og goðorð söfnuðust á færri hendur. Ef til vill áttu ritlist og bókmenning kristinnar kirkju sinn þátt í uppgangi sumra ætta eða höfðingja umfram aðra.

Trúarlegt hlutverk goðanna
Um orðsifjar orðanna ‘goði’ og ‘goð’ eru ekki háværar efasemdir. Um trúarlegt hlutverk goða í íslenska þjóðveldinu eru hins vegar skiptar skoðanir. Í ritheimildum, sem allar eru frá kristnum tíma, eru engar öruggar heimildir um þátt þeirra í trúarlegri iðkun. Ýmsir fræðimenn, að fornu og nýju, hafa því dregið í efa að valdastaða goðanna hafi upphaflega verið reist á trúarlegri forystu þeirra, við hofhald eða blót. Vald þeirra við þinghald og dóma í landinu hljóti fremur að hafa byggst á ættgöfgi þeirra og að þeir hefðu fylgdarlið sem nýst gat til hernaðar, rétt eins og tíðkaðist hjá öðrum norrænum eða germönskum þjóðum.

Aðrir hafa bent á þá staðreynd að vegna legu landsins hafi ekki þurft að bregðast við innrásum í sama mæli og víða erlendis og þ.a.l. hafi samfélagið síður haft þörf fyrir herforingja, s.s. konunga, jarla eða hersa, sem voru algengir valdsmenn í Noregi. Æðsta höfðingjatign á Íslandi, goðanafnbótin, hafi því frekar verið í höndum þeirra sem stóðu fyrir blótum og þinghaldi. Með því móti megi betur skilja frásagnir af friðsamlegri kristnitöku landsins og tilurð kristins miðaldasamfélags, án konungsvalds en undir stjórn hóps af höfðingjum sem héldu áfram að gegna trúarlegu hlutverki með því að eiga hlut í kirkjugerð og kristnum lærdómi.

 

Um heimsku
Um orðið 'heiðinn'