| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið
 
Handverkið »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir »
  Varðveisla og gildi »
Prentvæn útgáfa

Hvað er handrit?

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Menn með bækur á síðum Reykjabókar Jónsbókar
AM 345 fol.

Orðið handrit hefur að minnsta kosti tvenns konar merkingu. Oft er talað um handrit að bókum, kvikmyndum og leikritum en þau handrit hafa verið unnin af höfundi eða þýðanda og geyma verk, oft texta, sem síðan á eftir að vinna úr. Handrit bókar á eftir að prenta en handrit kvikmyndar eða leikrits þarf að æfa og kvikmynda eða setja á svið í leikhúsi.

Einnig eru til annars konar handrit og eru það bækur, yfirleitt gamlar, sem að öllu leyti voru unnar í höndunum en ekki í tölvu eða prentsmiðju. Á þessari vefsíðu verður fjallað um hvernig slík handrit voru búin til, allt frá því Íslendingar fóru að skrifa bækur snemma á miðöldum og fram á 17. öld, jafnvel lengur.

Handverk og fjöldaframleiðsla
Fæst af því sem fólk notar nú í daglegu lífi býr það til sjálft heldur kaupir tilbúið, s.s. matvæli, fatnað, húsgögn og bækur, oft án þess að velta mikið fyrir sér hvernig það er framleitt eða hvaða hráefni og aðferðir þurfi til. Fyrr á tímum var þessu öðru vísi farið og fleira af því sem fólk þurfti til daglegra nota var unnið á heimilum. Ekki átti það þó við um alla hluti, sumt var best gert af mönnum sem sérhæfðu sig í ákveðnu handverki, t.d. smíði úr tré og járni, skinnaverkun eða bókagerð.

Stækka myndina Stækka myndina enn meira
Teikning sem sýnir bókakaup.
Úr The Smithsonian Book of Books.

Nú á dögum eru bækur víða almenningseign og yfirleitt auðvelt að nálgast þær. Sá sem vill þá eignast bók þarf aðeins að komast í búð sem selur bækur eða á netið, til að skoða úrvalið og kaupa það sem hann hefur augastað á. Fyrr á öldum var mun erfiðara að eignast bækur enda bókagerðin sjálf gjörólík því sem nú þekkist, efni í bækur var seinunnið og dýrt, og ekki á allra færi að eignast þær.

Meðan bækur voru handunnar frá fyrsta undirbúningi til síðasta frágangs urðu engar tvær eins, hver bók varð einstakur gripur. Með tímanum leystu pappírsgerð og prentlist eldri aðferðir af hólmi við gerð bóka og eftir því sem tæknikunnátta jókst tóku vélar og tæki við sífellt fleiri störfum af mannshöndinni, þar á meðal í prentverki. Í bókagerð, sem og víðar, tók fjöldaframleiðsla við af handverki.

um prentverk og uppskriftir
um íslensk handrit í erlendum söfnum
um papýrus