Prentvæn útgáfa
Rúnir og munnleg geymd
|
|
Áhorfandi að átökum. Spássíuskreyting í Belgdalsbók, AM 347 fol., frá miðri 14. öld. |
Munnleg varðveisla
Þó bækur og ritmenning séu ekki ný af nálinni í veraldarsögunni er tiltölulega stutt síðan allur þorri fólks í hinum vestræna heimi fékk aðgang að menntun og þar með að bókum. Í sumum löndum heimsins á fjöldi fólks enn ekki kost á grunnmenntun og er bæði ólæs og óskrifandi.
Ritmenning er viðamikill þáttur í flestum nútímasamfélögum og þá stendur ólæst fólk oft hallari fæti en aðrir. Læsi snýst þá ekki einungis um kunnáttu í lestri og skrift heldur jafnframt um aðgang að samskiptum og þekkingu, hlutdeild í tungumáli og menningu. Skrifleg boð eða leiðbeiningar birtast afar víða, ekki aðeins á pappír heldur einnig á sjónvarps- og tölvuskjám, skiltum og vegvísum. Ólæsir hafa því oft takmarkaðri aðgang að ýmsum upplýsingum og þar með fullri þátttöku í ritvæddum samfélögum.
Fyrir tíma ritmáls og bóka byggðist miðlun og varðveisla fróðleiks á munnlegri geymd, hinu talaða orði. Fólk sagði frá atburðum, flutti sögur og kvæði, bæði til að færa fróðleik og siðfræði samfélagsins í orð og miðla áfram til annarra, en einnig sér og öðrum til skemmtunar. Helgisiðir og trúariðkun snerust einnig um talað, sungið eða kveðið mál, lög voru sett og dómar upp kvaddir, allt án fulltingis skrifaðra texta eða bóka.
|
|
Rúnaskrift á spássíu, greinilega skráð með öðru bleki en aðaltexti bókarinnar. |
Lifandi flutningur
Í sérhvert sinn sem saga eða kvæði var flutt fór fram upprifjun og nýsköpun í senn þar sem flytjandinn tók mið af áheyrendum sínum og tilgangi flutningsins. Frásagnarefni voru þar af leiðandi í sífelldri endursköpun, ýmist aukið við eða fellt úr, allt eftir aðstæðum og áherslum hverju sinni. Ef vitneskja, saga eða kvæði varð gleymskunni að bráð fór það endanlega forgörðum og varð ekki endurheimt. Að líkindum hefur þótt mikilvægt að lög og reglur samfélagsins væru í föstum skorðum og þau fest vel í minni, sama máli hefur vísast gegnt um helgisiði sem byggjast oft á föstu orðfæri eða söngvum.
Að sama skapi verða bragreglur, stuðlasetning, rím og hrynjandi í kveðskap til þess að auðvelda fólki að festa hann í minni. Forn norrænn kveðskapur, þ.e. eddukvæðin, sem skiptast að efni í goðakvæði og hetjukvæði, sem og mörg dróttkvæði, voru flest skráð á bókfell á 13. öld, eða síðar, en eru mörg talin ort fyrir tíma ritaldar og varðveitt í munnlegri geymd.
|
|
Ein elsta rúnaristan sem varðveist hefur á Íslandi fannst á reku sem grafin var upp úr mýri á Indriðastöðum í Skorradal 1933. Hún er talin vera frá 12. öld og varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands. |
Rúnir
Á þeim tíma sem Ísland byggðist áttu norrænar þjóðir sér ritmál, rúnir, sem voru ristar eða höggnar í hart efni; tré, horn eða stein, enda einkennast þær af beinum línum og hvössum hornum. Rúnir eru upprunnar meðal germanskra þjóða og hafa e.t.v. átt upptök sín þar sem nú er Danmörk því elstu rúnaristur sem fundist hafa eru flestar frá Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og Suður-Skáni. Þær eru taldar frá seinni hluta 2. aldar en fyrirmynd þeirra að líkindum latneska stafrófið eins og það var í Rómaveldi á 1. öld.
Orðið rún merkti upphaflega leyndarmál eða leynilegt tákn enda hafa rúnir oft verið tengdar við galdur, spádóma og véfréttir. Samkvæmt Hávamálum eru þær af goðlegum uppruna, tengdar sjálfum Óðni, goði skáldskapar og visku. Í Rúnatali Hávamála, þ.e. vísum 138-145, er því lýst hvernig Óðinn öðlaðist visku sína, þar á meðal þekkingu á galdri og rúnalist, með sjálfsfórn þar sem hann hékk níu nætur í veraldartrénu, Aski Yggdrasils.
Fuþark eða rúnastafrófið
Rúnastafrófið nefnist fuþark eftir fyrstu sex rúnunum í uppröðun þeirra. Nöfn rúnanna hafa sennilega fylgt þeim frá öndverðu en þau taka til þriggja tilverusviða hins germanska heims, veraldar goða og jötna, mannheima og náttúrunnar. Rúnirnar ás, þurs og týr má t.d. telja til goðheima, rúnirnar maðr, fé og kaun til mannheima en íss, lögr og bjarkan til náttúru.
Til er eldri gerð rúnastafrófsins sem germanskar þjóðir notuðu um nokkurra alda skeið. Það inniheldur 24 rúnir en á norðurslóðum voru rúnir notaðar mun lengur og þar varð sú breyting á, við upphaf víkingaaldar, að rúnatáknunum var fækkað og form sumra einfaldað. Yngra rúnastafrófið telur aðeins 16 rúnir og táknuðu sumar rúnir því fleiri en eitt hljóð, t.d. stóð sama rún þá fyrir i og e, önnur fyrir o og u eða v, sú þriðja fyrir k og g, - og svo framvegis. Ekki er ólíklegt að breytingarnar hafi verið gerðar af ásetningi þar sem þær víkja svo langt frá eldra stafrófinu að um endurgerð virðist vera að ræða fremur en þróun þess eldra. Reyndar virðist rúnastöfum hafa verið fjölgað eftir tilkomu latínuleturs á Norðurlöndunum, sennilega þá vegna áhrifa frá latneska stafrófinu sem innihélt 24 stafi.
Þrátt fyrir goðtengt upphaf sitt og tengsl við galdra eða laun virðist rúnaskrift ekki hafa verið í mikilli andstöðu eða samkeppni við latínuletrið sem norrænar þjóðir námu í kjölfar kristni. Þvert á móti voru sumar þeirra teknar upp sem styttingar í skrift. Til þess sama benda líka rúnir frá miðöldum sem iðulega má finna á legsteinum og kirkjumunum. Um 1300 gætir þess siðar fyrst á Íslandi að rista fáorðar áletranir með rúnaletri á legsteina í kirkjugörðum og tíðkast það í einhverju mæli fram á seinni hluta 17. aldar. Eftir það lifir rúnalistin áfram meðal fornfræðinga, tréskera og sem galdratákn.
Skortur á rúnaþekkingu eða íslenskum heimildum?
Heimildir um rúnaþekkingu fyrstu kynslóðir búsetu á Íslandi hafa verið af skornum skammti til þessa og elstu rúnaristur taldar frá 12. öld. Við fornleifauppgröft í Reykjavík fundust nýverið afar merkar rúnaristur, þar af tvö rúnakefli, mun eldri en fyrri ristur sem vitað var um. Sá fundur á eflaust eftir að varpa nýju ljósi á notkun rúna á Íslandi frá öndverðu.
Hugsanleg skýring á því hve fáar rúnaristur hafa þó varðveist á Íslandi gæti einfaldlega verið sú að þær hafi einkum verið ristar í tré og síðan farið forgörðum. Á þeim tíma sem landið byggðist virðist reyndar ekki hafa tíðkast að grafa rúnir á steina í Noregi en þaðan kom töluverður hluti landnámsfólksins. Fólk á Íslandi hefur eflaust búið yfir þekkingu á rúnalist, og þar með á notkun skriftákna og ráðningu þeirra, frá fyrstu tíð en það var fyrst þegar kristin bókmenning hélt innreið sína sem farið var að skrifa niður lengri texta á bókfell.
|
|
Hér má lesa ‘maðr er mannz gaman’ úr 47. vísu Hávamála, m-rúnin er stytting fyrir orðið ‘maðr’. |
|
|
Hér tákna tvær m-rúnir fleirtölu orðsins maður: renr iannara manna lond. |
Notkun rúna í skrift í íslenskum handritum
Norðmenn, og síðan Íslendingar, tóku stafinn þ, sem er raunar rúnin þurs, upp í skrift sína eftir enskri fyrirmynd en form rúnarinnar er norrænt og tekið úr yngra rúnastafrófinu. Stafurinn ‘þ’ er ekki lengur í norsku og ensku stafrófi en stendur enn í því íslenska. Einnig þekkist að m- og f-rúnir séu notaðar sem styttingar fyrir nöfn sín, orðin ‘maður’ og ‘fé’. Í einu elsta varðveitta handritabroti þjóðveldislaganna Grágás, AM 315 d fol. frá seinni hluta 12. aldar, eru dæmi um notkun m-rúnar þar sem beygingarmyndir og fleirtala eru einnig táknaðar.
Fleiri dæmi finnast í 13. aldar handritum, s.s. Konungsbók eddukvæða Gks 2365 4to, frá um 1270, og Konungsbók Grágásar, Gks. 1157 fol. frá um 1250. Einnig finnst m-rún í Prestaskrá íslenskri, í Gks. 1812 4to III og í broti úr jarteinabók Þorláks helga Þórhallssonar biskups, AM 645 4to, sem báðar eru frá fyrri hluta 13. aldar. Dæmi um notkun f-rúnar eru færri en finnast þó í AM 623 4to, handriti með sögum heilagra manna, og AM 325 VII 4to (1250-1300), með sögu Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs, sem einnig eru tímasett til 13. aldar.
Hugsanlega fer notkun rúna saman við aukinn áhuga á fornum fræðum (í Evrópu) á þeim tíma, sem stundum er kenndur við 12. aldar endurreisn. Snorri setur saman Eddu sína, sem er kennslubók í fornu skáldamáli e.t.v. til að ‘sætta’ lærdóm kirkjunnar við dróttkvæðahefðina sem byggðist á fornum átrúnaði og goðsögum. Eddukvæðin eru tekin saman og skráð á bók, a.m.k. er Konungsbók eddukvæða frá því skeiði. Tíminn fer líka saman við aldur rúnakvæðis á norsku (um 1300) og rúnahandrits á dönsku. Hins vegar sér notkun rúna varla stað í 14. aldar handritum.
|