| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Sögusviðið > Norræn trú og kristni í norðri
 
S÷gusvi­i­ »
  Landnámið »
  Hvaðan kom fólkið? »
  Samfélag í nýju landi »
  Rúnir og munnleg geymd »
  Norræn trú og kristni í norðri
  Kristnitaka Íslands »
  Bˇkmenning berst til ═slands »
  Aldur og efni handrita »
  Handritas÷fnun og ┴rnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Norræn trú og kristni í norðri

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Miðgarðsormur og Valhöll á síðu úr einu handriti Snorra-Eddu, Löngu-Eddu AM 738 4to, frá 1680.

Forn siður og nýr
Hugtakið norræn trú er notað sem yfirheiti um átrúnað, goðsagnir og helgisiði, sem íbúar norrænu landanna aðhylltust áður en kristin trú hélt þar innreið sína. Trúarbrögðin, sem í fornum texum kallast siður, voru fjölgyðistrú sem byggðist á sameiginlegri heimsmynd þar sem æsir, bæði goð og gyðjur, vanir, valkyrjur, álfar, dvergar, dísir, nornir, völvur, jötnar og gýgir byggðu veröldu ásamt mannfólkinu, sóttdauðir áttu sér stað í Helju en vopndauðir í Valhöllu. Goð og gyðjur gegndu hvert sínu hlutverki í heimsmyndinni og tilbeiðslan varð þar af leiðandi fjölbreytileg og með margvíslegum svæðisbundnum einkennum og áherslum. Svo virðist sem átrúnaðurinn, goðsagnir og helgisiðir hafi að nokkru leyti verið staðbundin og samofin samfélagsgerð á hverjum stað, fiskimenn, sæfarar eða hermenn höfðu þá önnur goð í heiðri en fólk við búskap eða akuryrkju.

Eftir tilkomu kristni og bókmenningar var gerður greinarmunur á ‘hinum forna sið’ og ‘hinum nýja sið’ í ritum, og orðið ‘siðaskipti’ notað yfir umskipti til kristinnar trúar. Elsta dæmi um orðið heiðinn kemur fyrir í dróttkvæði, Hákonarmálum eftir norska skáldið Eyvind skáldaspilli, sem talið er frá því um 960. Orðið ásatrú kemur fyrst fyrir sem nýyrði á 19. öld og öðlaðist nokkurn sess en nú kjósa margir fremur að nota heitið norræn trú um hinn forkristna átrúnað.

Notkun orðsins ‘siður’ hefur þótt benda til þess að fyrir kristnitöku hafi norrænt fólk ekki litið á áheit, blót eða dýrkun goða og vætta sem sérstakt svið innan samfélagsins heldur órofa hluta þess. Með því að skipta um sið var einnig skipt um samfélagsgerð, enda urðu miklar og sennilega ófyrirsjáanlegar samfélagsbreytingar í kjölfar þess að kristin kirkja festist í sessi á Norðurlöndum.

Hvað er vitað um norræna trú?
Heimildir um norræna trú eru af ýmsu tagi, s.s. fornminjar á borð við húsarústir, grafir (kuml og hauga), goðastyttur og aðra muni. Örnefni dregin af nöfnum einstakra guða geta líka gefið til kynna átrúnað, sem og rúnaristur eða myndsteinar sem greina frá goðum eða lýsa efni goðsagna. Allar ritheimildir sem greina frá norrænni trú og lýsa goðsögum, átrúnaði, helgisiðum eða blóti, voru skráðar af lærðum kristnum höfundum þannig að gera má ráð fyrir að kristinn siður hafi sett mark sitt á frásagnirnar eða e.t.v. blandast hinum forna sið. Engu að síður geta þær heimildir verið mikilvægar við túlkun fornminja og auðveldað skilning á hlutverki þeirra. Merkar ritheimildir um norræna trú og heimsmynd eru varðveittar í íslenskum handritum og eru eddukvæði, dróttkvæði og Snorra-Edda þar taldar helstar.

Krossfesting
Stækkaðu myndina enn meira
Kristni barst einkum til Norðurlandanna frá meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum. Krossfestingarmynd úr GKS 3270 4to, frá því um 1350.

Kristnun Norðurlandanna
Kristnitaka norrænu landanna átti sér nokkurn aðdraganda. Fyrstu kynni íbúanna af kristinni trú má líklega rekja a.m.k. aftur til víkingatímans þegar norrænir sæfarar, eða víkingar, stunduðu ýmist strandhögg eða áttu viðskipti við kristnar þjóðir í Vestur-Evrópu. Einhverjir þeirra létu prímsignast (prima signatio er fyrsta blessun kristinnar kirkju) til að geta átt viðskipti í kristnum löndum þar sem samskipti við heiðið fólk voru víða litin hornauga.

Margvísleg samskipti hófust þá milli íbúa Norðurlandanna og þjóða í vestri og austri, ekki síst með fastri búsetu norrænna manna í byggðum þar sem fyrir var kristið fólk. Áhrifin urðu á báða bóga, eins og ráða má af því að norræn tökuorð finnast í ensku og írsku máli frá fornu fari sem og keltnesk orð í norrænu málunum.

Í enskri og írskri skreytilist gætti áhrifa frá norrænum stíltegundum, Hringaríkisstíl og Úrnesstíl, sem áttu þar sitt blómaskeið á seinni hluta 11. aldar. Að sama skapi er talið að í elstu myndskreytingum í íslenskum handritum, s.s. í Physiologus frá 12. öld, megi merkja áhrif frá enskri skreytilist. Þau áhrif eru frá kristnum tíma, rétt eins og ýmis trúarleg tökuorð, og til marks um langvarandi tengsl milli landanna.

Hvaðan barst kristnin norður?
Kristin áhrif bárust einkum úr tveimur áttum, úr suðri frá meginlandi Evrópu og úr vestri frá Bretlandseyjum. Skipulagt kristniboð til Norðurlanda af hálfu páfagarðs hófst fyrst með trúboði þýska munksins Ansgars. Hann var skipaður yfir erkibiskupsstólinn í Hamborg-Brimum sem settur var á fót á Saxlandi árið 931 til að stýra trúboðinu. Trúboð Brimarstóls og Ansgars, sem nefndur var postuli Norðurlandanna, er talið hafa haft einna mest áhrif á kristni í Danmörku og e.t.v. hluta Noregs og Svíþjóðar. Hugsanlega eiga ritaðar heimildir, á borð við sögu erkibiskupsstólsins eftir Adam frá Brimum (Gesta Hammaburgensis ecclesiae pontificum, frá því um 1075), einhvern þátt í þeirri túlkun.

Kóngur og biskup
Stækkaðu myndina enn meira
Upphafsstafur úr lögbókarhandritinu Belgsdalsbók, AM 347 fol, sem sýnir konung og biskup. Í ritheimildum er kristnun vestnorrænu landsvæðanna eignuð Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi.

Konungar og kristni
Ansgar er sagður hafa reist fyrstu norrænu kirkjurnar í Heiðabæ á Saxlandi, sem nú tilheyrir Þýskalandi, Rípum í Danmörku og Birka í Svíþjóð. Þrátt fyrir að þær kirkjur hafi risið snemma er gert ráð fyrir að viðtaka kristni í norðri hafi verið brotakennd framan af, allt þar til konungar eða aðrir veraldlegir valdsmenn gengust við trúnni og tóku til við að kristna þegna sína í kjölfarið. Kristnitaka vestnorrænu landsvæðanna er til að mynda eignuð konungum sem höfðu dvalið lengi í útlöndum, verið skírðir til kristinnar trúar og höfðu mikil tengsl við Suður-England.

Sambúð norrænna manna við fólk á Bretlandseyjum, þar sem írsk-skosk og engilsaxnesk kristni áttu sér langa sögu, virðist líka einkum hafa sett mark sitt á kristni í Noregi og á Íslandi. Þar komu enskir trúboðar eða trúðboðsbiskupar að uppfræðslu landsmanna í kristnum dómi og bóklegum menntum. Í Svíþjóð voru trúskiptin lengi að ganga yfir og mögulega fer það saman við hversu seint landið var sameinað undir einum konungi.

Í Uppsölum var til að mynda mikil miðstöð heiðins átrúnaðar fram til loka 11. aldar, Adam frá Brimum skrifar um blótstaðinn mikla í Uppsölum á árabilinu 1070-80, en árið 1164 var settur þar erkibiskupsstóll fyrir Svíþjóð, sem hefur ekki verið talin fullkristnuð fyrr en um 1200. Áhrif frá býsanskri kristni, þ.e. aust-rómversku kirkjunni sem hafði aðsetur í Miklagarði eða Konstantínópel, áður Býsans, hafa mögulega borist til Austur-Svíþjóðar og Finnlands úr austurvegi en þeirra sér jafnvel stað í kirkjulist á Íslandi.

Kristnitaka – atburður eða langtímaþróun?
Í stað þess að miða kristnitöku landa við tiltekinn atburð eða ártal, þó lagasetning um kristnun landsins teljist reyndar mjög formlegur atburður, er e.t.v. gagnlegra að líta á hana sem langtímaþróun. Með tímanum varð hið nýja í trúskiptunum að siðvenju meðal fólksins og skipulag komst á starfsemi og valdsvið kirkjunnar, sem víða fór saman við eflingu konungsvalds á Norðurlöndum. Á meðan var e.t.v. tekist á um gamlar og nýjar hugmyndir og siðfræði en sú þróun gekk sennilega mishratt fyrir sig eftir landsvæðum. Jafnvel er talið að henni hafi ekki verið að fullu lokið fyrr en kemur fram á 12. öld. Eftir það megi fyrst telja öll Norðurlönd fullkristin.

Stiklur um erkibiskupsstóla og umdæmi þeirra á Norðurlöndum

823 – Ebo von Reims, erkibiskup í Reims 816–835, fékk tilskipun frá páfagarði um að kristna Norðurlöndin.

831 – Erkibiskupsstóll í Hamborg, síðar Brimum á Saxlandi, settur á fót til að stýra kristniboði á Norðurlöndunum. Trúboðsbiskupinn Ansgar var skipaður yfir stólinn og féllu öll norrænu löndin undir hann framan af.

1104 – Erkibiskupsstóll fyrir Norðurlönd stofnaður í Lundi, sem þá var hluti af Danmörku en tilheyrir nú Svíþjóð. Þegar aðrir norrænir stólar voru stofnsettir, í Niðarósi í Noregi og Uppsölum í Svíþjóð, hafði Lundur áfram umdæmi yfir Danmörku. Undir stólinn heyrðu biskupsstólar í Væ, Hróarskeldu, Óðinsvéum, Viborg, Árósum, Ribe og Slésvík.

1152/3 – Erkibiskupsstóllinn í Niðarósi (Þrándheimi) í Noregi settur á stofn en þar hafði verið biskupssetur, og heilagur staður, frá því Ólafur helgi Haraldsson var tekinn í tölu dýrlinga 1031, ári eftir dauða hans.. Undir Niðarós heyrðu biskupsstólarnir í Kirkjuvogi í Færeyjum (st. 1047), Skálholti (st. 1056), Björgvin (st. 1060), í Orkneyjum (st. 1070) til 1472, Kristjaníu (Osló) (st. 1073), á Hólum (st. 1106), Görðum á Grænlandi (st. 1126), í Stafangri (st. 1139), Hamar (st. 1151) og Suðureyjum (til 1542) og Mön (til 1334). Niðarós var miðstöð andlegs lífs fram að siðaskiptum en jafnframt höfuðstaður Noregs og setur konunga (til 1217) allt frá því Ólafur Tryggvason stofnaði borgina árið 997.

1164 – Erkibiskupsstóll settur á fót í Uppsölum í Svíþjóð sem þá náði einnig yfir núverandi Finnland (en ekki Skán, Blekinge og Halland sem þá tilheyrðu Danmörku). Undir stólinn heyrðu biskupssetrin í Västerås, Strängnäs, Linköping, Skara, Växjö og Åbo (nú Turku).

Um konunga og kristni
Um kristnitöku Norðurlandanna