Prentvæn útgáfa
Kristnitaka Íslands
|
|
Niðurdýfingaskírn tíðkaðist allt fram til siðskipta á Íslandi. Barnsskírn úr Jónsbókarhandrit, GKS 3269 a 4to, frá 14. öld. |
Frásagnir í heimildum
Víða í ritheimildum er varða sögu Íslands, t.d. í Íslendingabók, Kristnisögu, Hungurvöku Landnámabók, og ýmsum Íslendingasögum, er sagt frá því að kristni hafi verið lögtekin á Alþingi árið 1000. Áður hafði Ólafur Tryggvason Noregskonungur sent kristniboða til landsins en þeim orðið misvel ágengt. Konungi ofbauð loks þvermóðska landsmanna gagnvart hinum nýja sið og tók íslenska höfðingjasyni við hirð sína í gíslingu til að knýja fram þau málalok að kristna landið.
Í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, frá árabilinu 1122-33, er megin áhersla lögð á norrænt landnám og norrænt trúboð fyrir tilstilli Ólafs Tryggvasonar. Eflaust hefur þó verið kristið fólk í landinu frá fyrstu tíð. Allnokkrir af þeim sem námu land á Íslandi komu frá norrænum byggðum á Bretlandseyjum en þar höfðu þeir hitt fyrir, og sumir blandast, keltneskum íbúum sem höfðu lengi verið kristnir. Þau tengsl eru Ara þó ekki efst í huga.
Frásögn Íslendingabókar af kristnitökunni
Í Íslendingabók segir frá því þegar Þorgeir Ljósvetningagoði, sem var heiðinn höfðingi, kvað upp þann úrskurð á Alþingi að allir landsmenn skyldu hafa ein lög og einn sið til að slíta ekki sundur friðinn í landinu. Áður hafði legið við bardaga milli kristinna og heiðinna manna á þinginu og þeir sagt sig úr lögum hvorir við aðra.
Málamiðlun Þorgeirs tók mið af því að báðar fylkingar hefðu eitthvað til síns máls. Heiðnir menn áttu að taka kristni og láta skírast en forn lög um barnaútburð og hrossakjötsát skyldu standa áfram. Fólk mátti iðka hinn forna sið og blóta goðin á laun en yrði það uppvíst varðaði það fjörbaugsgarði, þriggja ára útlegð sem hefjast varð innan þriggja sumra frá dómi. Þessar tilslakanir eru sagðar hafa verið felldar niður fáum árum síðar.
Frásögn Ara, og frásagnir í öðrum fornum textum, hafa lengi mótað almenna söguskoðun um kristnitöku á Íslandi en hana má líka lesa sem mögulega ‘jartein’ eða fegraða mynd af því sem fram fór áður en kristni var lögtekin í landinu. Vert er að muna að frásagnirnar eru skráðar eftir á, af kristnum mönnum sem e.t.v. var mikið í mun að tengja jaðarsvæðið Ísland við evrópska kristni sem átti sér aldalanga sögu áður en Ísland byggðist.
|
|
Niðarósdómkirkja í Þrándheimi í Noregi. Erkibiskupsstóll yfir Noreg og vestnorrænar byggðir var stofnsettur 1152 eða 1153. |
Umdæmi erkibiskupstólsins í Niðarósi
Stofnun erkibiskupsstóls í Niðarósi, sem stofnsettur var 1152 eða 1153, hefur mögulega haft áhrif á sagnaritun, a.m.k. á einhverjum tíma, og hneigt hana frekar í þá átt að styrkja tengsl Íslands, Noregs og vestnorrænu byggðanna. Ekki er vitað hversu lengi undirbúningur að stofnun stólsins stóð yfir. Hugsanlega hefur þó forsvarsmönnum norskrar kirkju verið í mun að fá erkisstól yfir Noreg og norskar byggðir fljótlega eftir stofnun stólsins í Lundi 1104, og e.t.v. hafa íslenskir kirkjuvaldsmenn þá tekið í sama streng. Með því að setja norrænt landnám á Íslandi og kristnun vestnorrænu landsvæðanna að undirlagi Ólafs Tryggvasonar á oddinn, m.a. í Íslendingabók sem skrifuð er fyrir biskupa landsins nokkru fyrir stofnun Niðarósstóls, var e.t.v. verið að árétta sérstaklega tengsl íslenskrar byggðar og kristni við Noreg og norska kirkju.
Umdæmi erkibiskupsins í Niðarósi náði yfir Noreg og svæðin sem þaðan höfðu byggst, Orkneyjar, Suðureyjar, Hjaltlandi og Færeyjar, auk Íslands og Grænlands. Þessi skipan var án efa byggð á víðtækum tengslum þeirra, á meðan önnur svæði á Norðurlöndum lutu áfram stólnum í Lundi eða nokkru síðar Uppsölum. Í öllu falli hefur skipanin stuðlað að og viðhaldið tengslunum, a.m.k. allt fram á 13. öld, og í sumum tilfellum lengur. Sögurnar af kristnun Ólafs Tryggvasonar á sömu landsvæðum gætu líka verið hluti af rökstuðningi fyrir tilurð stólsins og sögulegri eða réttmætri skipan þeirra undir erkistól í Niðarósi, borginni sem Ólafur stofnaði. Ritun sagna af konungum í Noregi, einkum Ólafi Tryggvasyni og Ólafi helga Haraldssyni, sem báðir tengdust Niðarósi, urðu til að efla og festa tengslin frekar í sessi, sem og sögur Færeyja, Orkneyja og Grænlands, svæða sem féllu líka undir Niðarós og lutu sum, en þó ekki öll, norskri yfirstjórn.
Ný þekking og lærdómur
Þar sem kristin trú byggir á og styðst við ritninguna, bæði við trúboð og helgihald er víst að eftir kristnitökuna var lagður grunnur að bóklegum lærdómi fyrir upprennandi íslenska presta og aðra þjóna kirkjunnar. Frásagnir greina frá komu erlendra kennara sem sáu fyrst um sinn um uppfræðsluna en nemendur þeirra voru einkum drengir eða karlar af höfðingjaættum landsins. Þeir þurftu að læra að lesa og rita bækur, bæði á latínu um leið og þeir kynntust kristnum menningarheimi, en líka á eigin tungu þar sem trúboð hlýtur að hafa farið fram á því máli sem almenningur skildi og gat tileinkað sér. Með innlendu trúboði og messuhaldi hófst því fyrsta glíma Íslendinga við að aðlaga erlendan hugtakaforða að móðurmáli sínu.
Talið er sennilegt að lærðir Íslendingar hafi verið byrjaðir að skrifa á eigin tungu með latínustöfum fyrir eða um 1100. Frumraunir fyrstu íslensku skrifaranna hafa þó ekki varðveist fram á okkar daga þar sem elstu heimildir um íslenska bókiðju eru handritabrot tímasett frá því um miðja 12. öld, u.þ.b. 150 árum eftir kristnitökuna. Allmörg þessara brota innihalda trúarlega texta og af þeim að dæma hafa þýðingarnar gengið allvel fyrir sig, en um leið markaði hún e.t.v. upphafið að áframhaldandi aðlögun og þróun íslensks orðaforða og ritmáls í takt við síbreytilegar aðstæður, sem enn stendur yfir. |