Prentvæn útgáfa
Hvaðan kom fólkið?
Uppruni landnemanna
Í Landnámu er rakinn uppruni 268 karla og kvenna af þeim 430 landnemum sem þar eru nefndir. Langflestir þeirra eru sagðir norrænir (rúm 90% karla og 80% kvenna) þó einnig sé þar nefnt fólk frá Bretlandseyjum. Hafa má í huga að Landnáma, sem telja má karlasögu, skrifaða af körlum og fyrir karla, tilgreinir aðallega húsbændur en nefnir í fáu konur, vinnufólk eða þræla sem frekar gætu hafa átt ættir að rekja til Bretlandseyja.
Alls er talið að til landsins hafi flutt um það bil 10-20.000 manns á landnámstímanum og getur Landnáma þá aðeins sáralítils hluta þeirra, einkum hinnar ráðandi yfirstéttar norrænna stórbænda sem skipaði efstu lög samfélagsins og setti mark sitt á það. Nauðsynlegt er að hafa þá staðreynd í huga þegar hugað er að mögulegri samsetningu landnámshópsins.
|
|
Myndin sýnir útbreiðslu norrænu í Norður-Evrópu um 1200, ljósari svæðin voru norræn málsvæði að hluta. |
Vestnorrænt mál- og menningarsvæði
Noregur ásamt norrænu byggðunum á Bretlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi tilheyrðu vestnorrænu málsvæði og virðast einnig hafa verið eitt menningarsvæði fram yfir 1200. Sumar bresku eyjanna voru undir norskri yfirstjórn fram á 13. öld, aðrar mun lengur eða fram á 14. og 15. öld.
Vestnorrænu byggðirnar lutu sömu kirkjulegu yfirstjórn í Niðarósi eftir að erkibiskupsstóll var stofnaður þar 1152 eða 1153. Danmörk og Svíþjóð tilheyrðu þá erkistólum í Lundi og Uppsölum. Eflaust hafa samgöngur, viðskipti og verslun milli vestnorrænu svæðanna skipt verulegu máli fyrir íbúa þeirra, ekki síst hinna afskekktari byggða í norðri. Um menningarleg og pólitísk tengsl þeirra vitna t.a.m. íslenskar ritheimildir og viðfangsefni þeirra, sögur Noregskonunga, Færeyinga og Orkneyinga auk Íslendinga sagna og frásagna af norrænu landnámi og byggð á Grænlandi.
Norrænt yfirbragð
Norræn menningaráhrif urðu æði ríkjandi á Íslandi, tungumálið er að meginstofni norrænt, en í því finnast keltnesk tökuorð, mannanöfn og örnefni. Fornleifar benda einnig til þess að atvinnu- og lifnaðarhættir landnámsfólksins hafi í meginatriðum verið með norrænu sniði. Keltneskum áhrifum hefur helst verið fundinn staður í kveðskap og sagnalist, ekki síst í dróttkvæðahefðinni og frásagnarminnum þeirra fornsagna og kvæða sem færð voru í letur á Íslandi á miðöldum, einkum fornaldarsagna og goðfræðilegra kvæða.
Mörgum hefur fundist sem ekki væri öll sagan sögð um ætterni landnámsfólksins í íslenskum fornritum sem skráð voru á 12. og 13. öld. Forvitni Íslendinga um uppruna sinn hefur orðið til þess að fræðimenn á sviði erfðafræði hafa leitað leiða til að fá nánari mynd af samsetningu landnámshópsins og benda niðurstöður þeirra til þess að hún hafi verið nokkuð á aðra lund en ráða má af einum saman ritheimildum og fornleifum.
Vitnisburður erfðaefnis
Rannsóknir á erfðaþáttum núlifandi íslenskra karla og kvenna og samanburði þeirra við erfðaefni fólks af norrænu, skosku og írsku þjóðerni gefa til kynna hvernig samsetningu landnámshópsins gæti í raun hafa verið háttað. Erfðaefni þeirra íslensku karla sem kannaðir voru reyndist í rétt rúmlega 80% tilvika mega rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en í tæplega 20% tilvika til Bretlandseyja. Ríflega 62% þeirra íslensku kvenna sem athugaðar voru báru hins vegar í sér erfðaefni sem rekja mátti til Bretlandseyja en einungis rúm 37% kvenna báru norrænt erfðaefni.
Af niðurstöðunni má ráða að í heildina hafi um 60% landnámsfólksins verið af norrænum uppruna en 40% frá Bretlandseyjum. Hið háa hlutfall kvenna frá Bresku eyjunum gæti t.d. stafað af því að íbúar norrænu byggðanna þar, t.a.m. norrænir sæfarar og innfæddar konur þeirra, eða afkomendur þess fólks, hafi átt stóran þátt í landnámi Íslands.
Ráðandi stéttir og ritmenning
Hinir mörgu norrænu karlar sem voru í forsvari fyrir landnámi Íslands skipuðu ráðandi yfirstétt en konur þeirra, vinnufólk og þrælar sem e.t.v. voru fleiri af keltneskum uppruna, áttu einnig sinn kveðskapar- og sagnaarf. Honum var án efa miðlað þeirra á milli þó svo virðist sem hin norræna menning hafi haft yfirhöndina. Sú ritmenning sem varðveitt íslensk miðaldahandrit bera vott um er afsprengi og í þágu ríkjandi yfirstéttar sem skráði sögu sína og hugðarefni, í og með til að staðfesta tilkall sitt til landsvæða og samfélagslegra valda.
Munnleg frásagnarhefð efnaminni bænda, kvenna og lægri stétta samfélagsins, sem stunduð var frá öndverðu samhliða bókmenningu kirkju og lærðrar yfirstéttar, komst ekki að sama skapi á bókfell. Samspil munnlegrar hefðar og ritmenningar er flókið viðfangsefni, ekki síst þegar ritheimildirnar einar standa eftir til vitnisburðar.
Almennt er litið svo á að með tímanum hafi verið sótt í hinn munnlega frásagnar- og kveðskaparsjóð, t.a.m. þegar kveðskapur, s.s. dróttkvæði og goðafræði, ásamt heiðnum goðsögum í Snorra-Eddu og frásögnum og kvæðum af forsögulegum hetjum og konungum samhliða innlendum frásögnum af fólki á söguöld var færður í letur á 12., 13. og 14. öld. Lengi hafa þó verið nokkuð skiptar skoðanir um hversu mikinn þátt hin munnlega hefð átti í tilurð bóksagnanna og stendur sú umræða enn yfir.
|