| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Handritasöfnun og Árnasafn
 
Sögusviðið »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
 
  Handritasöfnun hefst »
  Fornmenntir á Íslandi »
  Árni Magnússon »
  Eldur í Höfn og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Handritasöfnun og Árnasafn

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Gabríel erkiengill og María, í fyrirmynd að boðun Maríu, Ólafur helgi Noregskonungur með öxina Hel. Úr Teiknibók AM 673 a III 4to, safni fyrirmynda frá árabilinu 1330-1500 sem listamenn notuðu við gerð ýmissa listaverka, einkum af trúarlegum toga.

Vitnisburður varðveittra handrita
Ekki er hægt að vita með nokkurri vissu hversu umfangsmikil bókagerð miðalda var né hvernig útbreiðslu einstakra verka var þá háttað. Sú mynd af bóklegri iðkun sem varðveitt handrit og handritaglefsur birta er brotakennd enda varðveislan oft tilviljunum háð. Því er óvíst hversu dæmigerð eða lýsandi þau handrit eða handritabrot sem komust hjá eyðileggingu eru um bókakost eða fræðastarf þess tíma sem þau voru framleidd á. Með þann fyrirvara í huga má þó nýta þær heimildir sem sannanlega eru til og draga af þeim ályktanir.

Hversu stór hluti hefur varðveist?
Ætla má að varðveitt miðaldahandrit séu aðeins brot af þeim bókakosti sem til var á þeim tíma. Ef til vill hefur um tíundi hluti varðveist og mögulega minna, ekki síst frá elstu tíð. Næsta víst er að hlutfallslega færri latínubækur hafa varðveist á Íslandi en bækur á móðurmáli. Eyðing kaþólskra rita eftir siðaskiptin 1550 og minni áhugi handritasafnara á 17. öld á slíkum bókum ræður þar mestu um.

Aldur texta og aldur handrita
Fæst íslensk miðaldahandrit sem nú eru til í söfnum eru talin frumrit textanna sem á þeim finnast heldur afrit af textum eldri handrita sem hafa glatast. Flestir textar eru þ.a.l. álitnir nokkuð eldri en elstu handritin sem geyma þá. Hvort forrit elstu handritanna voru síðan frumrit, eftirrit eða eftirrit eftirrita enn eldri handrita, er ekki auðvelt að segja til um. Í sumum tilfellum er talið að elsta handrit standi nokkuð nærri samningu eða samsetningu textans en í öðrum tilvikum ríkir meiri óvissa um hversu langt leið þar á milli.

Hvernig er handritageymd háttað?
Yfirleitt fækkar varðveittum handritum hlutfallslega eftir því sem lengra er liðið frá ritunartíma þeirra. Slit og úrelding bóka tók ávallt sinn toll á hverjum tíma. Breytingar á stafsetningu eða skrift gátu orðið til þess að eldri bækur þóttu erfiðar aflestrar og þá varð líklegra að þær lentu í glatkistunni. Bækur eyddust líka margoft í húsbruna, t.d. á biskupsstólunum tveimur, en skiptin til lúteskrar trúar urðu eflaust mesti örlagavaldur íslenskra skinnbóka frá miðöldum. Siðaskiptum árið 1550 fylgdi úrelding og eyðing kaþólskra rita og latínubóka í stórum stíl.

Mannfjöldi og dreifð byggð á Íslandi
Þegar Gissur Ísleifsson biskup (1042–1118) lét telja þingfararkaupsbændur í landinu, eflaust vegna lögtöku tíundar 1097, virðast þeir hafa verið ríflega 4500 talsins. Út frá þeirri tölu hefur mannfjöldi á Íslandi undir lok 11. aldar verið áætlaður á bilinu 40-80.000 eftir því hvaða reikningsforsendum er beitt. Ísland er 103.000 km2 að stærð, önnur stærsta eyja Evrópu, stærri en Írland eða Danmörk. Byggðir dreifast meðfram strandlengjunni og inn til dala, en hálendið er óbyggt. Siglingar til og frá landinu lágu alla jafna niðri yfir vetrarmánuðina, stóran hluta ársins komst þá hvorki fólk, varningur né tíðindi yfir hafið. Ef íbúar landsins hafa verið um 50-55.000 manns að meðaltali á tímabilinu 1100-1300 er ljóst að strjálbýli mótaði allt líf fólks í landinu.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Nýibær á Hólum í Hjaltadal. Torfbærinn var reistur 1860. Mynd af Wikipedia.

Kyrrstætt sveitasamfélag
Þéttbýlismyndun á Íslandi hófst fyrst á 18. og 19. öld þegar fólk settist að í sjávarþorpum en búskaparhættir og vinnuaðferðir voru annars nær óbreytt um aldir. Á biskupsstólum og stórbýlum landsins var þó talsvert mannmargt, t.d. bjuggu um 120 manns í Skálholti um 1200. Smæð samfélagsins og dreifðar byggðir áttu eflaust sinn þátt í að kórsbræðrareglur störfuðu ekki við dómkirkjurnar, svo vitað sé, en erlendis höfðu þeir oft mikil áhrif á skólahald. Klaustrin á Íslandi hafa verið fremur lítil og fámenn en þar virðist þó hafa verið unnið ötullega að bóklegum listum.

Aðstæður á Íslandi
Ekki voru sömu skilyrði til að varðveita bækur í traustum bókasöfnum og víða erlendis. Húsakostur var úr timbri og torfi, hvergi stórir byggðarkjarnar eða menningarmiðstöðvar á borð við erkistóla, háskóla, hirð- eða dómskóla, eins og í þéttbýlli löndum. Yfirstjórn kirkjunnar var alla tíð í öðru landi, frá 1154 í Niðarósi, og sömuleiðis konungar landsins eftir 1263 þegar Íslendingar gengust undir Noregskonung. Sterk tengsl virðast við Noreg og vestnorrænar byggðir frá fornu fari og þáttur höfðingja í bókmenningu viðamikill.

Klaustrin og biskupstólar í Skálholti og á Hólum voru helstu mennta- og menningarsetur landsins en þekkt stórbýli og kirkjustaðir einnig orðuð við bóklegar menntir og kennslu. Öll fræðastarfsemi, skólahald og bókakostur hefur þó mótast af smæð staðanna. Starf þeirra virðist engu að síður hafa verið öflugt, eins og ráða má af fjölda og fjölbreytileika varðveittra miðaldatexta á móðurmáli, ekki síst frá þeim tíma þegar Íslendingar virðast líka skrifa fyrir norskan bókamarkað.

Bókakostur klaustra og biskupsstóla
Máldagar frá miðöldum geyma m.a. skrár yfir eignir kirkna, klaustra og biskupsstóla og gefa nokkra hugmynd um bókakost þar, við siðskiptin var þeim bókasöfnum tvístrað. Í sumum klaustrum voru hátt í 200 bækur og af máldögum sem tilgreina heiti eða efni bóka sést að þau áttu helstu trúarbókmenntir miðalda, hómilíur og helgisögur. Í klaustrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal voru til veraldleg rit, t.d. Skjöldunga saga, Völsunga saga og Hrólfs saga kraka, en svokallaðar ‘norrænar bækur’ voru víðar í eigu kirkna og klaustra.

Í bókasöfnum biskupsstólanna voru helstu rit um guðfræði, helgisiði og kirkjulög eftir þekkta lærdómsmenn á borð við Gregoríus páfa og Tómas frá Akvínó. Í upphafi 16. aldar átti Hólastóll rúmlega 300 bækur og þar sem meðalverð skinnbóka á miðöldum var nær hálft kýrverð er ljóst að bókasafnið var talsvert verðmætt.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Bækur í handritageymslu Árnasafns í Kaupmannahöfn. Ljósmyndari Suzanne Reitz.

Af skinnbókum eftir siðskipti
Nokkru eftir siðskiptin komst hluti af bókum klaustranna í eigu Brynjólfs Sveinssonar (1605–1675) Skálholtsbiskups og fornfræðings, sem átti stærsta safn íslenskra bóka á 17. öld. Brynjólfur taldi íslenskum skinnhandritum reyndar best borgið í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, þar væru betri geymsluskilyrði og hægt að vinna að útgáfu þeirra. Hann sendi bæði konungi sínum og fornfræðingum í Danmörku íslensk skinnhandrit að gjöf. 

Á tímum fornmenntastefnunnar í Evrópu bárust mörg íslensk handrit til Danmerkur og Svíþjóðar. Mikilvirkasti handritasafnarinn var Árni Magnússon sem elti uppi hvert snifsi skinnbóka um íslenskt efni en kærði sig lítið um latínurit, nýtti þau jafnvel í bókband. Árni náði m.a. nokkrum skinnbókum úr safni Brynjólfs sem var sundrað eftir hans dag.

Fjöldi varðveittra miðaldahandrita
Frá kristnitöku voru latínubækur í landinu en ritun á móðurmáli er talin hefjast um 1100 og elstu varðveittu handritabrot tímasett um 1150. Lok miðalda á Íslandi eru miðuð við siðskiptin árið 1550 og ritunartími varðveittra miðaldahandrita spannar því fjórar aldir. Frá þeim tíma eru talin u.þ.b. 750 skinnhandrit eða handritaleifar. Tímaskeið skinnbóka stóð þó fram yfir 1600 og varðveitt skinnhandrit eru því öllu fleiri, ríflega 1000 alls. Pappírshandrit 17. aldar geyma einnig ýmsa texta miðaldabóka sem tortímdust síðar að mestu eða öllu leyti en þau skinnhandrit sem handritasafnarar komust ekki yfir á 17. öld og fluttu úr landi hafa yfirleitt glatast.

Tímasetning miðaldahandrita
Fæstir miðaldatextar eru höfundamerktir. Þeir höfundar sem þó eru þekktir voru ýmist munkar, prestar eða höfðingjar. Fá skinnhandrit eru varðveitt í heilu lagi, mörg eru meira eða minna skert, sum aðeins eitt eða fá skinnblöð eða blaðhlutar og lítið varðveitt af fornu bókbandi. Handritin sjálf eru sjaldnast ársett, hvað þá merkt skrifara eða ritunarstað, og tímasetning þeirra byggist jafnan á greiningu á skrift og stafsetningu. Fornbréf og önnur dagsett skjöl hafa sérstakt gildi við greininguna, því þau má frekar tímasetja af vissu og tengja nafngreindu fólki. Með rannsóknum á handritum eða handritahópum má stundum benda á líklega ritunarstaði, ráða í menningarumhverfið sem þau urðu til í og öðlast nokkra vitneskju um hvaða bókmenntagreinar vöktu áhuga þeirra sem stóðu að bókagerð.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Staðarhólsbók rímna AM 604 to, þverhandarþykk en óinnbundin þegar hún barst Árna, var bundin í átta hefti, aðgreind með bókstöfunum a-h. Endurgerð bókarinnar sýnir hvernig hún var e.t.v. í heilu lagi.

Skiptir tímasetning handrita máli?
Elstu varðveittu minjar texta skipta máli fyrir bókmenntasögu, þá sem vilja kunna skil á tímaröð og innbyrðis tengslum verka, textasamhengi og hugmyndafræði á tilteknum tíma eða bókmenntalegri þróun texta og tímabila. Aldur elstu handrita eða handritabrota markar svonefnd efri tímamörk (terminus ante quem) textans og er þá fyrsti óyggjandi vitnisburður um tilurð hans. Þess eru dæmi að texti hafi verið ranglega tímasettur ef ekki var vitað um eða tekið mið af aldri elsta handrits. Tímasetning handrita hefur líka gildi fyrir þá sem rannsaka málsögu enda eru þau helstu heimildir um málbreytingar og þróun málsins.

Hvernig eru handrit tímasett?
Þar sem tímasetning handrita er grundvallaratriði fyrir þekkingu á ritmenningu miðalda og mikilvæg fyrir rannsóknir á mörgum fræðasviðum er reynt að tímasetja handrit með einum eða öðrum hætti. Fátítt er að handriti fylgi samtímaheimild um tilurð þess, eins og í formála Flateyjarbókar eða alfræðiritinu AM 194 8vo. Þar skráir skrifari ritunartímann: „En þá þetta var skrifað var liðið frá hingaðburðinum 1387 vetur en það var hinn fyrsti vetur í 17. tunglöld.“ Nafn hans og ritunarstaðurinn koma líka fram: „En Ólafur prestur Ormsson ritaði í litlu stofunni á Geirraðareyri og hann á alla bókina nema hann hafi gefið mig nokkrum og veit það ekki. Lofast því að lesa mig, en gættu, og stel mér eigi.“

Rannsóknir á rithöndum
Stundum má ráða ritunartíma af vísbendingu í handriti, s.s. í Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol. frá árinu 1363. Hvert og eitt handrit sem hægt er að tímasetja með nokkurri vissu er mikilvægur leiðarsteinn við tímasetningu annarra handrita frá sama skeiði. Rithendur úr Flateyjarbók og Skarðsbók Jónsbókar hafa t.a.m. fundist í öðrum varðveittum handritum sem þá var hægt að tímasetja af meiri nákvæmni. Slíkar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á starfsemi bókamiðstöðva þar sem voru skrifaðir eða settir saman textar og bækur með afar fjölbreyttu efni, bæði trúarlegu og veraldlegu.

Hver hélt um penna og hvenær?
Langoftast er tímasetning handrita byggð á skrift og stafsetningu. Þá er tekið mið af því hvernig þróun skriftar og málbreytinga, sem koma fram í breyttri stafsetningu skrifara, er talin hafa orðið í landinu. Óþekkt atriði, á borð við aldur skrifarans og hvaðan af landinu hann var, eru þá tekin til greina þar sem roskinn skrifari notaði sennilega eldra skriftarlag eða málstig heldur en yngri starfsbróðir hans og málbreytingar komu upp í mismunandi landshlutum og breiddust mishratt út. Tímasetningarnar verða því ekki nákvæmari en svo að þær hlaupa á 50 ára tímabili. Handrit sem talið er skrifað um 1200 gæti þá hafa legið á púlti skrifarans einhvern tímann á árabilinu frá 1175 til 1225.

um talningu varðveittra handrita
um safnmörk og heiti handrita
um máldaga og bókaeign klaustra