Prentvæn útgáfa
Handritin heima
Leiðbeiningar og verkefni
Nálgun fræðsluefnisins Handritin heima ásamt kennsluleiðbeiningum og verkefnum er í anda skiptingar námskrár í íslensku í lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf auk ritunar, bókmennta og málfræði. Hún tekur einnig mið af þeirri þverfaglegu afstöðu sem tekin er í námskránni. Fræðsluefnið fjallar um ritun, bókmenntir, handverk og menningarsögu. Tilvalið er að nota það í þemavinnu og auðvelt að tengja við fleiri námsgreinar grunnskólans, s.s. samfélagsgreinar og listgreinar. Nýmæli verksins felst ekki síst í þeim upplýsingum sem þar má finna um verkmenningu við bókagerð sem og félags- og menningarsögunni sem þar er komið á framfæri. Þrjú megin þemu, Miðlun að fornu og nýju, Bókaframleiðsla og Um miðlun sagna, miða að því að kynna nemendum margvíslegt gildi handritanna við varðveislu menningararfsins.
Hvert þema skiptist í nokkur viðfangsefni. Hverju þeirra fylgja uppástungur að umræðuefni er nýta má sem innlögn eða hugstorm til að vekja áhuga á efninu ásamt verkefnum þar sem nemendur eða nemendahópar vinna sjálfir að lausn spurninganna. Sleppa má umræðuefni og leggja verkefni strax fyrir nemendur ef kennarar vilja fremur beita aðleiðslu en innlögn.
Umræðuefnin má einnig nota sem verkefni og leggja fyrir einstaka nemendur eða hópa en kennari getur stýrt umræðum og tekið saman niðurstöður í lokin. Enn fremur er hægt að prenta út verkefnablöð sem nemendur svara skriflega eða munnlega, ýmist sem einstaklingsverkefni eða hópverkefni. Stungið er upp á nokkrum ritunarverkefnum sem leggja má fyrir hvort sem er án innlagnar eða eftir innlögn efnisins, sem þau taka til, auk þess sem nokkur hóp- og þemaverkefni eru aðgengileg. Ekki er nausynlegt að nota öll verkefni sem boðið er upp á innan hvers þema.
Rauði þráðurinn í hugmyndafræði verksins er að tengja efnið við veruleika nemenda og fá þá til að gera samanburð, ýmist innan verkefnanna eða að þeim loknum. Kennari bendir þá t.d. á bókina sem miðil er tengir saman fortíð og nútíð, þ.e. munnmenntasamfélag og upplýsingasamfélag. Orðsendingar merktar Til kennarans eða Úrvinnsla eru til þess fallnar að auðvelda kennurum að draga fram þau atriði sem vert er að komi fram hverju sinni. Innan hvers þema er a.m.k. eitt viðamikið þemaverkefni sem tekur til helstu þátta umfjöllunarinnar. Þá er nemendum skipt í hópa sem afla sér vitneskju um ákveðin atriði en til að átta sig á heildarmyndinni þurfa nemendur að kynna niðurstöður sínar í lokin og bera saman við efni annarra hópa.
Gagnlegt er að kennarar skoði og nýti í kennslunni eftirfarandi myndir á fræðsluvefnum Handritin heima:
|