| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |

 

Upphaf ritunar
  Uppruni Íslendinga »
  Rúnir og munnleg geymd »
  Upphaf bókagerðar »
  Hvað var skrifað fyrst? »
  Sérstæð menning »
  Bækur og valdhafar »
  Blómaskeið »
  Aldaskil »
  Handritasöfnun »

 

 

Forsíða > Sagan > Upphaf ritunar > Rúnir og munnleg geymd

 

Prentvæn útgáfa

Rúnir og munnleg geymd

Smelltu á myndina!
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira

Trérekan frá Indriðastöðum

Munnleg varðveisla
Þó bækur og ritmenning séu ekki ný af nálinni í veraldarsögunni er tiltölulega stutt síðan allur þorri fólks í hinum vestræna heimi hafði aðgang að menntun og þar með að bókum. Í sumum löndum heimsins á fjöldi fólks enn ekki kost á grunnmenntun og er því bæði ólæs og óskrifandi. Vegna þess hve ritmenning er viðamikill þáttur í flestum nútímasamfélögum stendur ólæst fólk oft hallari fæti en aðrir. Læsi snýst þá ekki einungis um kunnáttu í lestri og skrift heldur jafnframt um aðgang að samskiptum og þekkingu, hlutdeild í tungumáli og menningu. Skrifleg boð eða leiðbeiningar birtast afar víða, ekki aðeins á pappír heldur einnig á sjónvarps- og tölvuskjám, skiltum og vegvísum. Ólæsir eru því oft útilokaðir frá ýmsum upplýsingum og þar með fullri þátttöku í ritvæddum samfélögum.

Fyrir tíma ritmáls og bóka byggðist miðlun og varðveisla fróðleiks á munnlegri geymd. Fólk sagði sögur og flutti kvæði, bæði til að færa fróðleik og siðfræði samfélagsins í orð og miðla þeim áfram til annarra, en einnig sér og öðrum til skemmtunar. Helgisiðir og trúariðkun hverfðust einnig um talað, sungið eða kveðið mál, lög voru sett og dómar kvaddir upp, allt án fulltingis skrifaðra texta eða bóka.

Lifandi flutningur
Í sérhvert sinn sem saga eða kvæði var flutt fór fram upprifjun og nýsköpun í senn þar sem flytjandinn tók mið af áheyrendum og tilgangi hverju sinni. Frásagnarefnin voru því í sífelldri endursköpun, ýmist var aukið við eða fellt úr, allt eftir aðstæðum og áherslum. Ef vitneskja, saga eða kvæði féll hins vegar úr minni fólks fór það endanlega forgörðum og varð ekki endurheimt. Sennilega hefur skipt meira máli að lög og reglur samfélagsins væru í fastari skorðum og þau fest vel í minni, sama máli hefur vísast gegnt um helgisiði sem byggjast oft á föstu orðfæri eða söngvum.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Myndatexti

Frásagnarformúlur og bragreglur
Athuganir á munnlegri varðveislu fróðleiks og aðferðum sagnafólks við að miðla þekkingu sinni eða sagnasjóði hafa leitt í ljós að frásagnir af atburðum geta lifað æði lengi í sögnum, jafnvel um aldir. Ekki þarf að búast við að frásagnir af þeim toga séu að öllu leyti sagnfræðilega réttar enda breytast þær í meðförum sagnafólksins sem mótar þær við hvern flutning. En með því að rekja sögur eftir fastri niðurskipan efnisatriða, þ.e. eftir svonefndum frásagnarformúlum, reynist sagnafólki auðveldara að muna atburðarás sagna. Frásagnaformúlur koma einnig við sögu í byggingu ritaðra sagna og eru því ekki einhlít vísbending um munnlega frásagnarhefð.

Að sama skapi verða bragreglur, stuðlasetning, rím og hrynjandi í kveðskap til þess að auðvelda fólki að festa hann í minni. Forn norrænn kveðskapur, þ.e. eddukvæðin, sem skiptast að efni í goðakvæði og hetjukvæði, sem og mörg dróttkvæði, voru flest skráð á bókfell á 13. öld en eru talin ort fyrir tíma ritaldar og varðveitt í munnlegri geymd.

Rúnir
Á þeim tíma sem Ísland byggðist áttu norrænar þjóðir sér ritmál, rúnir, sem voru ristar eða höggnar í hart efni; tré, horn eða stein, enda einkennast þær af beinum línum og hvössum hornum. Fáar rúnaristur hafa fundist á Íslandi, flestar á legsteinum frá 14.-17. aldar . Ein elsta rúnaristan sem varðveist hefur er talin vera frá 12. öld og fannst á reku sem grafin var upp úr mýri á Indriðastöðum í Skorradal 1933. Hún er nú varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands.

Myndatexti við tréreku:
Ein elsta rúnarista sem varðveist hefur er talin frá 12. öld og fannst á reku sem grafin var upp úr mýri á Indriðastöðum í Skorradal 1933. Hún er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Á rekunni stendur:
Páll lét (gera) mig Ingjaldr gerði
Líklega er sagnorðið gera undanskilið en getið er um eigandann og handverksmanninn sem gerði rekuna.

Á öðrum grip í Þjóðminjasafni, Valþjófsstaðahurðinni, sem talin er frá því um 1200, er einnig forn rúnaáletrun. Efri útskurðarmynd hurðarinnar sýnir m.a. ljón liggja á gröf riddara, bjargvættar síns, en undir ljóninu stendur með rúnaletri: Sjá hinn ríka konung er vá dreka þenna.

Rúnasteinar og myndsteinar
Rúnaristur voru stuttorðar og oft notaðar til að merkja hluti, í stutt skilaboð, s.s. vörulista, eða til grafskriftar. Langir textar á borð við lög eða sögur hafa varla verið skráðir með rúnaletri. Bæði hefði það verið afar seinlegt og efnið óþjált, en auk þess allsendis óþarft að eiga sögu varðveitta á 15 steinum eða rúnakeflum þegar lifandi munnleg frásögn stóð til boða. Engu síður hafa fundist nokkrir myndsteinar með skreytingum sem sýna sagnaefni úr munnlegri geymd og gætu hafa þjónað svipuðum tilgangi og kirkjulistin síðar, þ.e. að minna fólk á efni goðsögunnar – eða ritningarinnar.

Árið 1918 fannst merkilegur myndsteinn í Upplandi í Svíþjóð sem sýnir að líkindum veiðiferð Þórs og Hymis jötuns sem greint er frá í Snorra-Eddu. Myndin er talin frá 11. öld og má teljast vitnisburður um að goðsagnaefnið sem Snorri Sturluson tók saman í Eddu sína um 1220 hafi lifað í fornum norrænum munnmælum frá því fyrir kristnitökuna. Einnig hafa fundist myndir sem tengjast sömu goðsögn á steinum frá Gotlandi, Jótlandi og Englandi.

 


 

um rúnir
um ólík sjónarhorn í eddukvæðum
| UM VEF | KRÆKJUSAFN | ORÐASAFN | HEIMILDIR |
:: © hönnun hugrunar 2001 ::