Upphaf bókagerðar

Með kristnitökunni árið 1000 barst fleira til Íslands en ný trúarbrögð, í kjölfarið fylgdi líka ný þekking og verkkunnátta. Hver þjóð sem tók kristna trú þurfti einnig að eiga menn með einhverja kunnáttu í lestri, skrift og bókagerð.

Til að festa kristna trú í sessi þurfti að mennta presta, stofna klaustur og breiða boðskap kirkjunnar sem víðast. Bækur voru örugglega notaðar til þess á fyrstu öldum kristni þó engar heimildir hafi varðveist um bókagerð eða bækur frá þeim tíma. Íslendingar lærðu líka að lesa og skrifa latínuletur og er fram liðu stundir einnig að búa til bækur úr kálfsskinni.

Kristin trú er í grunninn bókstafstrú þar sem bókin eða biblían varðveitir guðs orð. Hún styðst einnig við fastmótað kerfi helgihalds sem er samt breytilegt eftir dögum og athöfnum af því að ólíkir helgisiðir fylgja hverri kirkjulegri athöfn s.s. skírn, giftingu og greftrun. Til að fara rétt að í hverju tilviki var nauðsynlegt að varðveita rétta siði og það var gert með bókum.

Smelltu á myndina!

Þetta handritsblað er talið með því elsta sem varðveist hefur á íslensku.
Á því eru útskýringar á biblíutextum.

 

Smelltu á myndina!

Bókagerð barst til Íslands með kristni.
Íslendingar tóku fljótt að skrifa á eigin tungu.


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima