|
Prentvæn útgáfa
Upphaf ritunar
|
|
Myndatexti |
Hið ritaða orð
Um aldir varðveitti fólk allra handa fróðleik
um samfélag sitt og sögu í minni sér
og miðlaði með frásögn til annarra. Þegar Ísland
byggðist á árunum 870-930 flutti landnámsfólkið með sér
lög og siðareglur samfélaganna sem það kom
frá, ættfræði og ýmsan annan
fróðleik, þ.m.t. kveðskap og sagnir,
sem höfðu e.t.v. varðveist í munnlegri
geymd kynslóð fram af kynslóð. Eftir
að kristin bókmenning hélt innreið sína
hófu Íslendingar að skrifa niður texta á bókfell
með bókstöfum en útbreiðsla rittækninnar
varð viðameiri og með nokkru öðru sniði
en víðast hvar annars staðar í Evrópu.
Með kristnitökunni, sem alla jafna er tímasett árið 1000,
urðu að sönnu aldahvörf í menningar-
og menntalífi Íslendinga. Sú guðs
kristni sem þingheimur á Alþingi ákvað þá að lúta,
var umfram allt útbreidd og boðuð fyrir tilverknað orðsins, – enda
var orðið, samkvæmt biblíunni, upphaflega
hjá guði. Dauðlegir menn höfðu þó náð tökum á að festa
orð, og þar með hugsun sína, s.s. vísindi,
listir og allra handa fróðleik, á haldbetra
efni en svo að það hyrfi um leið og hljómur
raddar þagnaði eða minni brysti. Þá tækni
hafði kristin kirkja tekið í sína þjónustu æði
snemma og átti bóklistin ekki síst þátt í útbreiðslu
trúarinnar, löngu áður en hin fyrsta íslenska
kirkja var reist.
Kristin bókmenning
Þrjár þýðingar lærðar
frá miðöldum. Elucidarius, Um kostu og löstu,
Um festarfé sálarinnar. 1989. Gunnar Ágúst
Harðarsson bjó til prentunar. Reykjavík,
Hið íslenska bókmenntafélag.
Inngangur:
Umorða
Víkingar, sem gerðu árásir á kristnar þjóðir á 9.
og 10. öld urðu, er fram liðu stundir, kristnir
sjálfir og í norrænum löndum spruttu
upp klaustur og skólar, sams konar stofnanir og áður
höfðu verið helsta skotmark víkinganna. Á miðöldum áttu
skólar á Vesturlöndum tungumálið sameiginlegt,
latína var bókmálið sem flest lærdómsrit
voru skráð á, bæði biblían
og rit kirkufeðranna. Latínu þurfti að kunna
listavel því ekki var nægilegt að geta
lesið málið heldur þurfti líka
að vera fær um að skrifa eigin bækur á latínu.
Kristin
trú má teljast „bókstafstrú“ í þeirri
merkingu að hún byggir á og styðst
við hið ritaða orð, bæði við boðun
og þjónustu guðdómsins. Af þeim
sökum er nokkuð víst að fljótlega
eftir trúarumskiptin námu Íslendingar þá list
að lesa og rita bækur, – á latínu
um leið og þeir kynntust kristnum menningarheimi,
en jafnframt á eigin tungu þar sem trúboð hlýtur
að hafa farið fram á því máli
sem almenningur skildi og gat tileinkað sér. Með innlendu
trúboði og messuhaldi hófst því fyrsta
glíma Íslendinga við að aðlaga
erlendan hugtakaforða að móðurmáli
sínu.
Frumraunir hinna fyrstu íslensku skrifara hafa ekki
varðveist fram á okkar daga þar sem elstu
heimildir um innlenda bókiðju eru handritabrot
sem talin eru frá því um miðja 12. öld,
u.þ.b. 150 árum eftir kristnitökuna. Allmörg þessara
brota innihalda trúarlega texta og af þeim að dæma
hefur glíman gengið allvel fyrir sig, en um leið markaði
hún e.t.v. upphafið að áframhaldandi
aðlögun og þróun íslenska orðaforðans
og ritmálsins í takt við síbreytilegar
aðstæður, aðlögun sem stendur fram á okkar
daga.
Heimild:
Margir hafa rætt upphaf ritunar á Íslandi
og mótun ritmáls og orðaforða í árdaga
kristinnar trúar sjá t.d. Hreinn Benediktsson.
1965: 13-18, Jakob Benediktsson. 1965: 95-96, Ólafur
Halldórsson. 1990: 361-362, Stefán Karlsson.
1989/2000: 40-41 og 1985/2000: 413, Kristján Árnason.
2001, 2002a og b, 2004.
|