Prentvæn útgáfa
Uppruni Íslendinga
|
|
Myndatexti |
Landnám Íslands
Samkvæmt heimildum var Ísland numið á árabilinu
870-930, þ.e. á víkingatímanum,
sem kenndur er við útrás norræna
sæfara til austurs, vesturs og suðurs frá heimahögunum.
Norrænir víkingar stunduðu bæði
kaupskap og strandhögg en settu auk þess niður
byggðir sínar víða í Evrópu.
Heimildir greina frá búsetu þeirra í Frakklandi, á Írlandi,
Englandi og Bretlandseyjum, þ.e. Suðureyjum, Orkneyjum
og Hjaltlandi, en sumir þeirra freistuðu gæfunnar á ónumdum
landsvæðum, s.s. í Færeyjum, á Íslandi
og síðar á Grænlandi.
Heimildir um landnámið
Töluvert er vitað um landnám Íslands
enda gefa ritheimildir frá 12. og 13. öld, á borð við Landnámu, Íslendingabók
og Íslendinga sögur, auk fornleifa, örnefna
og erfðarannsókna gleggri mynd af uppruna íslenska
landnámsfólksins en þekkist víða
annars staðar. Ritheimildum ber yfirleitt saman um að landnáminu
hafi verið stjórnað af norrænu fólki, í Landnámu
er t.d. rakinn uppruni 268 karla og kvenna af þeim
430 landnemum sem þar eru nefndir. Langflestir þeirra
eru norrænir (rúm 90% karla og 80% kvenna) þó einnig
sé þar nefnt fólk frá Bretlandseyjum.
Hafa má í huga að Landnáma, sem
telja má karlasögu, skrifaða af körlum
og fyrir karla, tilgreinir aðallega húsbændur
en nefnir í fáu konur, vinnufólk og þræla
sem frekar gætu hafa átt ættir að rekja
til Bretlandseyja. Alls er talið að til landsins
hafi flutt um það bil 10-20.000 manns á landnámstímanum
og getur Landnáma þá aðeins sáralítils
hluta þeirra, einkum hinnar ráðandi yfirstéttar
norrænna stórbænda sem skipaði efstu.
lög samfélagsins og setti mark sitt á það.
|
|
Myndatexti |
Norrænt yfirbragð
Norræn menningaráhrif urðu enda æði
ríkjandi á Íslandi, tungumálið er
að meginstofni norrænt, þó í því finnist
keltnesk tökuorð, mannanöfn og örnefni,
en jafnframt benda fornleifar til þess að atvinnu-
og lifnaðarhættir landnámsfólksins
hafi í meginatriðum verið með norrænu
sniði. Keltnesk áhrif hafa fyrst og fremst verið talin
merkjanleg í frásagnarminnum þeirra fornsagna
og kvæða sem síðar voru færð í letur á Íslandi,
einkum fornaldar sagna og goðfræðilegra kvæða.
Mörgum hefur fundist sem ekki væri öll sagan
sögð um ætterni landnámsfólksins í íslenskum
fornritum sem skráð voru 12. og 13. öld.
Forvitni Íslendinga um uppruna sinn hefur orðið til þess
að fræðimenn á sviði erfðafræði
hafa leitað leiða til að fá nánari
mynd af samsetningu landnámshópsins og benda
niðurstöður þeirra til þess að hún
hafi verið nokkuð á aðra lund en ráða
má af einum saman ritheimildum og fornleifum.
Vitnisburður erfðaefnis
Rannsóknir á erfðaþáttum núlifandi íslenskra
karla og kvenna og samanburði þeirra við erfðaefni
fólks af norrænu, skosku og írsku þjóðerni
gefa til kynna hvernig samsetningu landnámshópsins
gæti í raun hafa verið háttað.
Erfðaefni þeirra íslensku karla sem kannaðir
voru reyndist í rétt rúmlega 80% tilvika
mega rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en í tæplega
20% tilvika til Bretlandseyja. Ríflega 62% þeirra íslensku
kvenna sem athugaðar voru báru hins vegar í sér
erfðaefni sem rekja mátti til Bretlandseyja en
einungis rúm 37% þeirra báru norrænt
erfðaefni. Af niðurstöðunni má ráða
að í heildina hafi um 60% landnámsfólksins
verið af norrænum uppruna en 40% frá Bretlandseyjum.
Hið háa hlutfall kvenna frá Bresku eyjunum
gæti t.d. stafað af því að íbúar
norrænu byggðanna á Bretlandseyjum, t.a.m.
norrænir víkingar og innfæddar konur,
eða afkomendur þeirra, hafi átt stóran þátt í landnámi Íslands.
Vestnorrænt mál- og menningarsvæði
Í
slenska telst til vestnorrænna mála ásamt
færeysku og norsku en sameiginlegt upphaf má rekja
til í frumnorrænu, tungumáls sem virðist
hafa verið nær hið sama í Danmörku,
Svíþjóð og Noregi fram á 9. öld. Þá gengu
yfir töluverðar hljóðbreytingar sem greindu
að austnorrænu málin, sænsku og dönsku,
og vestnorrænu málin, þ.e. norsku og síðar
mál hinna norrænu byggða á Bretlandseyjum,
Færeyjum, Íslandi og Grænlandi sem töldust öll
tilheyra vestnorrænu málsvæði og virðast
einnig hafa verið eitt menningarsvæði fram
til 1200. Um það vitna forníslenskar ritheimildir,
sögur Noregskonunga, Færeyinga og Orkneyinga auk Íslendinga
sagna og frásagna af norrænu landnámi
og byggð á Grænlandi.
Ráðandi stéttir og ritmenning
Hinir fjölmörgu norrænu karlar sem voru í forsvari
fyrir landnámi Íslands skipuðu ráðandi
yfirstétt en konur þeirra, vinnufólk
og þrælar sem e.t.v. voru mörg af keltneskum
uppruna, áttu einnig sinn menningararf sem var eflaust
miðlað eftir föngum þeirra á meðal þó augljóslega
hafi hin norræna menning haft yfirhöndina. Sú ritmenning
sem varðveitt íslensk miðaldahandrit bera
vott um er afsprengi og í þágu ríkjandi
yfirstéttar sem skráði sögu sína
og hugðarefni, í og með til að staðfesta
tilkall sitt til landsvæða og samfélagslegra
valda.
Munnleg frásagnarhefð, efnaminni bænda,
kvenna og lægri stétta samfélagsins,
sem stunduð var frá öndverðu samhliða
bókmenningu kirkju og lærðrar yfirstéttar,
komst ekki að sama skapi á bókfell. Almennt
er þó litið svo á að með tímanum
hafi verið sótt í þann munnlega frásagnar-
og kveðskaparsjóð, t.a.m. þegar kveðskapur,
s.s. dróttkvæði og goðafræði, ásamt
heiðnum goðsögum í Snorra-Eddu og fásögnum
og kvæðum af forsögulegum hetjum og konungum
samhliða innlendum frásögnum af fólki á söguöld
var færður í letur á 12. og 13. öld.
Nokkuð skiptar skoðanir eru þó um hversu
mikinn þátt hin munnlega hefð átti í tilurð bóksagnanna.
Agnar Helgason. 2004. „Uppruni Íslendinga.
Vitnisburður erfðafræðinnar.“ Hlutavelta
tímans. Menningararfur í Þjóðminjasafni.
Ritstj. Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir. Þjóðminjasafn Íslands,
Reykjavík.
Gísli Sigurðsson. 2000. Gaelic Influence in Iceland.
Historical and Literary Contacts. A Survey of Research. 2. útgáfa.
Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Kristján Árnason.
Stefán Karlsson. Tungan
Ath, færa mynd á rúnasíðu
Á landnámsöld skrifuðu norrænir
menn rúnir. Þær voru ristar eða höggnar
í hart efni; tré, horn eða stein, enda einkennast
þær af beinum línum og hvössum hornum.
Rúnaristur voru stuttorðar og oft notaðar til
að merkja hluti, í stutt skilaboð eða til
grafskriftar. Langir textar eins og lög eða sögur
hafa ekki verið skráðir með rúnaletri.
Bæði hefði það verið seinlegt
og efnið óþjált enda til lítils
að eiga sögu varðveitta á 15 steinum.
Þess vegna byggðist margt á munnlegri geymd
en það er þegar fróðleikur, kveðskapur
og sagnir varðveitast í minni og ganga mann fram
af manni.
Það var fyrst þegar kristin bókmenning
hélt innreið sína sem Íslendingar
fóru að skrifa niður lengri texta á
bókfell með bókstöfum.
|