| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |

 

Upphaf ritunar »
  Sérstæð menning »
  Menntun »
  Ritun á norrænu »
  Fjölbreytt sagnaritun »
  Bækur og valdhafar »
  Blómaskeið »
  Aldaskil »
  Handritasöfnun »

 

 

Forsíða > Sagan > Sérstæð menning

 

Prentvæn útgáfa

Sérstæð menning

Kirkjuvald og bókmenning

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina enn meira
Myndatexti

Áhrif kristinnar bókmenningar á valdahlutföll í samfélaginu létu hins á sér kræla fyrr en varði ef marka má greiningu Gísla Sigurðssonar sem bent hefur á þá skammsýni síðari tíma að ætla að lögsögumenn hafi tekið rittækninni fegins hendi þar sem hún hafi létt þungu oki af minni þeirra. Þvert á móti segir hann að í munnmenntasamfélagi sé virðing fólgin í lagakunnáttu og þeirri þekkingargeymd sem varðveitt sé í kveðskap og sögnum. Því telur Gísli að með ritun laga á bókfell veturinn 1117-18 hafi í raun verið seilst í völd og virðingu þeirra munnlega lærðu leikmanna sem skipuðu eina veraldlega embætti landsins, er byggðist á þekkingu á lögum sem voru hornsteinn samfélagsins. Með ritun laganna varð breyting þar á:

Þetta vald var flutt frá hinum munnlega lærða lögsögumanni og munnlega þjálfuðu lögmönnum landsins til bókarinnar og biskupsins með því að skrifa lögin á bók og ákveða að þegar ólíkar uppskriftir greindi á skyldi lögbókin hjá biskupnum ráða.

Sumarið eftir lagaritunina voru rituðu lögin í fyrsta sinn sögð upp, þ.e. lesin, á Alþingi. Um það verk sáu að líkindum bóklærðir kennimenn á meðan lögsögumaðurinn sem fram til þess hafði verið holdgervingur laganna stóð þögull hjá. Er fram liðu stundir var úrskurðarvald í vafamálum fært úr höndum lögmanna, við því hlutverki tóku lögbækur í Skálholti. Eins og Gísli gerir grein fyrir snérist breytingin frá munnmenntasamfélagi til ritmenningar því líka um samfélagsleg völd. Ættir voldugra lögsögumanna sem áttu mikið undir sér fyrir tíð ritlistar hurfu með tímanum í skuggann af ættum sem tóku ritmenninguna upp á sína arma. Gísli tekur þó undir þá skoðun Orra Vésteinssonar að innleiðing kristni og kirkjuveldis hafi farið hægt af stað og ekki valdið verulegri röskun á samfélaginu framan af:

Alkunna er að íslenskir höfðingjar höfðu mikil áhrif innan kirkjunnar frá fyrstu tíð. Kirkjan naut þannig stuðnings helstu valdamanna í fyrstu og því að sjálfsögðu ekki um það að ræða framan af að menn hafi fengið völd vegna kirkjutengsla sinna.

Á 12. öldinni urðu breytingar þar á. Orri telur t.a.m. að forsendur þess að völd tóku að safnast á færri hendur séu sprottnar af kirkjueign höfðingja sem með því móti uku völd sín og áhrif í næsta nágrenni sínu en létu ekki mikið til sín taka á Alþingi. Ástæðuna álítur hann vera þá að þeir hafi viljað fjarlægjast fyrri stjórnunaraðferðir sem byggðust á sterkum efnahag og hernaðarkrafti höfðingja. Sú þróun leiddi til þess að tvenns konar valdsmenn náðu fótfestu í samfélaginu, stórbændur, sem alla jafna voru prestar eða kirkjueigendur, ráðandi í héraði, en atkvæðalitlir í landsmálum, og goðorðsmenn, sem smám saman komust yfir flest goðorð í landinu og náðu þar með yfirburðastöðu í veraldlegri stjórnun landsins. Markmið þessara hópa voru ólík:

What is notable about these families who did not play national politics but continued to govern their respective areas is that in most of them the heads were priests. In this they differed from the chieftain families the heads of which, as we have seen, for the most part, ceased becoming priests before the end of the twelfth century. This suggests that the local leaders had different aspirations from the chieftains. While regional and even national overlordship had become the aim of most of the goðorð-owning families by the beginning of the thirteenth century, it seems that the local leaders reacted to the changing political situation by concentrating their efforts on consolidating their local power and improving their government. Many of them being priests is a clear indication that local power was their primary consideration.

Eftir umbrotatíma 13. aldar, þegar þjóðfélagið var fallið í nýjar skorður, Íslendingar lutu yfirstjórn Noregskonungs og stofnanir og stjórnskipulag kirkjunnar höfðu fest sig í sessi náðu stórbændur ekki síður að hasla sér völl innan hinnar nýju samfélagsgerðar en goðorðsmennirnir. Ættbogar stórbænda nutu þá góðs af því baklandi og þeirri stöðu sem þeir höfðu hlúð að heima í héraði. Jafnframt höfðu þeir öðlast ákveðna fágun sem gerði það að verkum að þeim veittist auðvelt að sækjast eftir og halda embættum, bæði innan hirðarinnar sem og í valdastöðum innanlands. En áður ríkti Sturlungaöld.

Þær ættir sem risu til mestra metorða í íslensku samfélagi á s.hl. 12. aldar og fram eftir 13. öld tengdust kirkjuveldi og bókmenningu á ólíkan hátt. Ásbirningar höfðu einna minnst ítök innan kirkju og bókmenningar enda var blómaskeið þeirra stutt. Nokkuð sama máli gegnir um Svínfellinga framan af uns eitt ættmenna þeirra, Brandur Jónsson, varð ábóti að Þingeyrum og síðar biskup á Hólum um miðja 13. öld. Haukdælir áttu töluvert meira undir sér, stóðu enda nær Skálholtsbiskupsstól frá upphafi, lögðu bæði til jörðina sjálfa árið 1056 auk þess sem fyrstu biskupar landsins komu úr þeirra röðum. Haukdælir uxu því bæði að völdum og bóklegum menntum eftir því sem áhrif kirkjunnar jukust í samfélaginu og komu margir biskupar á báðum biskupsstólum úr þeim ættboga. Oddaverjar urðu snemma þekktir fyrir lærdóm sinn en höfðu auk þess ítök á báðum biskupsstólum landsins. Þeir höfðu auðgast af kirkjujörð sinni en virðing þeirra jókst til muna eftir að Loftur Sæmundsson, hins fróða, kvæntist Þóru, laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Sonur þeirra Jón Loftsson var einn virtasti höfðingi landsins í sinni tíð og virðist hafa borið höfuð og herðar yfir aðra samlanda sína.

Upphaf sagnaritunar, einkum konungasagna hefur verið rakið til þessara tveggja ætta sem báðar ráku mikilvæg menntasetur á heimajörðum sínum, í Haukadal og Odda. Oddaverjar höfðu trúlega sérlegan áhuga á konungaævum þar sem þeir gátu sjálfir rakið ættir sínar til Noregskonunga. Til marks um hversu snemma öflugt menntastarf hófst á þessum ættaróðulum má nefna að líklegast er talið að hinn lærði höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar tengist öðrum hvorum staðnum.

Ekki er ósennilegt að ætla að sú málstýring sem felst í að upphefja dróttkvæðahefðina og sagnaefni úr munnlegri geymd og festa hvorutveggja á bækur eigi rætur að rekja á svipaðar slóðir enda dróttkvæði upphaflega ort til að lofa konunga. Tilhvata hennar má rekja til stöðu þeirra ætta sem sóttust eftir að auka mennt sína, veg og virðingu með því að tengja sig við hina samvestnorrænu kveðskapar- og sagnahefð sem ritmáls-staðallinn var sóttur í, e.t.v. með þá löngun að leiðarljósi að eiga samstöðu með, þ.e. samlagast eða tilheyra, hópi erlendra valdhafa á borð við Noregskonunga.

Gísli Sigurðsson. 2002: 60-64.
Sama: 64.
Sama: 94-95.
Sama: 93.
Sama: 69.
Það er stórbændur, innskot mitt.
Orri Vésteinsson. 2000: 239.
Sama: 240.
Sá hinn sami og snéri Alexanders sögu á þjóðtunguna úr latnesku söguljóði, sbr. Íslensk bókmenntasaga I. 1992. 415-418. (Sverrir Tómasson)
Sjá umfjöllun hjá Gísla Sigurðssyni. 2002: 65-69, þó einkum bls. 68. Sjá einnig Ármann Jakobsson. 1997: 297.
Sjá um konunglegan metnað Haukdæla og Oddaverja hjá Ármanni Jakobssyni. 1997: 294-299. Einnig Guðrún Nordal. 2001: 29-30.
Sjá t.d. Guðrún Nordal. 2001: 25.
Ármann Jakobsson. 1997: 12, um tengsl konungasagnaritunar við dróttkvæðahefðina sem var hluti af samvesturnorrænum bókmenntaarfi er Íslendingar varðveittu sérlega vel.

Hvers vegna var bókagerð almennari á Íslandi en í Evrópu?

Bókagerð kirkjunnar fór fram á kirkjustöðum eða í klaustrum landsins eins og algengt var í Evrópu. Af miklum fjölda varðveittra handrita og fjölbreyttu efni þeirra sést að fleira hefur verið skráð en trúarrit. Efni sumra handrita er þannig að það er ólíklegt að kirkjan hafi látið skrifa þau enda öruggt að fleiri en prestlærðir menn kunnu að skrifa og létu skrifa fyrir sig.

Upphaf íslenskrar sagnaritunar má rekja til þess að hér var stunduð óvenjumikil ritun á íslensku í bland við lærdóm á evrópska vísu. Jafnframt því ól íslenskt þjóðskipulag af sér menn sem höfðu efni, aðstöðu og áhuga á að láta skrá sögur á bækur. Sterk frásagnarhefð sem sótti í auðugan sagnasjóð sá mönnum síðan fyrir nægu yrkisefni. Þessa ríku frásagnarhefð má e.t.v. skýra með því sem nefnt hefur verið nýlendumenning. Evrópskir menningarstraumar, góður efnahagur auk sterkrar frásagnarhefðar hafa verið taldar helstu ástæður þess að farið var að skrifa íslenskar sögur á bækur á 12. öld.

Teiknað innsigli sem sýnir klaustur í AM 217 8vo

Bókagerð í klaustrum

Í sumum klaustrum og á biskupsstólunum voru sérstakar skrifarastofur þar sem unnið var að bókagerð enda þurfti kirkjan stöðugt á nýjum bókum að halda. Bækur slitnuðu vegna notkunar eða urðu ónýtar eftir slæma meðferð, auk þess sem þær úreltust til dæmis vegna nýrra trúarsetninga.

 

 

Um blablabla
Um blablabla
| UM VEF | KRÆKJUSAFN | ORÐASAFN | HEIMILDIR |
:: © hönnun hugrunar 2001 ::