| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Handritasöfnun og Árnasafn > Eldur í Höfn og Árnasafn
 
Sögusviðið »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
 
  Handritasöfnun hefst »
  Fornmenntir á Íslandi »
  Árni Magnússon »
  Eldur í Höfn og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Eldur í Kaupmannahöfn og Árnasafn

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Hornið þar sem hús Árna og Mette stóð í Kaupmannahöfn. Ljósmynd Davíð Kristinsson.

Að kvöldi miðvikudags 20. október 1728 kviknaði eldur í Kaupmannahöfn sem logaði samfleytt til laugardags, 23. október, og eyddi ríflega fjórðungi borgarinnar, þar af nær helmingi húsa í elsta hluta hennar. Meðal þeirra 1600–1700 húsa sem urðu eldinum að bráð var heimili Árna Magnússonar og Mette við Stóra Kanúkastræti og háskólabókasafnið við Fiolstræti en á báðum stöðum voru íslensk handrit varðveitt. Árni átti ekki von á að eldurinn næði að húsi hans og brást of seint við að koma bókum sínum undan. Nú er þó talið að flestar skinnbækur hans hafi bjargast en fjölmörg pappírshandrit og prentaðar bækur brunnu ásamt mörgu því sem hann hafði skrifað hjá sér um handritin.

Lýsing Íslendingsins Jóns Ólafssonar frá Grunnavík sem varð vitni að eldsvoðanum 22 ára að aldri, er elst þriggja samtímalýsinga á brunanum. Hún kallast Relatio af Kaupinhafnarbrunanum og hefst með frásögn af eldsupptökum.

Upptök eldsins
Eldurinn kom upp í hornhúsi á Litla Sankti-Klemensstræti og Volden gegnt Vesterport, ekki langt frá þeim stað þar sem Tívolí stendur nú. Kaupmaður í húsinu hafði verið að steypa kerti og síðla sama dag fór barn upp á háaloft með logandi ljós að leita að einhverju sem það hafði týnt fyrr um daginn, en missti ljósið í hey eða tréspæni sem þar var og eldur blossaði upp. Hvasst var úr suðvestri og barst eldurinn fljótt til nærliggjandi húsa og breiddist á ógnarhraða um borgina til norð-austurs svo eldtungurnar sleiktu fljótlega hús og götur miðborgarinnar.

Allt gekk á afturfótunum þetta kvöld. Auk hvassviðris ollu þröngar götur og mannmergð því að erfitt var að snúa slökkviliðsvögnum og koma vatnssprautum fyrir. Fólk flúði út á götur í angist og reyndi að bjarga eigum sínum. Mikil ringulreið ríkti, himininn varð svartur af reyk og rauðglóandi sem eldský. Í ofanálag var vatnsskortur og slökkviliðið hafði verið á brunaæfingu (Sprøjteprøve) sama dag, fengið sér neðan í því og var óhæft til að sinna starfi sínu. Yfirmenn slökkviliðsins náðu ekki tökum á ástandinu og undir morgun var lögreglustjórinn svo niðurbrotinn vegna atburða næturinnar að hann fór heim til sín og drakk sig fullan. Að auki kom upp annar eldur í bruggverksmiðju við Nørregade í norðurhluta borgarinnar.

Hús Árna brennur
Á öðrum degi náði eldurinn til Þrenningarkirkjunnar og háskólasvæðisins. Þegar Árni frétti að morgni fimmtudags að eldur hefði læst sig í turn Frúarkirkju, í nokkur hundruð metra fjarlægð frá húsi hans, varð honum ljóst að nú yrði að koma handritasafninu undan. Jón frá Grunnavík og Finnur Jónsson, síðar biskup, aðstoðuðu hann auk þjónustufólksins. Í sameiningu tókst þeim að koma 4-5  vagnhlössum með innbúi, bókum og skjölum undan en annað varð eldinum að bráð. Þegar eldurinn barst í húsið og ekki var hægt að bjarga fleiru sagði Árni: „Þarna eru þær bækur sem aldrei og hvergi fást slíkar til dómadags.“

Á þriðja degi, föstudegi, var loks reynt að ráða niðurlögum eldsins með skipulögðum hætti og á laugardegi tókst að slökkva hann. Þá stóðu borgarbúar eftir í sárum og horfðu upp á borg sína í rjúkandi rústum en talið er að allt að 20% þeirra hafi misst heimili sín í brunanum.

Afdrif íslenskra handrita
Meðal íslenskra skinnhandrita sem brunnu í háskólabókasafninu voru Kringla, eitt aðalhandrit Heimskringlu, talið með sömu hendi og Staðarhólsbók Grágásar (AM 334 fol. frá um 1260-81), Knýtlingasaga (saga Danakonunga) frá því um 1300, Gullinskinna konungasagnahandrit frá lokum 14. aldar, tvö handrit Sverris sögu og brot úr Orkneyinga sögu. Bóksafn fræðimannsins Peder Resens, sem hann gaf til háskólans og innihélt m.a. 15 miðaldahandrit, brann allt utan einnar skinnbókar sem var í láni hjá Árna Magnússyni. Það var AM 399 4to, Resensbók, frá miðri 14. öld með A-gerð Guðmundar sögu biskups.

Af hinu dýrmæta bókasafni Árna Magnússonar er nú talið að ríflega 400 bækur hafi bjargast, þar með flestar elstu og verðmætustu skinnbækurnar en tólf brunnið, mest Maríu sögur og Karlamagnúsar, auk ótalins fjölda handritabrota. Nær allt safn prentbóka Árna eyðilagðist og mörg pappírshandrit með uppskriftum af eldri textum, auk annála, alþingisbóka og kvæðabóka frá 17. öld. Athugasemdir Árna og önnur gögn hans, s.s. drög að æviágripum lærðra manna, fóru sömu leið. Árni taldi sjálfur að tjónið væri mun meira en hann hafði ekki gert tæmandi skrá yfir safn sitt og skorti því yfirsýn yfir það.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Frúarkirkja gegnt háskólabyggingunni frá 1836. Árni og Mette eru grafin í kór hennar. Ljósmynd Davíð Kristinsson.

Eyðilegging eldsins og ævikvöld
Bruninn lagðist þungt á Árna og hjó óbætanlegt skarð í ævistarf hans. Í einu bréfa sinna skrifar hann: „Þetta er allt eyðilagt, svo að grátlegt er til að hugsa.“ Veturinn sem í hönd fór var kaldur og mat og húsnæði skorti í borginni. Árni og Mette þurftu að flytja í þrígang á einu ári. Hann veiktist rúmu ári eftir brunann og lést 7. janúar 1730, 66 ára að aldri. Mette lést í september sama ár, 85 ára að aldri, og var jarðsett við hlið manns síns í norðanverðum kór Frúarkirkju sem enn var opin brunarúst. Árni undirritaði erfðaskrá þeirra hjóna daginn áður en hann lést, þar sem fram kom ráðstöfun eigna þeirra og handritasafnsins.

Erfðaskrá Árna og Mette – Árnasafn
Samkvæmt erfðaskránni skyldu öll handrit og prentbækur Árna ganga til háskólans. Stofnaður var sjóður af eigum þeirra hjóna og vöxtunum varið til að styrkja einn eða tvo íslenska stúdenta til vinnu við handritasafnið og nægði hann þeim til lífsviðurværis. Tveir tilsjónarmenn skyldu ráðnir til að hafa umsjón með safninu og öðrum eignum, greiða átti skrifurum og bókaverði þóknun og gefa út bækur. Árið 1772 var Árnanefnd (Den Arnamagnæanske Kommission) stofnuð og hefur síðan haft umsjón með dánargjöf Árna og Mette. Frá árinu 1936, þegar handritamálið var í uppsiglingu, skipuðu Íslendingar sérstakan fulltrúa í nefndina en því var breytt 1986 og er hún nú alfarið skipuð af Dönum.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Sívaliturn í Kaupmannahöfn stendur við Þrenningarkirkjuna. Safn Árna var hýst á lofti hennar í ríflega 130 ár eftir dauða hans, 1730-1861. Ljósmynd Davíð Kristinsson.

Rannsóknir íslenskrar menningarsögu
Hið mikla safn Árna varð grundvöllur fjölbreyttra rannsókna á íslensku máli og málsögu, sögu Íslands og bókmenntum til forna og eitt höfuðvígi íslenskrar menningar í rúm 200 ár. Íslendingar stunduðu áfram háskólanám í Kaupmannahöfn og gátu yfirleitt lesið handritin betur en flestir Danir. Fyrir tilstilli Árnastyrks gafst þeim tækifæri til að stunda rannsóknir á efni handritanna og gefa þau út. Þótt safnið væri í Kaupmannahöfn störfuðu margir Íslendingar þar, s.s. Grunnavíkur-Jón, Eggert Ólafsson, Grímur Thorkelín og Jón Sigurðsson forseti, að ógleymdum fræðimönnum frá öðrum Norðurlöndum og fleiri löndum Evrópu.

Húsakynni Árnasafns
Handritum í Árnasafni voru ekki búin glæsileg húsakynni frá fyrsta degi. Bækurnar voru lengstum í þröngum og misjöfnum húsakynnum, oft án viðunandi aðstöðu til rannsókna. Ritari sá um safnið framan af en árið 1883 var Kristian Kålund ráðinn til starfa sem fyrsti bókavörður þess og gegndi því starfi þar til hann lést árið 1919. Eitt mikilvægasta verk hans var að taka saman skrá yfir öll handrit og handritabrot í Árnasafni, og síðan einnig skrá yfir íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu og háskólabókasafni, þar sem hann lýsti útliti og innihaldi hvers handrits í stuttu máli. Auk þess rakti hann sögu handritanna og vitnaði þá til athugasemda Árna ef til voru. Kålund var ötull fræðimaður og gaf út texta á borð við Sturlunga sögu, alfræðitexta, lækningabók og nokkrar Íslendinga sögur, auk rita og greina um margvísleg efni, s.s. norræna skriftarfræði, sögusvið og staðhætti fornsagna, kveðskap um 1500, söfnun og varðveislu handrita og sögu Árnasafns – svo eitthvað sé nefnt.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Múrsteinshúsið á myndinni er gamla háskólabókasafnið við Fiolstræde sem reist var eftir brunann 1728. Þar var Árnasafn hýst á árunum 1861-1957. Ljósmynd Davíð Kristinsson.

Menningararfur í öðru landi
Mörgum Íslendingum, sérstaklega á tímum sjálfstæðisbaráttunnar, hefur e.t.v. fundist sem menningararfi þeirra til margra alda hafi verið sópað úr landi á 17. og 18. öld. Þó var honum eflaust betur borgið í dönskum eða sænskum söfnum en saggafullum íslenskum torfbæjum, sem voru híbýli landsmanna um aldir. Í það minnsta glötuðust flest þau skinnhandrit sem til voru í landinu á tímum Árna Magnússonar en honum tókst ekki að fá í safn sitt. Skilyrði til varðveislu þeirra voru reyndar ekki upp á marga fiska á Íslandi. Þó sumar miðaldakirkjur hafi verið úr timbri voru timburhús annars afar fátíð á Íslandi fram á 17. öld, og voru þá helst verslunarhús erlendra kaupmanna, en hús úr höggnum og límdum steini voru fyrst reist á Íslandi síðla á 18. öld.

Þéttbýlismyndun hófst að einhverju marki um miðja 19. öld en nokkru fyrr, eða árið 1818, var fyrsta vísi þjóðbókasafns, Stiftsbókasafni, komið á fót að tillögu danska fornfræðingsins Carls Christians Rafns. Safnið var til húsa á lofti dómkirkjunnar í Reykjavík til ársins 1881 þegar það var flutt í hið nýreista Alþingishús við Austurvöll og nafninu breytt í Landsbókasafn Íslands. Árið 1909 var safnið flutt í Safnahúsið við Hverfisgötu sem var byggt sérstaklega undir það og var fyrsta eiginlega bókasafnshús landsins. Húsið, hið stærsta og glæsilegasta í landinu á sinni tíð, er nú Þjóðmenningarhús og hýsti handritasýningu Árnastofnunar á árabilinu 2002-13. Íslendingar voru því í raun illa í stakk búnir til að taka við varðveislu hins forna handritaarfs fyrr en við upphaf 20. aldar. Eftir að landið fékk heimastjórn 1904 voru settar fram fyrstu óskir um endurheimt íslenskra skjala og gagna frá Danmörku.

um frásögn Grunnavíkur-Jóns af brunanum
um tjón eftir eldinn í Kaupmannahöfn 1728