| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Aldur og efni handrita > 14. öldin
 
S÷gusvi­i­ »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
 
  Efni handrita 1150–1250 »
  Efni handrita 1250–1300 »
  14. öldin »
  15. öld til siðaskipta »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

14. öldin

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Forni annáll, AM 415 4to frá upphafi 14. aldar, nær yfir tímabilið frá 1 e. Krist til 999 og árin 1270–1313. Ekki náðist að fylla eyðu sem skilin var eftir í bókinni undir annál yfir tímabilið 1000–1269 og í staðinn sett inn alfræðiefni. Í AM 426 4to er pappírsuppskrift Árna Magnússonar af Forna annál.

Fjöldi handrita
Langstærsti hópur varðveittra miðaldahandrita er tímasettur frá um 1300 og frá 14. öld. Þeirra á meðal eru mörg aðalhandrit konunga- og Íslendingasagna, annála og samtímasagna, ýmis kirkjuleg rit og trúarleg kvæði, elstu handrit með fornaldar- og riddarasögum og flest aðalhandrit Snorra-Eddu. Margar þessara bóka eru glæsilegar eins og Skarðsbækur postulasagna (SÁM 1) og Jónsbókar (AM 350 fol.) vitna um. Önnur er safn sagna af postulum Krists en hin lögbók, texti Jónsbókar sem lögtekin var í stað Járnsíðu 1281. Elsta handrit Jónsbókar er frá lokum 13. aldar, á fimmta tug eru frá 14. öld en alls eru á annað hundrað handrit Jónsbókar til á skinni. Skarðsbók Jónsbókar er ein fárra íslenskra bóka sem jafnast á við glæsilegar bækur erlendis á sinni tíð. Skarðsbækur eru taldar skrifaðar í Helgafellsklaustri fyrir Orm Snorrason lögmann (d. 1401/2) en hann gaf kirkjunni á Skarði postulasögurnar og notaði eflaust lögbókina sjálfur, e.t.v. líka sem stöðutákn.

Hagsæld og bókagerð á háu stigi
14. öldin var mikil bókagerðaröld. Handverkskunnátta á háu stigi og stétt atvinnuskrifara voru forsendur þess að efnafólk á borð við Orm lét gera fyrir sig veglegar og stundum listilega skreyttar bækur. Veraldleg sagnaritun hafði náð fótfestu og var bæði mikil og margbreytileg en nýir vindar blésu í þýðingum og ritun helgisagna, kenndir við Benediktína í norðlensku klaustrunum. Efnahagur var blómlegur, útflutningur á hertum fiski hófst frá Íslandi og eftirspurn var mikil í kaþólskum löndum Evrópu. Sumar ættir efnuðust mjög af þeim viðskiptum og e.t.v einnig af sölu grænlenskrar vöru. Stórar og veglegar timburkirkjur sem heimildir greina frá bera líka vott um hagsæld samfélagsins.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Neðri hluti myndskreytingar í Stjórn AM 227 fol. frá 14. öld. Á staflegg myndstafsins, sem teygir sig yfir neðri spássíuna, sitja Davíð og Sál konungur.

Glæsilegar bækur
Frá 14. öld eru varðveitt stærstu og veglegustu handrit sem vitað er til að skrifuð hafi verið á Íslandi. Í þeim er vandað bókfell, stórar spássíur og falleg skrift og greinilegt að Íslendingar hafa þá náð góðum tökum á bókagerð, allt frá skinnaverkun til skriftar og lýsingar. Einkum voru lögbækur og kirkjuhandrit lýst, s.s. tvö handrit Stjórnar, samsteypu norrænna þýðinga nokkrra bóka Gamla testamentis, í AM 226 og 227 fol. Sagnahandrit voru síður lýst, þó eru þrír myndskreyttir upphafsstafir í Kálfalækjarbók Njálu AM 133 fol. frá um 1300 og fyrir kom að konungasagnahandrit, s.s. Flateyjarbók GKS 1005 fol. væru ríkulega skreytt.

Vanir skrifarar og vestnorrænn bókamarkaður
Bókagerð á vegum kirkna og klaustra, lögbókaskrif og sú sagnfræði- og sagnaritun sem Íslendingar iðkuðu efldi færni þeirra við bókagerð. Vanir skrifarar gátu haft atvinnu af skriftum og aukin fagmennska ýtti eflaust undir eftirspurn eftir íslenskum bókum. Á meðan málin á vestnorræna málsvæðinu voru enn töluvert lík og tengslin við Noreg sterk gerðu Íslendingar bækur fyrir þann markað, sérstaklega bækur um erlenda konunga eða jarla, helga jafnt sem veraldlega.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Í Ormsbók AM 242 fol (Codex Wormianus) eru Snorra-Edda, fjórar málfræðiritgerðir og kvæðið Rígsþula sem segir af ferð Heimdallar til mannheima.

Safnrit og samsteypur
Á 14. öld tíðkaðist að safna ýmsu efni saman á eina bók. Flestum tegundum bókmennta var þá safnað í safnbækur, konungasögum á eina, Íslendingasögum á aðra, kveðskap og fræðum á þá þriðju. Hvort tveggja tíðkaðist að setja margar sögur saman í eina bók, safnrit, en líka að búa til eina sögu úr mörgum, samsteypu. Íslendingasögum, fornaldar- og riddarasögum var yfirleitt haldið aðskildum en konungasögum eða samtímasögum af 12. og 13. aldar höfðingjum steypt saman, líkt og í Sturlunga sögu.

Á fyrsta áratug aldarinnar var ýmsum fróðleik safnað saman í Hauksbók (nú í þrennu lagi AM 371, 544 og 675 4to), sögulegu efni, guðfræði og alfræði, s.s. landafræði, náttúrufræði, tímatali og reikningslist, auk annars. Þar eru Breta sögur og Trójumanna saga af erlendum toga en Landnáma, Kristni saga, Fóstbræðra saga og Eiríks saga rauða með innlendu eða norrænu efni auk Völuspár og Hervarar sögu og Heiðreks sem er þar elst varðveittra fornaldarsagna. Hún tilheyrir hópi átta fornaldarsagna sem tengjast efni norrænna og þýskra fornkvæða en skiptar skoðanir eru um hvenær það munnlega sagnaefni var fyrst skráð á bækur. Þessar átta fornaldarsögur eru harmþrungnar í anda hetjukvæðanna og lúta því öðrum lögmálum en aðrar fornaldarsögur sem enda farsællega.

Breytt samfélag, nýjar bókmenntir
Í Hauksbók eru raktar ættir Hauks Erlendssonar (d. 1334), lögmanns í Noregi og ráðgjafa konungs, sem lét gera bókina og skrifaði töluvert af henni sjálfur. Rithönd Hauks er elsta þekkta rithönd nafngreinds Íslendings. Hann er með fyrstu fulltrúum nýrrar yfirstéttar á Íslandi, embættismaður konungs og titlaður riddari í sumum heimildum. Efni Hauksbókar er til marks um áhugasvið Hauks og heimsmynd, í senn norræna og evrópska.

Eftir lok þjóðveldissins sóttu nýir þegnar Noregskonungs efni bóka í ríkara mæli til nýrra bókmenntagreina. Í Evrópu höfðu rómönsur, rutt sér til rúms á 12. og 13. öld, vinsælt skemmtiefni lágaðals og vaxandi borgarastéttar. Frumsamdar íslenskar riddarasögur og flestar fornaldarsögur eru taldar af þeim toga. Sögurnar gerast í skyldum en þó ólíkum heimum, sögusvið riddarasagna er í suðri en fornaldarsagna í norðri, Artúr konungur er þá fulltrúi hins riddaralega heims en Goðmundur konungur á Glæsivöllum hins forna norræna. Í báðum heimum drýgja söguhetjurnar dáðir, takast á við þrautir, bardaga og ferðalög í leit að ríki eða kvonfangi. Yfirnáttúrulegir eða fjölkunnugir andstæðingar eða aðstoðarmenn koma gjarnan við þá sögu en leitin fær ávallt farsælan enda.

Þýddar riddarasögur, hetjulegar fornaldarsögur og rómönsur
Leifar af stóru sagnasafni frá um 1300-1325 eru nú varðveittar í tvennu lagi, annars vegar í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi (Perg. nr. 7 4to) og hins vegar í Árnasafni (AM 580 4to) en Árni Magnússon fékk þann hluta handritsins úr safni Ole Worm eftir hans dag. Alls eru nú 10 sögur í bókarhlutunum tveimur, tvær þýddar riddarasögur og tvær frumsamdar í Árnasafni en frumsamin riddarasaga og þrjár fornaldarsögur, Hrólfs saga Gautrekssonar, Örvar-Odds saga og Ásmundar saga kappabana, auk Jómsvíkinga sögu og Egils sögu Skallagrímssonar í Stokkhólmi. Hvernig sem stóð á því að handritið skiptist þannig milli landanna tveggja er vitað að efni þess vakti þar áhuga á 17. öld þegar heimildum var safnað af kappi í þjóðarsögur Dana og Svía.

Úr munnlegri sagna- og kvæðahefð
Fornaldarsögur gerast á Norðurlöndum á forsögulegum tíma en efniviðurinn var sóttur í munnlega sagna- og kvæðahefð norrænna og germanskra þjóða, sama sagnasjóð og Saxi leitaði fanga í við gerð Danasögu sinnar. Fornaldarsögur voru taldar til heimilda um fornsögu Norðurlanda frá 17. öld. og fram á 19. öld þegar viðhorf fræðimanna til sannleiksgildis þeirra breyttist.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
María með Jesúbarnið í Teiknibók AM 637 a III fol. Mörg skáld ortu kvæði og drápur henni til heiðurs.

Helgisögur og trúarlegur kveðskapur
Síðla á 13 öld hófst nýtt skeið í helgisagnaritun, kennt við norðlenska Benediktínaskólann en ábótar og munkar af þeirri reglu urðu helstu fulltrúar hennar á 14. öldinni. Helgisögur urðu þá fyllri og stíllinn skrúðmeiri. Tímatal þeirra, lýsingar á dyggðum dýrlingsins og útleggingar textans urðu ítarlegri og sótt í allar tiltækar heimildir, innlendar sem erlendar, t.a.m. rit kirkjufeðranna, til að staðfesta frásögnina.

Trúarlegar drápur frá 12. og 13. öld eru varðveittar í 14. aldar handritum, s.s. Harmsól, Leiðarvísan og Líknarbraut í AM 757 a 4to, frá um 1400, eða Geisli frá 1153 sem aðeins finnst í heild í tveimur 14. aldar handritum. Hið sérkennilega og merka Sólarljóð, lýsing látins föður til lifandi sonar á líkamlegum dauða sínum og handanheimsvist, er þó aðeins varðveitt í yngri handritum. Í tímans rás breyttist orðfæri og myndmál lofkvæðanna, þau voru í fyrstu ort til Krists og Drottins sem konunga en kristinn táknheimur og líkingamál náði fótfestu í kenningasmíð skáldanna, ekki síst myndmál sólar og birtu eins og mörg kvæðaheitin bera með sér. Frá 14. öld er ort til heiðurs Maríu guðsmóður, helst er Lilja eftir Eystein munk í 100 erindum, eitt þekktasta trúarljóð íslenskra miðalda sem boðar þá breytingu að skáldamálið skuli vera skýrt og auðskiljanlegt.

Sögur og kvæði af Guðmundi biskupi góða
Af Guðmundi góða Arasyni Hólabiskupi (f. 1161, b.1202-37) fóru líklega sögur þegar í lifanda lífi. Stuttu eftir dauða hans var efnt í sögu sem nefnd er Prestssaga Guðmundar Arasonar og tekin var í Sturlungasafnið en frásögninni þar lýkur í vígsluferð verðandi biskups. Um og eftir 1315 hófst sagnaritun af Guðmundi þegar reynt var að staðfesta helgi hans sem dýrlings og voru fjórar sögur hans settar saman á um þriggja áratuga skeiði. Sögurnar af Guðmundi eru aðgreindar A-D, flokkunin miðast ekki við aldursröð þeirra heldur afstöðu til heimilda, A stendur þeim næst en á hinum er helgisagnablærinn meiri. Guðmundar sögur C og D bera einkenni norðlenskrar helgisagnaritunar, C-sagan er stundum eignuð Bergi Sokkasyni (d. 1350) en D-sagan er verk Arngríms Brandssonar (d. 1361) ábóta á Þingeyrum.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Möðruvallabók AM 132 fol. er stærsta safnrit Íslendingasagna sem varðveist hefur og eru margar þeirra gefnar út eftir texta bókarinnar.

Nokkrar merkar safnbækur 14. aldar
Möðruvallabók AM 132 fol. er stærsta safn Íslendingasagna með 11 sögum, nú 189 blöð en voru upphaflega fleiri. Rithönd aðalskrifarans finnst í sex öðrum handritum eða -brotum, flestum með kristilegu efni, en hann starfaði líklega við kirkjulega stofnun á Norðurlandi, e.t.v. í Eyjafirði. Skarðsbók postulasagna, SÁM 1, geymir einnig 11 sögur, auk kirkjumáldaga frá Skarði, og er stærsta safn þeirra á íslensku. Í Ormsbók (Codex Wormianus, AM 242 fol.) var safnað fjórum málfræðiritgerðum frá miðöldum auk Snorra-Eddu og Rígsþulu. Ritun hennar hefur verið tengd Þingeyrarklaustri.

 

 

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Bækur voru fluttar milli landa. Í heimildum er sagt frá bókakistum en einnig kemur til greina að bækur hafi verið teknar úr bandinu, brotnar saman og stungið í hirslu, s.s. kistu eða tunnu. Á sumum bókum sést að þær hafa verið brotnar saman, líkt og í Flateyjarbók GKS 1005 fol.

Jón í Víðidalstungu lætur skrifa sér bækur
Jón Hákonarson (f. 1350) bjó á Grund í Eyjafirði og í Víðidalstungu í Húnavatnssýslu. Hann var efnamaður og lét skrifa fyrir sig bækur á borð við Vatnshyrnu, mikið safn Íslendingasagna sem brann í Kaupmannahöfn 1728, og Flateyjarbók GKS 1005 fol., safn konungasagna sem er einstök skinnbók fyrir margra hluta sakir.

Flateyjarbók er skrifuð undir lok 14. aldar og er að meginstofni saga Noregskonunga en inn í sögur þeirra er fléttað þáttum af Íslendingum og öðrum sögum, s.s. Færeyinga sögu Orkneyinga sögu og Grænlendinga sögu, sem segir af fundi Vínlands eða Ameríku og hefur ekki varðveist annar staðar. Í bókinni er annáll frá dögum Sesars fram til 1394 og ýmis kvæði, m.a. Geisli, dróttkvæð drápa eftir Einar Skúlason til lofs um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung, flutt við skrín hans í tilefni af vígslu Niðaróssdómkirkju 1153. Þar er líka elsta ríma sem til er á bók, af Ólafi helga, einnig eftir Einar, en rímur eru séríslensk grein langra frásagnarkvæða sem upphófst á 14. öld og nutu vinsælda um ríflega 500 ára skeið.

 

 

um norðlenska Benediktínaskólann
um Stjórn og Stjórnarhandrit
um formála Flateyjarbókar
um Flateyjarbók
um bókaútflutning til Noregs
um kvæði og sagnir af Guðmundi góða