| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Aldur og efni handrita > Efni handrita 1150-1250
 
S÷gusvi­i­ »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
 
  Efni handrita 1150–1250 »
  Efni handrita 1250–1300 »
  14. öldin »
  15. öld til siðaskipta »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Efni handrita 1150–1250

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Höggmynd Ásmundar Sveinssonar af Sæmundi fróða á selnum framan við aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Án vitnisburðar varðveittra handrita
Þau 1iðlega 150 ár sem liðu af kristni fram að tíma elstu varðveittu handritabrota voru örugglega bækur og skjöl í landinu. Frá fyrstu tíð þurfti texta við allt kirkjustarf, á latínu og móðurmáli, frumsamda eða þýdda. Biskupsstólar landsins voru stofnaðir og starfræktir á þessu tímabili, Skálholt frá 1056 og Hólar frá 1106, tíund og kristniréttur lögfest og klaustrastarf hófst. Ritmál kom þar við sögu.

Þingeyraklaustur var stofnað árið 1112 af Jóni Ögmundssyni Hólabiskupi en formlega vígt 1133. Á 12. öld voru a.m.k. sjö klaustur stofnuð í landinu, þar af störfuðu fimm óslitið til siðaskipta. Í ýmsum þeirra fór fram umfangsmikil bókagerð og sagnaritun, á Þingeyrum strax um 1200. Um líkt leyti tilnefndi íslensk kirkja tvo innlenda biskupa fyrstu dýrlinga sína, Þorlák helga Þórhallsson og Jón helga Ögmundarson, en því fylgdi helgisagnaritun, tíðagerð og skrá jarteina eða kraftaverka þeirra, á latínu sem móðurmáli.

Latínumennt Íslendinga og innlend fræðaskrif
Heldur fátt er vitað um latínumenntun á Íslandi eða elstu latínutexta. Þýðingar ýmissa verka hafa þó varðveist og verk verið frumsamin á því máli, en nær öll glatast. Upphaf latínumennta er oft rakið til Sæmundar fróða Sigfússonar (1056-1133) sem var einn lærðasti maður á sinni tíð. Hann var goði og prestur í Odda á Rangárvöllum, rak þar skóla og átti þátt í lögtöku tíundar og kristnirétts í landinu. Ritverk Sæmundar, að líkindum á latínu og e.t.v. þau fyrstu af hendi Íslendings, hafa ekki varðveist.

Sæmundur skrifaði um söguleg efni, m.a. Noregskonunga, sem mótuðu fræðaskrif og vitnað er til í síðari verkum, s.s. Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk og Landnámu. Hann var einn ritbeiðenda Íslendingabókar Ara fróða sem bar bókina undir hann og biskupa landsins meðan hún var í smíðum, einhvern tímann á árabilinu 1122-33. Ari felldi þá niður úr fyrri gerð sinni ættartölur og konunga ævir, líklega það fyrsta sem skráð var af konungum á norræna tungu. Ari telst vera upphafsmaður fræðaskrifa á móðurmáli, eins og Fyrsti málfræðingurinn nefnir í ritgerð sinni um miðja 12. öld.

Heimildir og handritageymd
Ýmsar ritheimildir greina frá því 150 ára tímabili sem varðveittar bækur eða skjöl ná ekki til, sumar frásagnir ná aftur fyrir landnám, og fornleifar eða fornminjar varpa líka oft mikilvægu ljósi á það, sem og alla byggð í landinu. Varðveittir miðaldatextar eru nær allir taldir eldri en þau handrit sem geyma þá en mjög mislangt getur hafa liðið frá samningu texta þar til elsta handrit staðfestir tilvist hans. Erfitt er að ákvarða hvort eða hvernig verk hafa breyst frá frumgerð sinni og sum eru til í ólíkum gerðum sem hafa e.t.v. varðveist í nær jafnaldra handritum. Heimildagildi fornrita og -sagna hefur verið, og er enn, metið á ólíka vegu, m.a. eftir efni þeirra, tilgangi og varðveislu en einnig í takt við viðhorf og áherslur fólks eða fræðimanna á hverjum tíma.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Með elstu varðveittu textum eru brot úr kirkjuritum, einkum hómilíur eða predikanir með útskýringum sem prestar fluttu yfir söfnuði sínum. AM 237 a fol, frá um 1150 er með karlungaskrift.

Elstu varðveittu textar, frá um 1150-1200
Brot úr þýddum helgisögum eru meðal elstu handritaleifa, t.d. sögu af heilögum Plácítusi frá 1150-1200 (AM 655 IX 4to) en af honum er líka varðveitt mikil drápa í handritsbroti frá 1175-1225 (AM 673 b 4to). Þar er efni sögunnar fært í dróttkvæðan búning og fellt að norrænni skáldskaparhefð, lofkvæðum til kónga og annarra veraldarhöfðingja. Nikulás saga erkibiskups (AM 655 III 4to) er talin jafnaldri Plácítusdrápu.

Trú- og siðfræðileg uppfræðslurit
Elsta þýðing guðspekilega lærdómsritsins Elucidarius (eða Lucidarius) (AM 674 a 4to, Bókin dýra) er tímasett um 1150-1200 og tvær ólíkar þýðingar af Physiologusi, eða Náttúrufræðingnum, eru frá um 1200 (AM 673 a I og II). Bæði ritin voru þýdd á fjölda tungumála og bárust víða, m.a. sem námsefni prestlinga. Physiologus er dýrafræði með myndum þar sem siðfræðileg merking dýranna er dregin fram. Áhrifa ritsins gætti víða í táknfræði evrópskra miðalda, í listum, bókmenntum og furðudýrafræði (bestiary). Annað Physiologus-brotið (II) var varðveitt með Teiknibókinni (AM 673 a III 4to) og myndir beggja nýttar sem fyrirmyndir í listsköpun fram á 17. öld.

Merki um sagnaritun á móðurmáli
Frá árabilinu 1175-1225, eru elstu brot úr Veraldarsögu (AM 655 VII og VIII 4to), en hún er byggð á erlendu efni og telst með elstu innlendu sagnaritum. Í veraldarsögum er saga heimsins rakin í tímaröð, oft í sex heimsöldrum í samræmi við daga sköpunarinnar, stundum þó sjö eða átta. Rómverjasögur eru taldar frá seinni hluta 12. aldar, settar saman úr þýðingum klassískra latínurita, skólabókum síns tíma, sem steypt var í eina sögu hér á landi. Elsta handritið er þó frá um 1325-40 og hár aldur sögunnar, sem er til í tveimur gerðum, byggir því á öðrum rökum en varðveislu textans.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Brot úr rímfræði (tímatali) í elsta hluta GKS 1812 4to (IV), tímasett rétt um 1200.

Tengsl við evrópskan lærdóm
Starfsemi kirkjunnar miðaðist við að koma kenningum sínum og lærdómi á legg. Á 11. og 12. öld námu sumir íslenskir höfðingjasynir við erlenda skóla og vitað er að íslenskir karlar og konur fóru í suðurgöngur, pílagrímsferðir, jafnvel til Rómar eða Jerúsalem. Nýjar hugmyndir og menningarstraumar bárust með þeim til baka. Pílagrímar gistu oft í klaustrum, kynntust þar e.t.v. merkum ritum eða kenningum og skiptust á sögum við heimamenn eða aðra pílagríma. Leiðarvísir Nikulásar ábóta Bergssonar, frá um 1150, er eina leiðarlýsing íslensks pílagríms sem varðveitt er, í alfræðiriti frá 1387 (AM 194 8vo).

Af varðveittum handritum og handritabrotum má ráða að upp úr miðri 12. öld hafi verið komin á tengsl milli íslenskrar ritunar og meginstrauma vestrænnar hugsunar á þeim tíma sem þau voru rituð. Þýddir textar á borð við Elucidarius og Physiologus bera því órækt vitni. Fyrstu ummerki innlendrar sagnaritunar sjást einnig á þessu tímabili, viðfangsefni og aðferðir sótt til lærdómsmenningar Evrópu en verkin sett saman á móðurmáli.

Efni handrita fram til 1250
Varðveitt handrit og handritabrot frá um 1200 til miðrar 13. aldar eru sama efnis og frá elsta skeiði, þ.e. hómilíur, heilagra manna sögur, lög og tímatalsfræði, en þá ber líka fyrst á elstu dæmum um postulasögur (AM 655 XII-XIII og AM 645 4to) og rit á borð við Maríu sögu (AM 655 II og XIX 4to) og Niðurstigningarsögu (AM 645 4to). Viðræður Gregoríusar og hómilíur hans eru í óheilu handriti, AM 677 4to, upphafi 13. aldar ásamt lífssögu Benedikts frá Nursía, upphafsmanns Benediktsreglu. Frá þessum tíma eru líka fyrstu merki um helgisögur af innlendum biskupum og frásagnir af norrænum konungum.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Skáld flytur kvæði sitt frammi fyrir konungum. Myndverk Steinþórs Sigurðssonar á handritasýningu Árnastofnunar í Þjóðmenningarhúsi 2002–13. Höfundar sýningar Gísli Sigurðsson og Steinþór Sigurðsson.

Rit um innlenda biskupa og norræna konunga
AM 645 4to er leifar tveggja bóka, frá um 1220 og 1225-50, og elsta safn heilagra manna sagna á norrænu máli. Í eldri hlutanum er elsta gerð af Jarteinabók Þorláks helga (1133-93), Skálholtsbiskups og fyrsta íslenska dýrlingsins. Upptaka beina hans fór fram í júlí 1198 og á Alþingi sumri síðar voru fyrstu kraftaverkasögur af honum lesnar upp og helgi hans lögtekin. Ritun helgisagna af Þorláki, á latínu og móðurmáli, hefst um svipað leyti í takt við dýrlingahefð kirkjunnar, en yfir 50 kirkjur voru helgaðar honum í kaþólskri tíð.

Elstu varðveittu brot með sögum Noregskonunga teljast einnig frá þessum tíma sem og elsta fornbréfið, AM Dipl. Fasc. LVX nr. 1. Elsta saga Ólafs helga Haraldssonar, er þó fremur lífssaga dýrlings, samin um 1190 og finnst í brotinu NRA 52 frá 1220-30, sem er í Noregi en talið skrifað á Íslandi. Jarteinir Ólafs, e.t.v. úr annari sögugerð, eru í AM 325 IVα 4to frá 1225-50. Ágrip af Noregskonunga sögum í AM 325 II 4to frá 1200-1249, er öllu veraldlegra rit, talið samið af Norðmanni um 1190. Þetta eina varðveitta handrit er þó íslenskt. Ágrip er yfirlitsrit, að líkindum yfir árabilið 850-1177, og í því eru dróttkvæðar vísur, eins og alsiða er í norrænum konungasögum. Dróttkvæði voru upphaflega lofkvæði hirðskálda, ort um afrek og ævi konunga allt frá 9. öld, og mörg varðveitt í sagnaritum.

Norrænar uppruna- eða þjóðarsögur
Norrænir menn hófu að setja saman uppruna- eða þjóðarsögur sínar í byrjun 12. aldar og tengdu þannig lönd sín við kristna sagnfræði miðalda. Ættrakningar konunga til Nóa eða Adams gáfu tilfinningu fyrir uppruna eða upphafi þjóðar og konungdæmis innan heimsmyndar kristinna manna. Sæmundur fróði er oft talinn upphafsmaður konungasagna á latínu en Ari fróði á norrænu, þó konunga ævi hans sé ekki varðveitt frekar en rit Sæmundar. Hryggjarstykki Eiríks Oddssonar, frá um 1150-70, er líka glatað en notað í yngri ritum, s.s. Morkinskinnu og Heimskringlu. Það telst fyrsta samtímasaga af Noregskonungum og vitnar til sjónarvotta að átökum um norska konungdæmið 1136-39.

Þekkt og varðveitt rit á norrænu og latínu
Á Íslandi var saga landsmanna stutt og söguefni því einnig sótt til Noregs og norrænna byggða. Rit af landnámi, upphafi byggðar og kristni, auk konungasagna voru skráð á móðurmáli. Norðmenn skrifuðu líka þjóðarsögu á 12. öld. Tvö latínuverk eru varðveitt og tvö norræn, þ.e. Ágrip og Fagurskinna (Noregs konunga tal) frá um 1220, nú aðeins til í afritum skinnbóka sem brunnu 1728. Á latínu eru Historia de Antiquitate Regum Norwagiensium (Saga Noregs konunga til forna, til 1130) eftir Theodricus munk, frá um 1177-88, og Historia Norwegiae (Saga Noregs), frá 12. eða 13. öld. Eitt skoskt afrit frá um 1500 er varðveitt, líklega skráð eftir orkneysku riti. Í Sögu Noregs er lýsing á þeim löndum sem Norðmenn byggðu, Orkneyjum, Hjaltlandi, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi.

Um 1200 skráði Saxi málspaki (Saxo Grammaticus, 1150-1220) sögu Danmerkur, Gesta Danorum (Afrek Dana) að beiðni Absalons erkibiskups í Lundi. Ritið nær frá fornöld til 1186 en mestu púðri er eytt í ríkisár Valdimars I (d. 1182) uppeldisbróður Absalons. Á Íslandi var Skjöldunga saga sett saman 1180-1200, um danska fornkonunga til Gorms gamla (d. um 959). Sagan er ekki varðveitt en hlutar voru teknir upp í önnur rit og brot úr yngri gerð hennar er varðveitt í AM 1 e beta I fol. Það brot var hluti af sömu bók og brot úr Knýtlinga sögu, nú í AM 20 b I fol, sem segir sögu Danakonunga frá um 950-1187. Bókin sú hefur þá innihaldið alla sögu Danakonunga frá fornöld og fram á daga Knúts Valdimarssonar (d. 1202). Á 17. öld tók Arngrímur Jónsson lærði saman latneska endursögn Skjöldunga sögu í Rerum Danicarum Fragmenta (Danasaga Arngríms) sem telst helsta heimildin um efni hennar.

 

um sagnaritun Ara fróða samkvæmt Snorra
um Elucidarius

um Íslensku og Norsku hómilíubækurnar
um latínuskrif og þýðingar Gunnlaugs munks