| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Aldur og efni handrita > Efni handrita 1250-1300
 
S÷gusvi­i­ »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
 
  Efni handrita 1150–1250 »
  Efni handrita 1250–1300 »
  14. öldin »
  15. öld til siðaskipta »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Efni handrita 1250–1300

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
AM 162 A þetafol. eða þetubrot Eglu er elsta varðveitta dæmi um Íslendingasögu.

Íslendingasögur og eddukvæði á bók
Fyrsti vitnisburður um ritun Íslendingasagna er brot úr Egils sögu, talið ritað um 1250 (AM 162 A þetafol.) en örfá fleiri sagnabrot eru talin til síðari hluta 13. aldar. Auk Eglu finnast þá brot úr Laxdæla sögu og Eyrbyggja sögu (AM 162 D og E fol.) en elstu brot úr Njáls sögu eru tímasett um 1300 (AM 162 B beta og delta fol.). Brot úr Þorláks sögu helga (AM 383 I 4to) er tímasett um miðja öldina og Þorlákstíðir á latínu (Officium Sct. Thorlaci episcopi), sungnar á messudegi hans, eru í AM 241 b V fol. frá 13. öld. Elsta dæmi um lækningabók (AM 655 XXX 4to) er talið frá seinni hluta 13. aldar.

Fyrri greina sér áfram stað í handritum, sögur af heilögum mönnum, postulum og annað trúarlegt efni, lagabálkar og lagasöfn, konungasögur og sagnfræðileg rit, ýmist samin á móðurmálinu eða þýdd. Síðast en ekki síst er eitt þekktasta handrit íslenskra miðalda, Codex Regius eða Konungsbók eddukvæða, GKS 2365 4to, talið ritað um 1260-80 af óþekktum skrifara. Í Konungsbók eru kvæði af norrænum goðum og hetjum sem hefð er fyrir að skipta í goðakvæði og hetjukvæði, flest eru aðeins varðveitt í þessari einu bók.

Vitnisburður handrita fram til síðari hluta 13. aldar
Handrit og handritabrot frá um 1150-1300 gefa e.t.v. mynd af verkum ríflega hundrað skrifara. Erfitt er þó að áætla heildarfjölda þeirra rita sem þessi handritaleifð er runnin frá því einungis fáar bækur eða verk hafa varðveist nær heil eða lítt skert. Meðal merkra verka sem varðveist hafa frá elstu tíð eru Íslenska hómilíubókin, Elucidarius, Viðræður Gregoríusar, Jarteinabók Þorláks helga og Ágrip af sögu Noregskonunga.

Öllu fleiri bætast við frá síðari hluta 13. aldar, s.s. Jómsvíkinga saga, um Danakonunga og stofnun víkingaborgarinnar Jómsborgar á suðurströnd Eystrasalts (AM 291 4to). Alexanders saga er norræn þýðing á latnesku söguljóði um Alexander mikla, Alexandreis frá um 1180 (AM 519 a 4to) og Ólafs saga helga eftir Snorra Sturluson er elst varðveitt í AM 75 a fol. Frá þessu skeiði eru konungasagnasafnið Morkinskinna (GKS 1009 fol.), Konungsbók eddukvæða og aðalhandrit þjóðveldislaganna, Konungsbók Grágásar (GKS 1157 fol.) og Staðarhólsbók Grágásar (AM 334 fol.). Hún geymir ein Járnsíðu, fyrstu lögbók Íslendinga frá norskum konungi, sem hlaut dræmar viðtökur og gilti aðeins áratug, 1271-81. Járnsíða er með annarri og nokkru yngri hendi en Grágásarhlutinn. 

Konungsbók Eddukvæða
Stækkaðu myndina enn meira
Eitt þekktasta handrit íslenskra miðalda er Konungsbók eddukvæða, GKS 2365 4to. Í henni eru kvæði um norræn goð og fornar hetjur sem mörg hafa hvergi varðveist annars staðar.

Hvernig þróast og breiðist bókmenningin út?
Handritageymdin sýnir í grófum dráttum þróun og vöxt bókmenningar sem nær hátindi á 14. öld, a.m.k. hvað handverk og handritagerð varðar. Annálaritun hefst á 12. og 13. öld en ritun þeirra og sagnaritun fylgjast gjarnan að. Þýðingar og sagnaritun færast í vöxt á 13. öld og Íslendingar skrá fleiri greinar en sagnfræði, konunga- eða helgisögur norrænna manna á eigin tungu. Evrópskir menningarstraumar, góð menntun og efnahagur höfðingja ásamt sterkri frásagnarhefð sem sótti í auðugan sagnasjóð eru helstu forsendur þeirrar veraldlegu sagnaritunar sem átti sér stað á 12. og 13. öld. Söguefnin, innlend sem erlend, gefa til kynna hvernig þær stéttir sem gátu komið skemmtan sinni, söguskilningi og lífssýn á bækur, mátu samtíð sína, fortíð og tengsl við umheiminn.

Hin frásagnarverða 13. öld
Allt frá 12. öld og áfram á 13. öld urðu breytingar á íslensku samfélagi og náðu tvenns konar valdsmenn þá fótfestu. Stórbændur, sem voru yfirleitt prestar eða kirkjueigendur, ráðandi í héraði en atkvæðalitlir í landsmálum, og goðorðsmenn sem komust smám saman yfir flest goðorð í landinu og náðu þar með yfirburðastöðu í veraldlegri stjórnun landsins. Þessi þróun raskaði valdajafnvæginu sem var grunnur goðaveldisins og leiddi til þess að innanlandsófriður magnaðist uns skálmöld ríkti loks í landinu. Menn skiptust í fylkingar og gerðu með sér bandalög, en griðrof eða svik voru líka tíð.

Konungur og kirkja sækja í aukin völd
Á sama tíma sótti kirkjan æ fastar að ná yfirráðum í eigin málum og forræði kirkjueigna úr höndum höfðingja. Sú barátta stóð meira og minna alla öldina, Guðmundur Arason Hólabiskup átti í deilum við veraldlegra höfðingja nær alla biskupstíð sína (1203-37). Í Noregi náði Hákon gamli Hákonarson völdum eftir róstusöm ár og vildi þá gera Ísland að skattlandi sínu. Hann leitaði eftir stuðningi íslenskra höfðingja og þegar biskupslaust varð á báðum biskupsstólum árið 1238 beitti hann sér fyrir því að erkibiskup skipaði þar norska biskupa til að styðja fyrirætlanir sínar á Íslandi.

Staðarhólsbók Grágásar og Járnsíða
Stækkaðu myndina enn meira
Staðarhólsbók Grágásar AM 334 fol. geymir að auki ein skinnbóka texta Járnsíðu, fyrstu lögbókar Íslendinga frá Noregskonungi. Járnsíða var gerð að norskri fyrirmynd og þótti ekki henta íslenskum aðstæðum. Hún var þó lögtekin á árunum 1271-73 en gilti stutt því ný lögbók, Jónsbók, var lögtekin 1281.

Endalok þjóðveldis
Eftir átök Sturlungaaldar, sem hófst um 1220 þó aðdragandinn nái mun lengra aftur, leið þjóðveldið undir lok og flestir Íslendingar gengu Hákoni konungi á hönd árið 1262. Öldin er kennd við afkomendur Hvamm-Sturlu, föður Snorra sagnaritara og bræðra hans Sighvats og Þórðar, sem var faðir Ólafs hvítaskálds og Sturlu sagnaritara. Sturlungar áttu goðorð á Vesturlandi en líka á Norðurlandi og Vestfjörðum þegar veldi þeirra reis hæst. Aðrar helstu höfðingjaættir 13. aldar voru Ásbirningar í Skagafirði, Haukdælir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Svínfellingar á Austurlandi og Vatnsfirðingar og Seldælir á Vestfjörðum.

Fræði og sagnarit Sturlungaaldar
Á umbrotatímum 13. aldar urðu til merk rit og nýjar bókmenntir. Snorri Sturluson samdi verk sín á þessum tíma, Eddu, Ólafs sögu helga og Heimskringlu auk þess sem Egils saga hefur verið eignuð honum. Ólafur hvítaskáld þykir líklegur höfundur Knýtlinga sögu (um Danakonunga) auk Þriðju málfræðiritgerðarinnar og Sturla Þórðarson skráði Hákonar sögu Hákonarsonar að ógleymdri Íslendinga sögu þar sem atburðir Sturlungaaldar eru raktir af manni sem lifði þá sjálfur. Í Noregi féll Sturla í ónáð hjá Hákoni konungi en var tekinn í sátt eftir að hann flutti Huldar sögu betur en áður hafði heyrst. Sturla ritaði sögu Hákonar eftir dauða hans 1263. Huldar saga er týnd en hefur verið fornaldarsaga.

Sögur af Íslendingum að fornu og nýju
Hinar höfundalausu Íslendingasögur voru flestar færðar í letur á þessum tíma en þær fjalla um tímabilið frá landnámsöld til fyrri hluta 11. aldar. Ójöfnuður og deilur verða oft aflvaki atburðarásar þeirra og þær hverfast um heiður og sæmd, hefndir, gagnhefndir og lausn deilumála. Í sögunum sést ólík afstaða til, eða togstreita milli fornra og nýrra gilda, sem tekist var á um þegar þær voru skráðar og eru e.t.v. til marks um mismunandi sjónarmið þeirra sem létu setja þær á bækur. Ýmsar virðast hallar undir forn gildi, sæmd sem fólst í að halda vinfengi, ættarböndum og hefndarskyldu í heiðri, meðan aðrar boða eftirbreytni og málalok í anda kristinna gilda. Breytingar á ímynd höfðingja og sambandi þeirra við konungsvald má e.t.v. líka ráða af notkun dróttkvæða, hinni fornu höfðinglegu skáldskaparhefð, sem er mjög mismikil eftir sögum og jafnvel engar vísur í sumum.

Af sumum helstu höfðingjum 12. og 13. aldar voru ritaðar samtímasögur, sem gerast á árunum 1117-1264, en ekki er vitað hverjir voru þar að verki. Flestar þessar sögur eru nú aðeins varðveittar sem hluti af safnritinu Sturlunga sögu ásamt Íslendinga sögu Sturlu sem er meginstofn frásagnarinnar þar. Þórður Narfason, lögmaður á Skarði á Skarðsströnd, (d. 1308) er talinn hafa ritstýrt verkinu um 1300 og eru aðalhandrit Sturlungu, Króksfjarðarbók og Reykjafjarðarbók (AM 122 a og b fol.) frá 14. öld.

Staðarhólsbók Grágásar og Járnsíða
Stækkaðu myndina enn meira
Ástir riddara og hefðarkvenna urðu vinsælt sagnaefni. Riddari á mynd úr Teiknibók AM 637 a III fol. er þó heilagur Georg, verndardýrlingur Englands, sem bjargaði prinsessu úr klóm sædreka. Helgisaga hans er til á íslensku í 15. aldar handriti.

Kurteisin kemur til Íslands
Nýjar bókmenntir bárust til landsins frá Noregi enda voru sterk tengsl á milli landanna. Hákon konungur lagði kapp á að auka fágun við hirð sína og lét þýða riddarasögur úr frönskum ljóðsögum (lais) og kappakvæðum (chansons de geste) í óbundið norrænt mál. Sögur voru einnig þýddar úr latínu og þýsku, s.s Breta sögur og Alexanders saga sem tilheyrðu gervisagnfræði miðalda, og Þiðreks saga af Bern sem sennilega var þýdd úr þýskum miðaldakvæðum sem nú eru týnd. Riddarasögur gerast á fjarlægum slóðum og lýsa ástum hefðarfólks og hirðlífi. Þær urðu feikivinsælar og hófu Íslendingar að rita frumsamdar riddarasögur í kjölfarið, sem þykja þó meira í ætt við fornaldarsögur.

Þýðingar og bókaskrif í klaustrum
Kirkjan stóð frá fyrstu tíð fyrir þýðingum trúar- og fræðirita til eigin nota við messuhald og kennslu. Á hennar vegum hefst sagnaritun á 12. öld með Veraldarsögu, Hungurvöku og ritun innlendra og norrænna helgisagna. Þessi starfsemi, og sjálf bókagerðin, fór fram við kirkjur, biskupsstóla eða klaustur, enda flestir nafngreindir þýðendur eða höfundar íslenskra miðaldaverka klerkar eða munkar. Hlutfallslega eru þeir þó fáir og meginþorri verka eru höfundalaus eða unnin af óþekktum þýðendum. 

Níu klaustur störfuðu á Íslandi í kaþólskri tíð en sagnir eru um önnur sem ýmist stóðu stutt eða fátt er vitað um. Tvær klaustrareglur voru í landinu, í umdæmi Hólastóls voru einkum klaustur af Benediktsreglu en klaustur af Ágústínusarreglu í Skálholtsumdæmi. Reglur Fransiskana og Dóminikana náðu ekki fótfestu á Íslandi en engu að síður hafa áhrif frá þeim verið rakin í fornum textum.

Hólabiskupsdæmi Skálholtsbiskupsdæmi
Benediktsregla Ágústínusarregla
1 Þingeyrar 1133 3 Þykkvabær 1168
2 Munkaþverá 1155 4 Helgafell (Flatey) 1172
7 Reynisstaður 1295 (nunnur) 6 Viðey 1226
Ágústínusarregla 9 Skriða 1493
8 Möðruvellir 1296 Benediktsregla
  5 Kirkjubær á Síðu 1186 (nunnur)

Á 12. öld voru helstu fræðasetur á Suðurlandi í Haukadal og Odda, kirkjustöðum í eigu höfðingja, en merkustu fræðasetur Norðurlands voru Benediktsklaustrin á Þingeyrum og Munkaþverá. Á 13. öld voru þýðingar oftar ætlaðar leikmönnum en sumar eru gerðar af nafngreindum munkum. Við biskupsstólana var efalaust stunduð bókagerð en afar fá varðveitt handrit eru með vissu talin skrifuð þar. Hins vegar hafa handritafræðingar tengt ýmis varðveitt handrit og handritahópa við bókagerð í klaustrum landsins, einkum þá á Þingeyrum, Helgafelli, Munkaþverá, Möðruvöllum og e.t.v. hjá nunnunum að Reynistað.

 

um reglur Benedikts- og Ágústínusarmunka
um tengsl handrita og handritahópa við bókagerð klaustra
um sagnir af fleiri klaustrum á Íslandi
um Konungsskuggsjá