Endurnýting skinnsins
Örk úr Gísla sögu sem notuð hefur verið í bókarkápu utan um aðra bók AM 445 c I 4to. |
Allt frá því farið var að skrifa á bókfell er talið að úreltar og úr sér gengnar skinnbækur hafi verið endurnýttar með einum eða öðrum hætti. Mörg stök handritsblöð hafa einmitt varðveist vegna þess að fólk fann önnur not fyrir þau. Oft er um það að ræða að merkilegt efni hefði glatast að fullu og öllu ef ekki væri fyrir þessi varðveittu endurnýttu skinnrifrildi. Bókfell var ekki hentugt í skó þó Íslendingar væru oft illa skóaðir en ýmsir aðrir möguleikar fundust til að nýta skinnið, t.d. var það oft notað í bókarkápur en líka sem fatasnið eða mjölsigti eins og sjá má af dæmunum á síðunni.
Ef efni bóka úreltist eða var ritskoðað var stundum brugðið á það ráð að afmá blek eða skafa það af bókfellinu. Blöðin urðu að sjálfsögðu þynnri og verri fyrir vikið og sjaldnast tókst alveg að afmá gamla blekið sem oft sést enn móta fyrir. Skafin skinnblöð eða bækur eru kölluð uppskafningar.
Örlög Reykjarfjarðarbókar
Á 17. öld var til ágætt handrit af Sturlungasögu, talið skrifað um 1400, og var bókin í eigu Gísla Jónssonar í Reykjarfirði. Hann lánaði bókina en þar kom að henni leki þannig að blöðin fóru að detta úr henni. Auk þess var hún orðin dökk og morkin fyrir og þótti ekki auðveld aflestrar. Því urðu örlög bókarinnar þau að hún var rifin í sundur og blöðin notuð utan um kver eða notuð í hulstur utan um hnífa. Svipað hefur sjálfsagt farið fyrir mörgum skinnbókum í gegnum tíðina.
Árni Magnússon handritasafnari frétti af þessari skinnbók og skyldi mikilvægi hennar og gerði sér far um að ná í allar leyfar hennar. Á árunum 1701-24 komst hann yfir rifrildi úr 30 blöðum, öllum meira og minna skertum. Þá höfðu um 150 blöð farið forgörðum af bókinni. Leyfar Reykjarfjarðarbókar eru varðveittar undir safnmarkinu AM 122 b fol. og hér fyrir neðan má sjá tvö blöð sem varðveittust að hluta sökum þess að þau voru notuð sem fatasnið sem Árni kom síðan höndum yfir. Þrátt fyrir að eftirsjá sé að texta Sturlungu af þessum blöðum má hafa í huga að sniðið er í það minnsta heimild um klæðnað á 17. öld.
Reykjarfjarðarbók Sturlungu AM 122 b fol. hefur varðveist illa, sum bókarblöðin hafa verið notuð í snið í treyju. | Annar boðungur treyjunnar í Reykjarfjarðarbók AM 122 b fol. |
Uppskafningur. Textinn á þessari síðu Heynesbókar AM 147 4to hefur verið skafinn af skinninu til a ð hægt væri að skrifa annan á það. |
Mjölsigti úr blöðum grísks náttúrufræðirits
Á 12. öld var þýtt á íslensku grískt náttúrufræðirit sem kallaðist Physiologus. AM 673 a I 4to. Ritið var snemma þýtt á latínu og síðan á fjölmargar þjóðtungur. Svo heppilega vill til að tvö samföst blöð hafa varðveist úr þessu merkilega riti sökum þess að fólk fann önnur not fyrir þau og voru þau höfð sem mjölsigti í Dýrafirði á Vestfjörðum. Eins og sjá má á myndunum eru göt í skinninu sem gætu sum hver hafa verið eftir bókaorma en önnur af manna völdum rétt eins og stærri götin á blaðjöðrunum sem hafa verið gerð fyrir festingar eða umgjörð þegar blaðið var notað sem sigti.
Í ritinu er lýsing á ýmsum verum og dýrum með kristilegu og siðrænu yfirbragði þar sem hvert dýr hefur merkingu, annað hvort góða eða illa, í samræmi við kristinn boðskap. Á þeim blöðum sem eru óskrifuð eru myndskreytingar sem gefa til kynna hugmyndir miðaldamanna um fjarlægar og framandi þjóðir. Þessar myndskreyttu síður eru taldar elsta dæmið um íslenskar handritalýsingar sem varðveist hafa. Myndirnar báðu megin á þessu skinnblaði, sem sjá má hér fyrir neðan, eru taldar vera byggðar á gömlum engilsaxneskum fyrirmyndum. Árni Magnússon fékk þetta brot og annað brot af Physiologus ásamt Teiknibókinni af Vestfjörðum en engin handrit með texta Physiologusar hafa varðveist á á öðrum Norðurlöndum.
Ein af fimm stuttum lýsingum Physiologusar er á þessa leið: Sírena jarteiknir í fegurð raddar sinnar sæti krása þeirra er menn hafa til sælu í heimi hér og gá þess eins og sofna svo frá góðum verkum. En dýrið tekur menn og fyrirfer þeim þá er þeir sofna af fagri röddu. Svo farast margir af sællífi sínu ef það eitt vilja gera í heimi hér. |
Smellið hér til að lesa allan texta brotsins >>
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima