Viltu vita meira um varðveislu og gildi handrita?

Bókalán
Gildi bóka til forna sést ekki síst á því hversu mikið fólk lánaði og fékk bækur lánaðar. Á miðöldum var nefnilega enn langt í stofnun eiginlegra almenningsbókasafna eins og þau þekkjast nú á tímum. Sama bókin gat jafnvel verið í umferð í nokkur hundruð ár en það ber vott um mikla endingu skinnsins. Bækur ónýttust þó og entust misvel. Spássíugreinar gefa, sem svo oft áður, drjúgar vísbendingar um bókalán því í Nikullássögu Perg 4to nr. 16 stendur:

Sjaldan kemur lán hlæjandi aftur því nú er brotið spjaldið og illa velkt bók

Árni Magnússon handritasafnari komst að því þegar hann spurðist fyrir um örlög bóka sem illa höfðu varðveist að ástæðan var oftar en ekki bókalán á milli bæja. Þá gátu einstaka blöð og kver týnst úr bókinni ef hún var laus í kilinum. Einnig er hugsanlegt að fólk hafi tekið bækur í sundur og borið eitt og eitt kver upp að ljósi til að sjá betur við lesturinn.

Sturlungueintak Gísla Jónssonar sem uppi var á 17. öld fór illa er bókin var lánuð. Hún lenti í leka og í kjölfarið tóku blöðin að detta úr henni. Jafnframt var bókin orðin fremur fúin og svört og því þótti fólki engin ástæða til að varðveita hana. Hún var því rifin í sundur og blöðin notuð í ýmsum tilgangi, t.d. sem bókarkápur utan um kver. Upphaflega var bókin 180 síður en Árna Magnússyni tókst einungis að bjarga 30 þeirra, hinum hafði verið fleygt. Sum blaðanna hafa verið notuð í snið.

Oddur biskup Einarsson sem einnig var uppi á 17.öld lenti í þeim raunum að fá að láni bók og lána hana áfram til þriðja manns sem fór heldur illa með hana og eyðilagði. Biskup var að vonum leiður mjög yfir örlögum bókarinnar. Nafn á stórri bók með konungasögum er tilkomið vegna bókaláns á 17. öld. Handritið var lánað til Borgarfjarðar og gekk þar milli bæja í óþökk eigandans sem reyndi margítrekað að fá bókina aftur. Handritið gengur síðan undir nafninu Hulda sem stafar af því að verið var að pukrast með það í leynum.