Prentvæn útgáfa
Litir
|
|
Litasteinar og bindiefni. |
Litir í handritalýsingum
Þær skreyttu skinnbækur sem varðveist hafa hér á landi eru fæstar jafn glæsilegar og erlendar bækur. Litir í íslenskum handritum eru yfirleitt ekki eins skærir og í evrópskum handritum en sá munur gæti stafað af varðveislu íslensku handritanna sem flest eru dekkri en hin evrópsku. Ekki er vitað með vissu hvaðan Íslendingar fengu litina í handritin en líklega hefur annars vegar verið notast við jurtaliti en hins vegar innflutta liti frá Evrópu, mestmegnis í formi litasteina.
Litarefnin voru mulin niður í fíngert duft sem síðan var blandað saman við bindiefni á borð við eggjarauðu, eggjahvítu eða fiskilím til að festa litinn við bókfellið. Ein aðferðin fólst í að þeyta eggjahvítu í froðu og láta hana standa uns hún rann út. Þá var auðvelt að blanda litaduftinu saman við og blandan festist vel við skinnið. Sá hængur var þó á að nokkuð auðvelt var að leysa litinn upp með vatni svo e.t.v. var öðrum bindiefnum bætt saman við.
Smellið til að fá lýsingu á litablöndun úr Uppskriftabók Árnastofnunar >>
|
|
Opna úr Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol. |
Litir í Skarðsbók Jónsbókar
Eina rannsóknin sem gerð hefur verið á litanotkun í íslensku handriti fór fram við University College í London árið 1993. Við rannsóknina var notuð smásjártækni sem gerði fólki kleift að kanna litina í bókinni án þess að hrófla nokkuð við henni. Handritið sem skoðað var, Skarðsbók Jónsbókar, er eitt af fegurstu og mest skreyttu handritunum sem varðveist hafa, skrifað 1363. Í lýsingum á síðum handritsins fundust sex litir, rauði liturinn vermilion, gult orpiment, rauðgulur realgar, rautt okkur (red ocre), blátt azurite og beinhvíta (bone white).
Aðrir litir, einkum grænblá og blá litbrigði, voru ekki könnuð til hlítar en virðast blöndur af litnum verdigris, sem er unninn úr spanskgrænu, sem og dökkgrænn litur sem gæti verið blanda af verdigris og green earth eða grænum leir. Meginniðurstaða rannsóknarinnar var að hráefni litanna sem unnt var að greina með vissu í lýsingum Skarðsbókar fyndust ekki í íslenskri náttúru heldur væri um innflutt litarefni að ræða, samskonar og notuð voru við handritalýsingar annars staðar í Evrópu.
|
|
Græni liturinn hefur étið sig í gegnum bókfellið á síðu Svalbarðsbókar AM 343 fol. |
Litablöndun
Að ýmsu þurfti að huga við samsetningu og blöndun lita. Í græna liti mátti t.d.aðeins nota ákveðin bindiefni, e.t.v. hefur ekki verið farið eftir því í dæminu hér til hliðar. Einnig gat komið fyrir að liturinn smygi of langt inn í skinnið, jafnvel þannig að hann kæmi í gegn hinumegin á síðunni. Myndirnar hér fyrir neðan eru af báðum hliðum sama blaðs, stillt saman eins og spegilmynd. Þá sést greinilega hvernig leggurinn niður úr skreytta stafnum kemur í gegn á hinni síðunni.
|
|
|
|
Heilsíðuskreyting á síðu Stjórnar AM 227 fol. |
Bakhlið sömu síðu í handritinu Stjórn AM 227 fol. |
|