| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Bókaskreytingar
 
Handverkið »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Bókaskreytingar »
  Stíltegundir »
Teiknibókin »
  Spássíumyndir »
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Bókaskreytingar

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Myndstafur og upphafsstafur í Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol.

Skreytilist
Kirkjur voru einu listasöfnin fyrr á tímum enda átti kirkjan fjármagn til að láta útbúa listaverk guði til dýrðar. Varðveitt handrit og skreytingar þeirra eru auk útskurðar helst til vitnis um íslenska miðaldalist. Myndskreytingar í handritum eru ekki síst mikilvægar vegna þeirra vísbendinga sem þær gefa um að kirkjulist, hafi staðið hér með blóma á Íslandi og máluð verk, s.s. helgimyndir, sem síðar hafa farið forgörðum, hafi skreytt kirkjur. Myndlist í íslenskum handritum hefur lítið verið rannsökuð en þær rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að Íslendingar sóttu áhrif víða að úr Evrópu, einkum frá Englandi.

Myndskreytingar í handritum eru nefndar lýsingar og sögnin að lýsa, sem er bókstafleg þýðing latneska orðsins illuminare, er notuð yfir þá iðju. Hugsanlega á notkun orðsins þær skýringar að erlendar bækur voru oft gulli lagðar og því ljómuðu skreyttar síður þeirra. Af varðveittum handritum má sjá að þeir sem skrifuðu og lýstu handrit náðu býsna langt í list sinni hvort sem um var að ræða stafagerð, skrautverk eða myndir.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Opna úr lögbókinni Grágás, Staðarhólsbók AM 334 fol., frá seinni hluta 13. aldar með fjölda upphafsstafa.

Þróun lýsinga í íslenskum handritum
Elstu lýsingar sem öruggt má telja að séu íslenskar eru í tveimur handritabrotum af fræðiritinu Physiologus frá því um 1200. Þær eru rómanskar að gerð í öðru brotinu en lýsingar í hinu brotinu benda til gamalla fyrirmyndar, mögulega af engilsaxneskum uppruna. Tvö handrit íslensku þjóðveldislaganna, Staðarhólsbók Grágásar AM 334 fol. og Konungsbók Grágásar GKS 1157 fol. frá því um og upp úr miðri 13. öld eru fagurlega lýst rómönskum upphafsstöfum sem bera vott um að um miðja 13. öld hafi lýsingahefðin verið búin að festast í sessi. Fá myndskreytt handrit eru þó varðveitt fram undir 1300 en upp úr því fjölgar þeim til muna.

Á 14. öld stóð bókagerð í mestum blóma á Íslandi og á þeim tíma virðast Íslendingar hafa náð góðum tökum á öllum þáttum bóklistarinnar, allt frá skinnaverkun til skriftar og skreytilistar. Af fjölda og fjölbreytileika myndskreyttra handrita frá þessum tíma má ráða að þróast hafi ákveðnir „skólar“ í handritalýsingum, t.a.m. í klaustrunum að Helgafelli þar sem Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol. er talin skrifuð og myndskreytt og Þingeyrum þar sem gera má ráð fyrir að Biblíuþýðingin Stjórn AM 227 fol. hafi verið skrifuð og lýst.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Flúraður upphafsstafur úr Staðarhólsbók Grágásar AM 334 fol.

Nafnlausir listhagar
Myndlistarmenn miðalda voru, eins og skinnaverkendur og skrifarar, flestir óþekktir verkmenn. Þær fáu heimildir sem gefið geta til kynna nöfn þeirra benda til þess að þeir hafi í flestum tilvikum verið karlmenn. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að konur hafi einnig komið að þessari vinnu eins og raunin var í erlendum nunnuklaustrum þar sem heimildir sýna að konur hafi verið mikilvirkar í bókagerð og ekki síst handritalýsingum alveg frá því á 10. öld. Víst er að íslenskar konur, og eflaust þar á meðal nunnur, lögðu sinn skerf til skreytinga kirkna, í það minnsta með útsaumi og vefnaði ef ekki annað.

Handritalýsendur merktu sér yfirleitt ekki handrit fremur en skrifarar. Undantekningu má þó finna í formála Flateyjarbókar þar sem fram kemur hverjir skrifuðu og lýstu hana og auk þess fyrir hvern bókin var skrifuð. Slíkt er einsdæmi í íslenskum miðaldahandritum. Það voru prestar tveir, Jón Þórðarson og Magnús Þórhallsson sem lýsti einnig bókina alla og auk þess er talið að hann hafi lýst annað feikifallegt handrit, Stjórn AM 226 fol.


Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Heilsíðuskreyting (myndstafur) í Biblíuþýðingunni Stjórn AM 227 fol.

Lýsingar: upphafsstafir og myndstafir
Algengasta lýsing í handritum er í upphafsstöfum og myndstöfum. Myndstafir standa við upphaf nýrrar sögu eða nýrra bálka í lögum og tengist myndefni þeirra gjarnan efni textans eða er lýsandi fyrir hann á einhvern hátt. Upphafsstafir eru oftast flúraðir eða skreyttir og standa við upphaf kafla eða efnisgreina en eru minni en myndstafir og algengari í textanum. Erlendis tíðkaðist nokkuð að gull væri lagt í skreytingar á síðum handrita en það virðist hafa verið sjaldgæft á Íslandi þó finna megi örfá dæmi þess.

 

 

 

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Myndstafur og upphafsstafir í konungasagnahandritinu Flateyjarbók GKS 1005 fol.

Menn hafa notað mismunandi myndstíl og liti svo nærri má segja að hvert myndskreytt handrit hafi sín einkenni þó finna megi handritahópa sem bera mjög lík stíleinkenni. Handrit sem innihalda. Sögur af heilögum mönnum og konum sem og aðra trúarlega texta eru mörg listilega skreytt og bera vitni um íburð og ríkidæmi kirkjunnar. Margar lögbækur eru ennfremur fagurlega myndskreyttar en mikill fjöldi íslenskra lögbóka hefur varðveist. Á sumum þeirra, t.d. Heynesbók AM 147 4to og Reykjabók AM 345 fol frá síðari hluta 15. og 16. aldar eru spássíur nær hverrar síðu skreyttar með fjölbreyttum og litskrúðugum mannlífsteikningum sem greinilega eru gerðar af hæfileikaríkum teiknurum.

 

 

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Myndstafur úr lög-bókinni Svalbarðsbók AM 343 fol.

Sagnahandrit og kvæðabækur
Sagnahandrit eru oft með skrautlegum upphafsstöfum sagna og kapítula, stundum í lit, enda þótt myndstafir séu afar sjaldgæfir. Nær einu varðveittu sagnahandritin sem hafa að geyma myndlýsingar eru Njáluhandritið Kálfalækjabók AM 133 fol., sem í eru þrír myndstafir, og konungasagnahandritið Flateyjarbók GKS 1005 fol. sem er ríkulega myndskreytt en nokkur fleiri konungasagnahandrit innihalda einnig skreytingar.

 


Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Blekteikningar í Margrétar sögu AM 431 12mo.

 

 

Rímna- og kvæðabækur eru yfirleitt ekki skreyttar þó finna megi undantekningar eins og rímnahandritið AM 604 4to. Lýsingarnar í þeirri bók eru nær allar unnar með bleki og standa oftast á spássíum.

Á sama hátt er lítil bók með Margrétar sögu AM 431 12mo, frá því um 1500, skemmtilega myndskreytt með blekteikningum en annars var sjaldgæft að litlar bækur væru skrauti hlaðnar. Í lok bókarinnar stendur skrifað á spássíu:



Skrifari bókarinnar hefur líklega verið Jón Arason, sonur Ara prests á Vestfjörðum á fyrri hluta 16. aldar en bróðir hans Tómas og faðir þeirra Ari prestur Jónsson skrifuðu og skreyttu margar bækur með ýmsu efni. Rithendur þeirra eru hins vegar svo líkar að erfitt hefur reynst að greina þær í sundur.

Skreytingar í rímnabókinni AM 604 4to og Margrétar sögu þessari eru dæmi um aðferð sem sést víða í 16. aldar handritum og felst í því að prentaðir stafir úr bókum eru notaðir sem fyrirmyndir að upphafsstöfum í handritum. Feðgarnir þrír skrifuðu einnig og skreyttu fyrrnefnt rímnahandrit.

um listhefð landnámsmanna
um myndir í stað orða