Bækur með tréspjöldum gátu enst í margar aldir en oft mæddi mikið á bókbandinu við aldalanga notkun, slæma umhirðu og lélega geymslu. Því hafa fáar skinnbækur varðveist í fornu bandi fram á þennan dag. Flest handrit eru í bókbandi frá síðari öldum og enn er verið að endurnýja band gamalla bóka. Við það er oft reynt að nota handverk sambærilegt við það sem tíðkaðist á miðöldum.
 |
|
Hluti myndskreytingar hefur verið skorin af spássíum GKS 3269b 4to. |
Misstór handrit
Varðveitt handrit í bókasöfnum eru m.a. flokkuð eftir broti en bækur innan sama stærðarflokks geta þó verið misstórar. Oft er skýringin sú að skorið hefur verið af spássíum þegar bók var bundin inn eða bókband endurnýjað. Ástæða þess gæti verið sú að blöðin hafi verið orðin slitin á jöðrunum eða til hafi verið bókarkápa sem reynt var að fella stærð blaðanna að. Einnig má vera að misstórum handritum með sama eða skyldu efni hafi verið ætlaður staður hlið við hlið í hillu og því hafi þurft að skera af sumum þeirra til að samræma stærðir. Greinileg merki um að skorið hafi verið af blöðum má sjá þegar
hluta spássíumyndar vantar í skreyttum handritum.
Bókbindarar
Nöfn flestra bókbindara frá miðöldum eru okkur ráðgáta eins og skrifara, skinnaverkenda og handritalýsenda. Örfáar vísbendingar hafa þó fundist, m.a. um bókbindarann Snorra Andrésson sem uppi var á 14. öld en einhver hefur skrifað hjá sér minnispunkt á blað sem fylgir gamalli skinnbók AM 671 4to:
|
Þessa bók hefir Snorri Andrésson bundið og skartaða rauðu skinni |
|
Þetta er elsta heimild um íslenskan mann sem fengist hefur við þá iðju að binda inn skinnbækur en það band er líklega glatað því bókin er nú í bandi frá 1880. Snorri er talinn hafa sest í helgan stein í Ágústínusarklaustrinu að Helgafelli á Snæfellsnesi þar sem hann lést 1382. Þó að heimildir segi ekki frá fyrirrennurum hans í starfi hafa þeir eflaust verið margir á þeim tæpu 200 árum sem liðin voru frá upphafi bókagerðar á Íslandi.
Bókaspjöld íslenskra handrita
Fá íslensk skinnhandrit hafa varðveist í heilu eða nær heilu lagi, mörg þeirra eru meira eða minna skert og sum einungis varðveitt í brotum, jafnvel einu eða fáum skinnblöðum eða blaðhlutum. Af því leiðir að lítið er varðveitt af fornu bókbandi en á miðöldum voru bækur yfirleitt bundnar inn í tréspjöld sem síðan voru klædd með leðri. Þau handrit sem talin hafa verið í fornu íslensku bandi eru hins vegar ýmist bundin inn í skinnkápu eða í óklædd tréspjöld.
Þrátt fyrir að fá íslensk handrit í tréspjöldum hafi varðveist eru þau þó nægilega mörg til þess að ályktað hafi verið að sú gerð sé gömul og séríslensk aðferð við bókband. Sökum þess hve landið er fátækt af skóglendi þótti líklegast að tréspjöldin hafi verið gerð úr rekaviði sem oft og iðulega hefur verið helsta smíðaefni landsmanna enda rekaréttindi mikilvæg búhlunnindi um aldir. Síðar hefur komið í ljós að varðveittu tréspjöldin eru ýmist úr eik, beyki eða furu en tvær fyrrnefndu trjátegundirnar rekur ekki á land við Ísland og því greinilegt að efniviður þeirra kemur annars staðar frá.
Aldursgreining og uppruni trjáviðar
Sérfræðingar á sviði aldursgreiningar sem byggir á gerð árhringja í trjám, svokallaðri dendrochronologiu, hafa rannsakað tréspjöld nokkurra íslenskra handrita. Aðferðin þeirra tekur mið af því að árhringir trjáa eru mismunandi eftir því hvar og hvenær tréð óx þar sem ólíkt árferði og staðbundin vaxtarskilyrði trjáa á hverju landsvæði gera það að verkum að árhringirnir verða einkennandi fyrir tiltekin svæði og tímabil.
Sökum þess að timbur og gripir úr tré geta borist víða er aðferðin gagnleg við rannsóknir á færanlegum hlutum, s.s. miðaldabókum, ílátum, húsgögnum, altörum eða skipum. Nú þegar er tilbúið viðmið, svokallað master-cronology, sem unnt er að nota við að greina aldur og upprunastað eikartrjáa í Evrópu og var það nýtt við rannsóknir íslensku bókarspjaldanna.
Einungis 29 íslensk handrit eru varðveitt í óklæddum tréspjöldum, alls eru spjöldin 57 talsins þar sem eitt handritanna er aðeins með einu bókarspjaldi. Þrenns konar viður reyndist vera í spjöldunum, 28 þeirra voru úr eik, 16 úr furu og 13 úr beyki, en einnig kom í ljós að ekki er einhlítt að bæði spjöld sama handrits séu úr samskonar viði.
Hvaðan fengu Íslendingar trjávið í bókarspjöld?
Aldursgreining var gerð á eikarspjöldunum þar sem viðmið fyrir furu og beyki eru ekki jafn langt á veg komin og viðmið fyrir eikina. Alls voru 17 eikarspjöld athuguð en í 7 tilfellum fékkst niðurstaða. Hin 10 spjöldin sem rannsóknin náði til voru ýmist með of fáum árhringjum til að niðurstaðan yrði marktæk eða ekki reyndist unnt að finna þeim stað innan viðmiðsins, af einhverjum ástæðum.
Íslensk miðaldahandrit eru sjaldnast ársett hvað þá heldur merkt höfundi eða skrifara svo tímasetning þeirra er iðulega byggð á greiningu á skrift og stafsetningu. Þau 7 eikarspjöld sem unnt var að greina voru af fimm handritum sem talin eru frá mismunandi tímum. Í ljós kom að bókarspjöldin voru furðu einsleit, þau virðast langflest úr trjám sem felld hafa verið á seinni hluta 16. aldar eða í upphafi þeirrar 17. og eiga rætur að rekja til norðurhluta Þýskalands. Á þeim tíma áttu Íslendingar mikil samskipti við þýska kaupmenn sem gætu e.t.v. skýrt uppruna trjáviðarins í spjöldunum sem unnt var að greina.
Ný þekking á fornu bandi
Fyrri hugmyndir um íslenskt bókband þarfnast því nokkurrar endurskoðunar, nú þykir t.a.m. líklegt að bönd með skinnkápu hafi verið eldri bókbandsaðferð en síðan hafi band með tréspjöldum rutt sér meira til rúms. Með tímanum virðist það verða einkenni á íslensku bókbandi að tréspjöld væru ekki klædd leðri eins og algengast var annars staðar í Evrópu en óvíst er hvenær sú hefð komst á. Mörg handrit virðast hafa verið óbundin um lengri eða skemmri tíma, um það bera máðar forsíður kvera bókanna glöggt vitni, en að líkindum hefur þó verið hugað að bókbandi eftir þörfum og aðstæðum á öllum tímum, ekki síst ef bók átti á hættu að sundrast í lausum kverum.