Skreytt síða úr Skarðsbók Jónsbókar

Fagurlega skreytt tvídálka síða í lögbókarhandritinu Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol. frá því um 1363. Í vinstri dálki ofarlega á
síðunni getur að líta upphafsstaf, Þ, en í þeim hægri skreyttan myndstaf, H, við upphaf nýs kafla eða bálksí lögunum, rekabálks.
Fjórar manneskjur standa umhverfis stóran hval sem rekið hefur á land og gera að honum. Hlutföll líkama þeirra eru sérkennileg,
búkarnir langir og handleggir fremur stuttir, augu galopin og augabrúnir upplyftar sem gerir það að verkum að manneskjurnar virðast
allar hissa. Eitt af því sem einkennir skreytingar í Skarðsbók er m-laga flúr umhverfis myndskreytingarnar sem og á spássíum bókarinnar.

Þessi myndeinkenni eru meðal þeirra sem teljast til hins svokallaða Helgafellsstíls sem rekja má til Ágústínusarklaustursins að
Helgafelli á Snæfellsnesi. Talið er að sami handritalýsandi hafi skreytt fimm önnur varðveitt handrit sem einkennast af sama sama
myndstíl. Líklegt þykir að lögbækurnar Svalbarðsbók AM 343 fol. frá því eftir 1340 og Belgsdalsbók AM 347 fol. frá seinni
hluta 14. aldar hafi verið skrifaðar á sömu slóðum, við Breiðafjörð, og myndskreytingar þeirra haft áhrif á lýsingar handrita sem
runnin eru frá Helgafellsklaustri. Aðrar fagurlega skreyttar bækur sem rekja má til Helgafellsklausturs eru Skarðsbók postulasagna
SÁM 1 og handrit af Stjórn sem nú er varðveitt í Kaupmannahöfn, AM 226 fol. og líkast til var skreytt af Magnúsi presti Þórhallssyni
sem lýsti jafnframt Flateyjarbók GKS 1005 fol.