| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Bókmenning berst til Íslands > Kirkja og höfðingjar
 
S÷gusvi­i­ »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Nýr siður - breytt samfélag »
  Kirkjan kemst á legg »
  Hvar var kennt? »
  Kirkja og höfðingjar »
  Aldur og efni handrita »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

Kirkja og höfðingjar

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Kirkja á Keldum í Rangárþingi, fornu stórbýli í eigu Oddaverja. Þar lést höfðinginn Jón Loftsson 1197 og varð þá ekkert úr þeim áformum hans að stofna klaustur á staðnum.

Bóklærðir höfðingjar
Um og eftir 1100 var ekki lengur skortur á prestum á Íslandi en sú hefð hafði þá skapast að sonum stórbænda byðist prestmenntun, og tækju vígslur, óháð því hvort þeir ætluðu að starfa fyrir kirkjuna eða ekki. Aukin eftirspurn eftir skrifuðu efni, eftir því sem ritmenningin var innleidd á fleiri sviðum, átti e.t.v. líka þátt í að fleiri lærðu bóklegar listir. Þegar leið á 12. öld fjölgaði menntuðum mönnum á Íslandi, þeir höfðu ýmist lært í skólum eða klaustrum erlendis eða af lærdómsmönnum í landinu, í einkakennslu eða einhvers konar skóla. Í kringum 1200 virðast allnokkrir efnameiri bændur hafa verið læsir og skrifandi auk þess sem prestar og djáknar virðast þá nógu margir til að fylla innlenda klerkastétt. Þá dró úr nauðsyn þess að senda unglinga til náms í útlöndum, lærðir menn gátu annast kennslu þeirra heima fyrir.

Lærdómur höfðingja á 12. öld
Í Kristnisögu, frá því um 1200, er klausa um lærdóm höfðingja á tímum Gissurar biskups sem gefur til kynna hversu samtvinnað veraldlegt höfðingjavald og kirkjustjórn var á þeim tíma: „Þá voru flestir virðingamenn lærðir og vígðir til presta, þó að höfðingjar væri, svo sem var Hallur Teitsson í Haukadal og Sæmundur hinn fróði, Magnús Þórðarson í Reykjaholti, Símon Jörundarson í Bæi, Guðmundur, sonur Brands í Hjarðarholti, Ari hinn fróði, Ingimundur Einarsson á Hólum, Ketill norður Þorsteinsson á Möðruvöllum og Ketill Guðmundarson, Jón prestur Þorvarðsson og margir aðrir þó að eigi sé ritaðir.“

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Á hægri síðunni (5r) er skrá yfir presta af höfðingjaættum, sögð gerð af Ara fróða.

Prestvígðir goðar
Af þessum 10 prestlærðu mönnum voru sjö goðar og gegndu þá veraldlegri valdastöðu í samfélaginu. Í GKS 1812 III 4to, frá um 1225-1250, stendur skrá yfir kynborna íslenska presta, sögð gerð af Ara fróða Þorgilssyni árið 1143. Þar standa nöfn 40 presta af höfðingjaættum, 10 úr hverjum landsfjórðungi, en 13 þeirra voru einnig goðar. Af átta fyrstu biskupum landsins voru sex af goðaættum og fjórir fóru sennilega með goðorð ætta sinna, gegndu þá í senn veraldlegri valdastöðu og kirkjulegri.

Margar þekktar stórkirkjur virðast hafa orðið þannig til að goðar lögðu höfðuból sitt undir kirkjuna með það í huga að prestvígðir synir tækju síðan við kirkjujörð og goðorði að erfðum. Þannig sameinaðist ættarauður, veraldlegt og andlegt vald á hendur þeirra og lagði grunn að bókmenningu og veldi sumra helstu höfðingjaætta landsins á 12. og 13. öld. Ritun konungasagna, Íslendingasagna og samtímasagna spannar einmitt þann tíma.

Veraldlegt og andlegt vald
Í Evrópu voru erkibiskupar, biskupar og ábótar víða lénsmenn konunga og skuldbundnir þeim. Á 11. öld barðist kirkjan fyrir sjálfstæði sínu og aðgreiningu kirkjuvalds frá veraldlegu valdi. Hún krafðist þess að fá umráð yfir kirkjueignum, skipa sjálf embættismenn sína, setja eigin lög um kirkjumálefni og hafa dómsvald í málum kirkna og klerka. Frá fyrri hluta 12. aldar var þessi kirkjupólitík einnig rekin við erkibiskupsstólinn í Niðarósi og í Noregi var skipulag bænda- eða höfðingjakirkju nær horfið um 1200.

Sumarið 1190 sendi Eiríkur erkibiskup í Niðarósi (frá 1188-1213) bréf til biskupanna Þorláks og Brands, Jóns Loftssonar í Odda, annarra höfðingja og alþýðu á Íslandi. Þar lagði hann bann við því að vígðir menn, súbdjáknar eða hærri, tækju að sér að reka mál sem þurfti að sækja með kappi eða vopnum. Að auki bannaði hann biskupum að vígja goðorðsmenn með þeim rökum að það sæmræmdist ekki skyldu og þjónustu kennimanna við guð að standa í veraldlegri umsýslu. Bannið miðaði að því að aðgreina kirkju og veraldlegt vald á Íslandi og virðist því hafa verið framfylgt, þó höfðingjakirkjan héldi velli nær öld lengur.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Í Heiðabæ.

Kirkjuvaldsstefna á Íslandi – staðamál
Þorlákur helgi Þórhallsson (1133-93) var fyrstur íslenskra biskupa til að krefjast yfirráða kirkjunnar yfir stöðum, kirkjujörðum sem höfðingjar eða bændur bjuggu á og ráku sem sína eign. Margir þeirra höfðu reist kirkjur á jörðum sínum og gefið síðan kirkjunni jörðina eða hluta hennar, oft þó með þeim skilmálum að þeir og afkomendur þeirra byggju þar æ síðan. Þorlákur mætti mikilli mótstöðu af hendi Jóns Loftssonar í Odda og náði aðeins takmörkuðum árangri (staðamál fyrri). Frá þeim deilum er aðeins sagt í Oddaverjaþætti í B- og C-gerðum Þorláks sögu biskups, lífssögu fyrsta innlenda biskupsins sem Íslendingar tóku í tölu dýrlinga.

Kirkjuvald þróaðist hægt á fyrri hluta 13. aldar, en þokaði þó áfram í tíð biskupanna Guðmundar góða Arasonar, Páls Jónssonar og Magnúsar Gissurarsonar. Þegar Árni Þorláksson (1237-98) varð Skálholtsbiskup (frá 1269) tók hann staðamál upp aftur og stóð í deilum við höfðingja um árabil. Á þeim tíma var Ísland nýlega orðið hluti af norska konungsveldinu og Árni, góður vinur konungs, var biskup á meðan þau umskipti gengu yfir, m.a. með nýrri stjórnskipan og lagasetningu. Af því segir í Árna sögu biskups, sem er ævisaga hans og kirkjupólitísk landssaga í senn.

Konungur og kirkjuvald
Staðamál voru lögð í dóm konungs og með sættagerð á Ögvaldsnesi í Noregi 1297 var ákveðið að kirkjan fengi yfirráð yfir þeim stöðum sem hún ætti að hálfu eða meira. Það var nær fullnaðarsigur kirkjuvaldsstefnunnar og íslenskt þjóðskipulag varð meira í takt við hefðbundið lénskipulag miðalda eftir að þjóðveldið og höfðingjakirkjan liðu undir lok. Í kjölfarið misstu gömlu höfðingjaættirnar völd sín á 14. öld en í þeirra stað risu aðrar sem reistu veldi sitt og auð e.t.v. fremur á útgerð og fiskútflutningi en stórum landareignum. Þeim var í mun að þekkja og eignast hlutdeild í menningu yfirstétta og aðals – viðfangsefni bókmenntanna tók því líka mið af breyttri samfélagsgerð og nýjum valdhöfum.

 

um menntasetrin í Odda og Haukadal
um höfðingjasyni senda til náms