Sagan
Stefán Karlsson handritafræðingur blaðar í í stórri skinnbók. |
Orðið saga nær yfir æði margt í íslensku máli, s.s. frásagnir af ýmsu tagi, bæði mæltar og skráðar, langar sem stuttar, sannar eða skáldaðar. Orðið nær einnig yfir sögulega umfjöllun og í þessum hluta verður rakin uppruni, saga, efni og varðveisla íslenskra skinnhandrita, þó sér í lagi miðaldahandrita sem varðveist hafa í safni Árna Magnússonar eða í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, sem og í handritasöfnum í Uppsölum og Stokkhólmi. Sú saga tengist Íslands- og bókmenntasögu náið en leitast er við að hafa handritin í forgrunni þegar fjallað er um menningarástand og bóklega iðju liðinna alda.
Íslendingar skráðu mun meira á eigin tungu á miðöldum en sumir nágrannar þeirra. Þau miðaldahandrit sem varðveist hafa fram á okkar daga eru þó aðeins talin brot af þeim bókakosti sem til var í landinu á ritunartíma þeirra. Engu að síður staðfestir handritavarðveislan að Íslendingar nýttu sér ritlistina á sífellt fleiri sviðum og jafnhliða til einstakrar nýsköpunar sagnaefnis á eigin tungu.
Skráðar fornsögur á borð við Íslendinga sögur eru þó jafnan höfundarlausar og nafnleysi einkennir einnig flest það handverksfólk og skrifara er unnu við bókagerð fyrstu aldir ritlistar í landinu. Þrátt fyrir það eru íslensk handrit ómetanlegar heimildir um ritmenningu þeirra veraldlegu og andlegu lærdómsmanna sem höfðu aðgang að menntun og efni á að láta gera sér bækur. Handritin sýna með efni sínu hvað fólki, einkum þó í hópi ráðandi yfirstétta, þótti mikilsvert að skrá á bókfell, hvort sem það voru lagabálkar eða trúarlegir textar, t.a.m. helgisögur eða -kvæði, fræðirit s.s. tímatal eða sagnfræði, sagnarit með sögum úr fortíð eða samtíð, forn kvæði og goðsagnir eða rímnakveðskapur.
Flest íslensk miðaldahandrit hafa varðveist í safni Árna Magnússonar (1663-1730) sem nú er skipt milli tveggja stofnana, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Íslandi og Den Arnamagnæanske Samling í Danmörku. Þess utan eru einna flest íslensk miðaldahandrit varðveitt í Svíþjóð, í Uppsölum og Stokkhólmi, enda Svíar áhugasamir um söfnun íslenskra handrita á 17. öld. Íslensk handrit eru varðveitt víðar, t.a.m. í söfnum í Noregi, Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki, Hollandi, Bandaríkjunum og á Englandi, Írlandi og Skotlandi.