Prentvæn útgáfa
Hvar var kennt?
|
|
Á síðu úr handriti með Mósebókum frá lokum 14. aldar. Skólasveinn les á bók og fylgir línum með prjóni. Kennari hans reiðir vöndinn til höggs en barsmíðum var oft beitt við kennslu. British Library, Add 19776, f. 72v. Höfundaréttur: British Library. Endurgerð er stranglega bönnuð.
|
Biskupsstólar – dómskólar
Í kaþólskri tíð var kennsla eða skólahald á Íslandi einkum bundið við biskupsstóla, klaustur og stórbýli með kirkjuhaldi en lega landsins, fámenni og dreifð byggð settu mark sitt á starfsemi kirkju og menntasetra. Frá upphafi innlends biskupsstóls má gera ráð fyrir kennslu af hálfu biskupa landsins, eins og getið er um í heimildum, en allar forsendur skorti fyrir skólahaldi í líkingu við erlenda dóm- eða klausturskóla.
Eftir að biskupsstólar voru settir á fót, fyrst í Skálholti (1056) og síðan á Hólum (1106) segir frá skólahaldi á vegum þeirra. Ómögulegt er þó að segja til um hversu samfellt það hefur verið og undir biskupum komið hversu mikill metnaður var lagður í kennsluna á hverjum tíma. Dómskólarnir voru fyrst og fremst prestaskólar, skólahaldið óformlegt í fyrstu en varð formlegra er tímar liðu og líkara því sem nú þekkist.
Heimildagildi biskupasagna - skólahald á biskupssetrum
Af sumum biskupum voru ritaðar sögur þar sem greint var frá lífi þeirra og afrekum. Slíkt ritun fór víða fram í Evrópu, latínugerðir sagna voru lesnar við messur á hátíðisdögum biskupa sem töldust til helgra manna í heimalandi sínu, eða víðar, lífssögur og jarteinir ritaðar til sönnunar á helgi þeirra innan kirkjustofnana og í páfagarði. Aðrar sögur voru frekar til heimabrúks, s.s. ævisögur þeirra biskupa sem voru málsvarar kirkjuvalds, og hafa þá eingöngu verið til á móðurmálinu.
Sögur af biskupum voru flestar skrifaðar allnokkru eftir að atburðirnir sem þær lýsa áttu sér stað. Mikilvægt var að sagt væri frá gerðum biskupanna á jákvæðan hátt og þær felldar að tilgangi helgisagna ef til stóð að fá biskup tekinn í tölu dýrlinga. Lærdómsiðkun og skólahaldi er því iðulega lýst, sem og ýmis konar menntun, sagnaritun og bókagerð. Biskupar báru ábyrgð á menntun klerka sinna og því eðlilegt að rík áhersla sé lögð á slíkt í frásögnum af þeim. Heimildagildi sagnanna þarf að meta í þessu ljósi, mögulega var gert meira úr kennslu- og menntastörfum sumra biskupa en efni stóðu til, og vera kann að þær lýsi fremur aðstæðum á ritunartímanum, þ.e. á 13. og 14. öld, en á æviskeiði viðkomandi biskups.
Skólahald Jóns biskups á Hólum
Í sögu Jóns helga Ögmundarsonar (1052-1121) segir að hann hafi stofnað prestaskóla á Hólum en væntanlega kynntist hann námsfyrirkomulagi við dómskólann í Lundi í vígsluferð sinni (1106). Þaðan fékk hann a.m.k. tvo kennara til liðs við sig. Gísli Finnason, gauskur maður, kenndi latínu og Ríkini hinn frankneski kenndi sönglist en tíða- og messusöngur var órofa hluti af kaþólsku helgihaldi. Í sögu Jóns kemur einnig fram að predikanir hafi gegnt því hlutverki að uppfræða alþýðuna í trúarlærdómi en námið í Hólaskóla hefur líklega miðast við latínu, ritningalestur (guðfræði) og söng. Tveimur öldum síðar var Lárentíus Kálfsson (1267-1331) biskup á Hólum (frá 1324) og af sögu hans að dæma virðist skólahald þá með sama sniði.
|
|
Daglegt líf í klausturskóla. Skólasveinum voru falin ýmis verk, úr frönsku handriti frá lokum 14. aldar. |
Klausturskólar
Kennsla fór stundum fram í klaustrum Evrópu en fyrstu íslensku klaustrin voru stofnuð á 12. öld. Verðandi munkar og nunnur þurftu að læra latínulestur, tíðasöng, bænir, íhugun og þær reglur sem giltu í hverju klaustri. Lærdómurinn hefur ekki allur verið bóklegur heldur hafa munka- og nunnuefnin (novices) lært sitthvað af kennurum sínum með því að fylgjast með þeim. Bóklestur og skriftir voru engu að síður töluverður hluti þeirrar vinnu sem munkar og nunnur leystu af hendi enda voru nokkrir nafngreindir höfundar og skrifarar miðalda á Íslandi munkar.
Tilvonandi prestar hafa einnig hlotið menntun í klaustrum en margir munkar og flestir ábótar voru prestvígðir. Unglingsdrengir sem ekki ætluðu sér að verða prestar hafa hugsanlega hlotið einhvers konar skólavist í klaustrum en fyrirkomulagið hefur þá e.t.v. verið þannig að klausturprestur heimsótti piltinn reglulega og kenndi honum heima. Helsti möguleiki kvenna til að öðlast menntun var að ganga í klaustur en það var alls ekki á allra færi. Á Íslandi lagði fólk yfirleitt eignir eða fé með sér í klaustrið eða greiddi fyrir nám barna sinna með sama hætti og hafa námssamningar af því tagi varðveist.
Klausturlíf á Íslandi
Fyrsta klaustur landsins, Þingeyraklaustur, var formlega stofnsett árið 1133, á biskupstíð Ketils Þorsteinssonar (1122-45), þó e.t.v. hafi vísir að klausturlifnaði hafist þar í tíð Jóns Ögmundarsonar forvera hans á Hólastóli. Í Hungurvöku segir að Gróa, kona Ketils biskups og dóttir Gissurar biskups, hafi gerst nunna í Skálholti eftir dauða manns síns og var það áður en nokkurt nunnuklaustur reis í landinu. Ef til vill hefur Gróa Gissurardóttir notið góðs af skólahaldi og menntun ættingja sinna og eiginmanns úr því hún kaus að ljúka ævinni sem nunna eða einsetukona, en slíkt líf hefur væntanlega verið helgað bóklestri og tilbeiðslu.
Stórbýli og menntasetur
Prestvígðir höfðingjar stóðu snemma fyrir kennslu á jörðum sínum, t.d. er sagt frá því að séra Sæmundur fróði (1056-1133) hafi sett skóla í Odda á Rangárvöllum og séra Teitur Ísleifsson (d. 1111) haldið skóla í Haukadal í Biskupstungum. Sá skóli hefur e.t.v. verið tengdur biskupsstólnum í Skálholti þar sem Ísleifur, faðir Teits, var fyrsti biskup landsins en Gissur, bróðir hans, sá næsti. Heimildir greina frá kennslu eða skólahaldi víðar á landinu, prestar við ýmsar stærri kirkjur hafa kennt þó ekki hafi alltaf verið um formlegt skólahald að ræða, eins og sést t.d. af Prestssögu Guðmundar góða Arasonar (Hólabiskups 1203-37). Vitað er að Ólafur hvítaskáld Þórðarson, (um 1210-59), sem var af ætt Sturlunga og súbdjákn að vígslu, hélt skóla í Stafholti í Borgarfirði um miðja 13. öld og kenndi þar m.a. málskrúðsfræði (mælskulist, rhetorica).
|
|
Kennari leiðbeinir áhugasömum nemanda. |
Kennsla og bókritun á stórbýlum
Utan biskupsstóla og klaustra voru aðstæður til menntunar og bókritunar fyrir hendi á þeim stórbýlum sem voru kirkjustaðir og höfðu þrjá til sjö klerklærða menn í þjónustu í senn. Um 1300 voru ríflega 30 slíkar stórkir kjur í eigu goða eða annarra stórbænda, á landinu öllu, en alkirkjur e.t.v. um 300 talsins að smærri kirkjum eða bænhúsum ótöldum. Klerkastétt landsins hefur þá talið nokkur hundruð manns en þess utan var lestrar- og skriftarkunnátta líklega algengari meðal þeirra sem ekki voru prestvígðir en víða í Evrópu. Fjöldi og fjölbreytni varðveittra handrita frá þessum tíma, sem fjalla um margt annað en kirkjulegt efni, bendir einnig til þess að allmargir skriflærðir menn hafi verið í landinu á hverjum tíma sem og efnafólk sem hafði áhuga og vilja til að skrifa, eða láta skrifa fyrir sig, rit um eigin hugðarefni.
Náms- og pílagrímsferðir
Þeir menn sem lærðu í útlöndum kynntust erlendum menningarstraumum og hafa borið með sér bækur til landsins sem ýmist voru umritaðar eða þýddar úr latínu. Íslenskir karlar og konur fóru einnig í pílagrímsferðir, m.a. til Rómar eða Jórsala (Jerúsalem), og komu þá víða við enda var ferðin sjálf ekki síður mikilvæg en áfangastaðurinn. Á leið sinni heimsóttu pílagrímar staði sem tengdust atburðum eða persónum úr helgum ritum og hugleiddu texta þeirra. Þeir gistu oft í klaustrum á leiðinni og hafa þar mögulega komist í kynni við merk trúarrit og fræðibækur samtímans.
|