Prentvæn útgáfa
Íslenska teiknibókin
|
|
Samson og ljónið í Íslensku
teiknibókinni AM 673a III 4to.
|
Hvers konar bók?
Íslenska miðaldahandritið Teiknibókin AM 673a III 4to, er myndabók eins og nafnið ber með sér. Hún inniheldur safn fyrirmynda sem listamenn á miðöldum hafa nýtt sér, t.d. er þeir lýstu handrit eða máluðu altarismyndir. Bókin samanstendur af tuttugu og einu skinnblaði með blekteiknuðum myndum báðum megin á hverju blaði, samtals fjörtíu og tvær síður. Hún er mjög illa farin, skinnið er morkið og götótt víðast hvar og því getur verið erfitt að greina allar línur eða drætti í einstaka myndum og stöfum.
Teiknibókin hefur mikla sérstöðu og er afar dýrmæt þrátt fyrir miklar skemmdir. Bókin er sú eina sinnar tegundar sem varðveist hefur á Norðurlöndum og fáar henni líka hafa varðveist annars staðar í Evrópu. Þegar bókin var flutt frá Kaupmannahöfn til Íslands á sínum tíma var keypt sérstakt sæti undir hana í flugvélinni svo hún yrði fyrir sem minnstu hnjaski.
|
|
Heilagur Georg vegur drekann á síðum Teiknibókarinnar AM 673a III 4to. |
Notkun fyrirmynda á miðöldum
Teiknibókin hefur líklega verið eign klausturs þar sem hún hefur verið notuð við handritalýsingar. Í bókinni hafa listhagar fundið sér fyrirmyndir að myndskreytingum sem þeir notuðu síðan í nýja bók.
Hugmyndir fólks um listsköpun á miðöldum var önnur en nú á dögum. Höfundarhugtakið var ekki skilið á sama hátt og nú því allt undir sólinni var hluti af sköpunarverki Guðs og við því var óþarfi að hrófla. Líkt og sagnfræðingar notfærðu sér tiltækar heimildir og skrifuðu oft beint upp eftir þeim án þess að nefna það sérstaklega fengust listamenn mikið við að gera eftirmyndir af efni sem þegar var til. Þá kom teiknibók með safni fyrirmynda í góðar þarfir.
|
|
Riddari á hluta síðu í Teiknibókinni
AM 673a III 4to.
|
Hverjir teiknuðu myndirnar?
Talið er að þrír til fjórir listamenn hafi safnað fyrirmyndum í bókina á hundrað og fimmtíu ára skeiði frá 1350-1500. Tveir teiknarar eru taldir eiga heiðurinn af flestum myndum bókarinnar. Fyrsti teiknarinn er talinn hafi verið starfandi á árunum 1340-60 og eru honum eignaðar myndir á 16 síðum í handritinu. Hinn aðalteiknarinn er talinn hafa starfað á árunum 1450-75 og vera höfundur mynda á 22 síðum. Líklega hafa fyrirmyndirnar í Teiknibókinni jafnframt allt eins verið notaðar við handritalýsingar sem og önnur listaverk, s.s. við gerð altaristaflna og annarra málaðra mynda, jafnvel við útskurð eða silfursmíð.
Aðeins má rekja tvær lýsingar í varðveittum handritum til verka fyrsta teiknarans í Teiknibókinni en fáar myndir hafa annars fundist í varðveittum handritum sem rekja má beint til hennar enda hafa fjölmörg handrit farið forgörðum sem og myndlistin sem þau geymdu.
Hugsanlegt er talið að bókin hafi verið í eigu Þingeyrarklausturs á miðöldum en hún hefur líklega verið í notkun allt þar til hún komst í hendur Árna Magnússonar handritasafnara um eða upp úr 1700.
|
|
|
|
María með barnið á brjósti í
Teiknibókinni AM 673a III 4to.
|
Opna með ýmiss konar teikningum úr Teiknibókinni
AM 673a III 4to.
|
|
|
Göt stungin í skinnið umhverfis myndina til marka fyrir útlínum
hennar og nýta í grunn í nýja mynd. Fyrirmynd að myndstaf
í Teiknibókinni AM 673a III 4to.
|
Myndatengsl
Löngum hefur fræðimönnum fundist að nokkur líkindi væru með teikningum í Teiknibókinni og myndskreytingum í ákveðnum handritum. Meðal þeirra er mynd af krossfestingunni í ártíða-skránni AM 249e fol. og mynd af Joshua í Stjórn AM 227 fol. (71v) auk brots úr saltara sem nú er varðveitt í Svíþjóð og myndar á stöku blaði úr grallara AM Facs. V 12 frá Höskulds-stöðum á Skagaströnd. Samanburður listfræðings leiddi í ljós að myndirnar í ártíðaskránni og grallaranum eru mjög líkar þeim myndum Teiknibókarinnar sem taldar eru eftir fyrsta teiknarann sem talinn er hafa starfað um miðja 14. öld.
Stíleinkennin á Stjórn og saltarablaðinu sem eru talin lýst af sama lýsanda eru hins vegar með nokkuð öðru móti en það sem eignað er fyrsta teiknaranum. Því er ekki talið að um sama lýsanda sé að ræða í báðum tilfellum þó lýsingarnar í þessum fjórum handritum geti hafa verið unnar á sama stað.
Sá staður hefur að líkindum verið bókagerðarmiðstöð og gera má ráð fyrir að blöðin úr elsta hluta Teiknibókarinnar séu leifar af safni fyrirmynda sem notaðar voru við handritalýsingar á þeim stað. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir nokkrum hópi skrifara og lýsenda sem starfað hafa á sama bókagerðarstað þar sem framleiddar voru bækur, bæði af veraldlegum og andlegum toga. Af þeim sökum er talið ólíklegt að um höfðingjasetur hafi verið að ræða. Líklegra virðist að slíkar aðstæður hafi fyrirfundist í klaustrum og þykir Þingeyraklaustur líklegasti staðurinn.
|
|
E.t.v. fyrirmynd að silfurskríni í
Teiknibókinni AM 673a III 4to.
|
Verið getur að 3-5 hafi unnið að gerð Stjórnar AM 227 fol., bæði við skriftir og lýsingar. Tvær rithendur eru á handritinu Stjórn AM 227 fol. og rauðlitaðar fyrirsagnir eru skrifaðar af skrifurunum sjálfum. Allir átta myndstafir eru verk eins listamanns sem gerði auk þess suma upphafsstafi en tveir aðrir lýsendur komu að því verki. Samtals hafa því þrír handritalýsendur komið að gerð bókarinnar en hugsanlegt er að tveir þeirra hafi einnig verið skrifararnir þó ekki sé hægt að styðja það neinum rökum.
Önnur aðalhönd Stjórnar hefur fundist á 12 öðrum handritum sem bendir til þess að sá skrifari hennar hafi starfað töluvert við skriftir. Svo vel vill til að eitt þeirra er myndskreytta saltarabrotið sem rennir enn styrkari stoðum undir tengsl þessara handrita. Handritafræðin styður því einnig tengslin milli saltarablaðsins myndskreytta og Stjórnar.
|