Eru handrit merkileg?

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Þessir krakkar fögnuðu heimkomu handritanna í apríl 1971. Ætli þau muni eftir því enn þann dag í dag?

Hvað er merkilegt við íslensk handrit?
Handritin eru ekki síst merkileg vegna vitnisburðarins sem þau gefa um líf forfeðra okkar og -mæðra. Þau eru eins konar gluggi sem hægt er að nota til að skyggnast inn í fortíðina. Texti getur gefið upplýsingar um gildismat þess eða þeirra sem ákváðu að setja hann á bók og varðveita, þeirra sem réðu yfir ritlist og efnum til bókagerðar. Upprunasagnir af landnámi, lög, fræði, guðsorð, ættartölur og annála, kveðskap og sögur þótti nauðsyn að festa á bók vegna mikilvægis efnisins eða til ánægjuauka.

Handritin geta auk þess gefið okkur hugmynd um samfélagið til forna. Í lögbókum birtast hugmyndir manna um rétt og rangt. Þær segja til um hvað var refsivert og þar með hvað mátti gera. Sauðaþjófnaður var t.d. alvarlegt brot sem var refsað fyrir með hengingu, a.m.k. á einhverjum tíma. Það gefur til kynna að eignaréttur hafi skipt miklu máli. Efni handrita sýnir þannig áherslur samfélagsins eða einstaklinga innan þess og eftir því sem fleiri höfðu tækifæri til að skrifa bækur jókst fjölbreytileikinn.

Efni handritanna hefur verið notað sem söguleg heimild við ritun á þjóðarsögu. Íslendingabók og Landnáma eru heimildir um landnám, landnámsmenn og sögu landsins frá fyrstu áratugum eftir landnámið. Samtímasögur, þ.e. sumar biskupasögur og Sturlunga saga eru taldar heimildir um borgarastyrjöldina sem geysaði á Íslandi um 1200 og fram yfir miðja 13. öld.

Íslendingasögur hafa verið lesnar bæði til skemmtunar og fróðleiks í gegnum aldirnar en einnig rannsakaðar frá mörgum sjónarhornum., Bókmenntafræðingar, heimspekingar, Íslenskufræðingar, listfræðingar, lögfræðingar, læknar, mannfræðingar, málfræðingar, sagnfræðingar, textafræðingar, þjóðfræðingar og ættfræðingar svo einhver fræðasvið séu nefnd, hafa sótt rannsóknarefni í handritin en í því felst meðal annars gildi þeirra. Efni þeirra eru enn til umræðu. Viðfangsefnin eru fjölmörg, bæði þau sem hafa verið rædd, verið er að ræða og munu verða rædd í framtíðinni.

Varðveisla handritanna, spássíukrotið í þeim, útlit og samsetning bókanna hafa jafnframt sína sögu að segja; um handverkið og verkkunnáttu á miðöldum, um viðhorf fólks til bóka og um hugmyndir þess um hvaða efni eigi heima í sömu bók. Það skiptir því máli að geta sótt heimildir um fortíðina í gamlar bækur.

Myndirnar í handritunum geta sýnt okkur bæði hvernig fólk klæddist og við hvað það starfaði á ritunartíma þeirra en þar að auki má skoða mismunandi stíl og litanotkun í þeim. Hver bók hefur sín einkenni sem fróðlegt er að skoða og bera saman við aðrar bækur, t.d. sama efnis eða frá sama tímabili. Handrit er einstakur gripur vegna þess að hver bók er sú eina sinnar gerðar. Handverk ber alltaf sérkenni ólíkt fjöldaframleiðslu þar sem til verða margir alveg eins hluti. Hægt er að prenta margar bækur eftir sama móti eða forriti en ein handskrifuð bók verður aldrei nákvæmlega eins og önnur handskrifuð bók.


© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima