| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Handritið > Skrifarar > Starfið
 
Handverkið »
  Handritalestur »
  Skrifarar »
  Starfið »
  Aðstæður»
  Vinnubrögð »
  Bókaskreytingar »
  Spássíumyndir»
Varðveisla og gildi »

Prentvæn útgáfa

Starfið

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Nunna í Stjórn AM 227 fol.?

Kirkjustaðir og stórbýli
Á Íslandi störfuðu munkar og nunnur eflaust við skriftir í klaustrum því gera má ráð fyrir að eins og annars staðar í Evrópu hafi bóka- og skjalaskrif verið eitt af meginstörfum margra þeirra. Bækur voru þó einnig skrifaðar á stórbýlum því margir synir, og e.t.v dætur, ríkra bænda sem ekki gengu til liðs við kirkjuna, sem ekki gerðust prestar lærðu að skrifa og gátu því skrifað bækur til jafns við kirkjunnar þjóna.

Nokkrir þættir ýta undir þær kenningar að skrifarar hafi bæði starfað innan og utan kirkjunnar. Fyrst má nefna þann mikla fjölda miðaldabóka sem varðveist hefur fram á okkar daga. Þar sem klaustrin á Íslandi voru töluvert minni og fámennari en annars staðar í Evrópu er ljóst að fleira skriflært fólk þurfti til að framleiða slíkt magn en það sem starfaði eingöngu innan kirkjunnar.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Maður að lesa fornbréf í Reykjabók AM 345 fol.

Í öðru lagi fjalla varðveittar bækur miðalda um ýmislegt annað en kirkjulegt efni og gefur það vísbendingu um að til hafi verið skrifandi fólk sem áhuga og vilja hafði til að skrifa þess konar bækur, t.d. norræn goðakvæði eða sögur um fornar hetjur sem fóru í víking og blótuðu heiðin goð. Þekktir munkar skrifuðu þó einnig bækur sem ekki voru trúarlegar, einkum konungasögur en sumar þeirra segja reyndar frá lífi konunga sem síðar urðu dýrlingar kirkjunnar.

Þess utan hafa rannsóknir á rithöndum fornbréfa og samanburður þeirra við varðveittar bækur staðfesta að margir bændasynir hafa stundað skriftir. En líkt og munkar skrifuðu konungasögur og önnur rit, sem ekki voru beinlínis notuð innan kirkjunnar samkvæmt pöntun frá einstaklingum utan klaustranna, skrifuðu bændasynir einnig trúarleg rit
.

Smelltu á myndina til þess að sjá hana í fullri stærð
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Menn með fornbréf í Reykjabók AM 345 fol.

 Atvinnuskrifarar

Smám saman hefur að líkindum þróast stétt atvinnuskrifara á Íslandi eins og ráða má af því þegar sama rithönd finnst á fleiri en einu handriti og jafnvel mörgum handritum. Sú staðreynd bendir til þess að sami skrifari hafi eytt töluverðum hluta starfsævi sinnar við skriftir þó það útiloki ekki að hann hafi fengist við önnur störf jafnhliða. Ákveðin menntun var forsenda þess að geta skrifað bækur en ekki höfðu allir í samfélaginu aðgang að henni. Alþýðufólk hafði sjaldnast tækifæri til að tileinka sér þá kunnáttu eða hafa skriftir að atvinnu á miðöldum.

Margt efnafólk sem hafði aðgang að menntun og þ.a.l.kunnáttu til að skrifa bækur skrifaði e.t.v. upp bækur eða setti saman efni á eina bók ú nokkrum handritum sem það langaði að eiga, þegar tími vannst til. Atvinnuskrifarar hafa eflaust einnig skrifað bók og bók til eigin nota eða gert vinum og ættingjum greiða með því að skrifa upp fyrir þá vinsælar sögur. Atvinnuskrifarar hafa eflaust einnig skrifað bók og bók til eigin nota eða gert vinum og ættingjum greiða með því að skrifa upp fyrir þá vinsælar sögur.

Mikill munur var á útliti og gæðum bóka eftir því hver skrifaði þær og hverjum þær voru ætlaðar. Af því má líka ráða að uppi hafi verið vanir skrifarar sem útbjuggu bækur af góðum efnum fyrir höfðingja, kirkju og konunga en jafnframt að stundum hafi reynsluminni hendur haldið á pennanum og bókin verið gerð af meiri vanefnum.

Þrátt fyrir að fjöldi skrifarar hafi starfað á miðöldum voru flestir þeirra óþekkt handverksfólk eins og aðrir sem að bókagerðinni komu, t.d. skinnaverkendur og handritalýsendur því ekki tíðkaðist að merkja sér handrit sem skrifað hafði verið. Svo heppilega vill þó til að skrifarar hafa oft skilið eftir sig spor í handritum í formi athugasemda á spássíum. Í örfáum tilfellum segjast þeir hafa skrifað handritið allt eða að hluta en þó er algengara að rannsaka þurfi athugasemdir og nöfn á spássíum og bera saman við önnur skjöl, s.s. fornbréf, til þess að geta bætt nokkrum skrifaranöfnum í sarpinn og fá betri mynd af aðstæðum skrifara á miðöldum.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Skrifarar á miðöldum þurftu að glíma við ýmis vandkvæði í starfi. Skrifarinn Hildeberti og lærisveinn hans Everwinus í bók frá um 1140 sem varðveitt er í Prag. Á myndinni má sjá vinnuumhverfi skrifara á miðöldum.

Kjör skrifara
Skrifarar urðu oft þreyttir á vinnu sinni og ekki að undra þegar vinnuaðstæður þeirra eru hafðar í huga. Það gat tekið langan tíma að skrifa bók, jafnvel nokkur ár, þó afköst skrifarans hafi ráðist af mörgum þáttum, t.a.m. efnahag þeirra sem létu gera bókina, hvort hann gat einbeitt sér eingöngu að skrifunum, hversu mikil efni voru til í bókina sem og líðan skrifarans og aðstæðum svo eitthvað sé nefnt.

Á spássíum handrita má lesa kvartanir skrifara undan þreytu og lengd verksins og ennfremur létti yfir því að hafa loks lokið erfiðu verki, sumum er alls ekki hlátur í huga eins og þessum íslenska skrifara:

  Leiðist mér að skrifa  

Hann er einnig óánægður með blekið: Vont er skrif því veikt er blek en skrifarar kvarta jafnframt undan illa skornum penna.

Sumir óska þess að uppskera árangur erfiðisins, aðrir kvarta beinlínis undan lélegum launum eða vanþakklæti yfirmanna sinna. Íslenskur skrifari er heldur óánægður með vinnuveitanda sinn er hann kvartar undan matarskorti:

 
Illa gjörir þú við mig Dóri minn þú gefur mér aldrei fiskinn nógan
 

Vænta má að Dóri þessi hafi gert eins konar samning við skrifarann um laun, gistingu og uppihald eins og oft tíðkaðist meðal erlendra skrifara.

Líklegt má telja að vinna skrifarans hafi oft og tíðum verið dýrasti þátturinn í framleiðslu bókarinnar eða rúmlega þriðjungur heildarkostnaðar þó það sé alls ekki einhlítt. Í íburðarmiklar bækur hefur áreiðanlega verið kostað nokkru til við að útvega vandað bókfell og greiða fyrir vinnu og efni í skreytingar. Þó má vera að í sumum tilvikum hafi skrifarinn þurft að útvega sér bókfellið sjálfur og greiða fyrir það, en þá hefur eflaust verið gert ráð fyrir því í verksamningi.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og atvinnusjúkdóma ýmis konar sýna heimildir að bæði lærðir og leikir skrifarar í Evrópu álitu starf sitt andlega göfugt enda þótt þeir hafi oft jafnað því við verkamannavinnu. Klausturskrifararnir börðust gegn djöflinum sjálfum með pennann og blekið að vopni þegar þeir afrituðu hið guðdómlega orð. En það voru ekki einungis skrifararnir sjálfir sem álitu starf sitt göfugt, þeir virðast einnig, a.m.k. á einhverjum tíma, hafa notið virðingar í samfélaginu.

um nöfn skrifara
um stöðu skrifara í samfélaginu