| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Kennsluefnið > Miðlun að fornu og nýju > Upplýsingasamfélagið > Umræðuefni
 
  Miðlun að fornu og nýju »
  Miðlun »
Upplýsingasamfélagið »   
    Umræðuefni »
    Verkefni »
    Ritunarverkefni »
Munnmenntir » 
  Ritlist »
Bókaframleiðsla »
Um miðlun sagna »
     
   
   
Prentvæn útgáfa

Umræðuefni

Fréttir og annálar

  • Hvernig berast fréttir um heimsbyggðina? Ætli allir hafi jafnt aðgengi að fréttamiðlum? Hér má ræða um misrík og misþróuð samfélög.

  • Hvaða fréttaform er algengast hér á landi og nær það til allra? Skiptir máli hver segir fréttina? Ræðið um ritstýringu og hvað þyki fréttnæmt.

  • Hvað er líklegt að hafi breyst í fréttaflutningi á undanförnum áratugum? Hvernig var honum háttað fyrir tilkomu upplýsingatækninnar, s.s. tölvu- og netvæðingar, farsíma, tölvupósts og annarra samskiptaleiða sem ekki voru almennar á þeim tíma?

  • Hvernig ætli fréttir hafi borist milli landa fyrir tíma sjónvarps og útvarps? En áður en dagblöð komu til sögunnar? Hverjir fluttu fréttir í bóklausu samfélagi?

  • Um hver áramót eru fluttir innlendir og erlendir fréttaannálar. Hvað eru annálar? Ætli þeir séu gamalt eða nýtt fyrirbrigði? Hvaða heimildagildi gætu fornir og nýir annálar haft?


Til kennarans
Ræða má hvernig heimurinn hefur dregist saman í kjölfar netvæðingar í þeim skilningi að við fáum fréttir af atburðum í fjarlægum heimshornum nokkrum klukkustundum eftir að þeir gerast eða jafnvel samstundis í gegnum gervihnött.

Til að dýpka umræðuna og færa nær nemendum má líka nefna að fréttir geta bæði verið af persónulegum toga sem og almenns eðlis. Við sækjumst eftir fréttum af vinum og ættingjum annars vegar og atburðum líðandi stundar hins vegar. Taka má inn í umræðuna hvernig þessi aukna nálægð við atburði líðandi stundar eykur stundum á firringu eða ónæmi gagnvart aðstæðum annarra.

Upplýsingar á netinu

  • Hverjir eru helstu kostir netsins sem upplýsingaveitu? Hverjir eru helstu gallar þess? Skráið nokkur atriði hjá ykkur. Nefnið líka 3-4 atriði sem ekki er hægt að sinna gegnum netið.

  • Gæti verið einhver munur á gildi upplýsinga sem eru fengnar úr bók og þeirra sem eru teknar af neti? Hvernig gætum við sannreynt upplýsingarnar í hvoru tilfelli? Hverjir ráða efni vefsíðna og bóka?

  • Stundum er sagt að tölvan ljúgi ekki eða að eitthvað standi sem stafur á bók. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir því að ritað orð sé traustara en talað orð. Ræðið af hverju það geti stafað. Haldið þið að þessar fullyrðingar séu réttmætar?

  • Bækur voru ákaflega dýrar á miðöldum og skriftarkunnátta ekki jafn algeng og nú. Hverjir ætli hafi ráðið efni og innihaldi bóka á þeim tíma?

  • Teljið þið að bækur verði úreltar á næstu 20-30 árum? Rökstyðjið svar ykkar.

Til kennarans
Hér má ræða hversu auðvelt er að koma upplýsingum og fræðslu, viðhorfum, skoðunum, listsköpun, menningartengdu efni, afþreyingu og dægradvöl á framfæri á netinu. Fólk þarf varla út úr húsi lengur til þess að sinna athöfnum daglegs lífs eða hvað?