| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Myndasafnið
 
  Lýstar skinnbækur »
  Melsteðs-Edda »

Prentvæn útgáfa

Myndasafnið

Riddarinn og ljónið á Valþjófsstaðarhurðinni í Þjóðminjasafni Íslands (11009) ljósm. Ívar Brynjólfsson.

Íslensk miðaldalist
Listin hefur numið land á Íslandi um leið og landnámsmennirnir sem báru listhefð heimalanda sinna með sér á nýjar slóðir. Útskorin guðalíkneski auk þeirra skreytinga sem settar voru upp í híbýlum, s.s. útsaumuð tjöld, málaðir skildir og aðrir listmunir, hafa verið í líkingu við það sem gerðist á heimaslóðum landnámsmanna. Engu að síður hafa aðstæður í nýju landi mótað í hvaða formi listiðkun var stunduð eftir að búseta hófst.

Sá efniviður sem íslensk náttúra býður upp á hlýtur að hafa ráðið nokkru um farveg listiðkunarinnar. Til að mynda er lítið um steintegundir sem henta í gerð steinhúsa, tilhöggnar styttur eða steina. Sú listgrein, höggmyndalistin, var því sáralítið iðkuð á Íslandi. Á sama hátt er landið fremur snautt af málmum og viði en slík efni hefur mátt flytja inn eftir þörfum. Efni til litunar hafa einnig verið sótt í náttúruna eins og efni í aðra þætti bókagerðar, s.s. skinnaverkun, blekgerð og litablöndun en ekki hefur úrvalið verið jafn fjölskrúðugt og víða erlendis.

Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Altarisbrík í Þjóðminjasafni Íslands nr. 6430.
Kirkjulist
Með kristnitökunni árið 1000 kynntust Íslendingar ekki aðeins rittækni heldur gáfust einnig ný tækifæri til listsköpunar. Kirkusmíði var alltaf langviðamesta verk sem trésmiðum og tréskurðarmönnum bauðst að vinna enda skreytingar kirkna af ýmsum toga.

Útbúnaður kirkna tók mið af stórbýlum þar sem tíðkaðist að skera út og mála skreytingar auk þess sem veggir voru tjaldaðir með saumuðum eða ofnum tjöldum. Heiðin myndefni sem áður voru notið til að skreyta skálana breyttust og urðu kristileg, en sömu aðferðum var beitt við skreytilistina sem áður.

Páli Jónssyni biskupi í Skálholti á 12. öld var t.d. mikið í mun auðga staðinn listmunum. Í sögu hans segir frá forláta kaleik sem biskup lét gera auk þess sem nokkrir listamenn eru nefndir til sögunnar, þ.á m. Margrét haga en hún þótti oddhög kona. Eins eru nefndir í sögu biskupsins Þorsteinn Skeggjason gullsmiður sem smíðaði helgiskrín undir helga dóma og Atli prestur sem pentaði að innan hluta kirkjunnar í Skálholti en sögnin að penta er skyld enska orðinu paint.

Kirkjur voru einu listasöfnin fyrr á tímum enda átti kirkjan fjármagn til að láta útbúa listaverk guði til dýrðar. Sárafáar minjar sem bera þessari skreytilist vitni hafa varðveist á Íslandi frá miðöldum. Siðskiptin og sú staðreynd að kirkjur voru úr timbri en ekki steini eins og víða erlendis gætu átt sinn þátt í því hversu lítið er varðveitt af húsaskreytingum.

Við siðskiptin breyttist listþörf kirkjunnar mjög, í stað skrauts og mynda af helgum dýrlingum nægði nánast að kirkja ætti altaristöflu, um fátt annað skraut var að ræða í lútherskum sið. Um leið hurfu atvinnutækifæri listamanna svo oft er talað um að á 17., 18. og 19. öld sé lægð í listasögu þjóðarinnar. Á hinn bóginn gerði tilkoma pappírs og aukinnar almenningsfræðslu það að verkum að mun fleiri gátu fest hugðarefni sín á blað og myndskreytt þau eftir eigin höfði og getu eins og fjölmörg myndskreytt handrit Snorra-Eddu frá síðari öldum bera vott um.
Stækkaðu myndina Stækkaðu myndina enn meira
Nikulássaga Perg. 4to nr. 16.

Handritalýsingar
Varðveitt handrit og skreytingar þeirra eru helst til vitnis um íslenska miðaldalist. Þau sýna að þeir sem skrifuðu og lýstu handrit náðu býsna langt í list sinni hvort sem um var að ræða stafagerð, skrautverk eða myndir í handritum. Flest íslensk myndskreytt handrit eru varðveitt frá 14. öld.

Svo virðist sem eftirspurnin meðal kirkjunnar manna og höfðingja hafi verið næg til þess að listhagt fólk hafi átt þess kost að einbeita sér að list sinni og starfa við hana. Það hefur verið eftirsótt og list þeirra í hávegum höfð.

 

 

 

um myndlist miðalda
um myndlist miðalda