Orðasafn

afturhvarf eða fyrning - stafsetningarreglur nútímans miðast ekki við framburð nútíma íslensku. Þær eru miðaðar við eldra mál, þegar y stóð fyrir annað hljóð en i og menn sögðu lengi og mega en ekki leingi og meiga. Þetta er viljandi gert til þess að halda betri tengslum milli nútímaíslensku og málsins á handritunum enda er sjaldgæft að tungumál hafi breyst jafnlítið í gegnum aldirnar eins og íslenskan.

andlegur - orðið er notað í tengslum við kirkju og trú.

Árni Magnússon -

band/bönd - ýmis tákn voru notuð reglubundið í skrift til að spara skinn og flýta fyrir skriftum. Bönd standa yfirleitt fyrir sérhljóða ásamt samhljóði, t.d. ar, er, us, ra, og svo var stafurinn z yfirleitt notaður sem og-band. Það er kallað að leysa úr böndum þegar texti er skrifaður upp úr handriti og orð og stafir settir í stað banda og styttinga.

barksýra - sútunarsýra unnin úr eikarberki, eikarsafa eða öðrum jurtum og notuð til sútunar eða litunar en auk þess í blek og lyf.

bréfaskriftir - embættismenn, s.s. biskupar og sýslumenn, þurftu að láta skrifa alls kyns bréf fyrir sig og höfðu menn í vinnu við það.

djákni - var vígsluheiti innan kaþólsku kirkjunnar.

dýrlingar - í kaþólskum sið eru dýrlingar eins konar milligöngumenn milli guðs og manna. Hver þeirra hefur sérstöku hlutverki að gegna og menn heita á þá sér til aðstoðar ef mikið liggur við.

fjöldaframleiðsla – þar sem margir hlutir eru gerðir eftir eina og sama mótinu þannig að þeir verða allir eins.

fornbréf - þegar Jónsbók var gerð að lögbók landsins 1281 voru í henni ákvæði um að alla lagagerninga, s.s. kaup og sölu á jörðum, yrði að staðfesta með bréfum sem fólk setti síðan innsigli sín við. Þessi bréf kallast nú fornbréf.

forrit - er fyrirmyndin, eða handritið, sem verið var að afrita eða skrifa eftir. Frumrit bókar er aftur á móti fyrsta eintakið.

framburður - þ.e. hvernig orð málsins eru borin fram. Nú til dags er stafsetning orða ekki miðuð við framburð en meðan engar stafsetningarreglur giltu skrifaði fólk nær framburði sínum. Þess vegna gefa textar handrita og fornra skjala vísbendingar um hvernig íslenska var töluð á þeim tíma sem þeir voru skrifaðir.

frumrit - er fyrsta gerð bókar (handrits).

gerð – á miðöldum voru textar oft til í fleiri en einni gerð þar sem áherslur gátu farið eftir tilgangi textans og þeim sem hann var ætlaður. Sumir skrifarar breyttu, felldu niður eða bættu við í samræmi við það.

fyrirmyndir - eru safn mynda sem listamenn notuðu við vinnu sína. Á miðöldum var mjög fastmótað kerfi tákna í myndlist sem mikilvægt var að væru rétt, sérstaklega í kirkjulist. Því var gott fyrir listamenn að eiga safn fyrirmynda.

handverk – hlutur unninn í höndunum þannig að engir tveir hlutir verða nákvæmlega eins.

handverkskunnátta - er að kunna ákveðið handverk eða vinnulag, til dæmis við smíðar, saumaskap eða aðra iðn.

hásteflingar - eru lágir hástafir svo sem N, G, R, T og S en þeir voru skrifaðir inn í texta fyrir tvo eins samhljóða, þ.e. nn, gg, rr, tt, og ss.

háramur - er sú hlið skinnsins sem hárin vaxa á, ytra byrði þess. Sumir kalla þessa hlið skinnsins hárham.

heimildir - eru upplýsingar sem hægt er að fá með ýmsu móti. Heimildir um líf til forna er helst að finna í fornminjum, gömlum skjölum og bókum.

holdrosi - er sú hlið skinnsins sem snýr að holdinu, innra byrði þess. Oft er sú hlið grófari og erfiðara að fá hana nógu slétta til að gott sé að skrifa á hana.

hómilía - inniheldur útskýringar á textum biblíunnar á móðurmálinu, þar sem fjallað er um hvernig eigi að skilja textann á trúarlegan hátt. Til dæmis má nefna að þar er skýring á því hvers vegna Jesú kallist ljós manna þar sem hann lýsi leið þeirra til réttrar trúar.

Jónsbók – lögbók Íslendinga frá 1281. Enn eru nokkur lagaákvæði Jónsbókar í gildi. Gríðarlega mörg Jónsbókarhandrit eru varðveitt frá miðöldum, það elsta frá lokum 13. aldar, og mörg skemmtilega myndskreytt.

kirkjufeður - leiðtogar og fræðarar kristinnar kirkju á mótunarárum hennar fyrstu aldirnar kallast kirkjufeður. Þeir eru alls um 100 talsins og rituðu ýmist á latínu (Vesturkirkjan) eða grísku (Austurkirkjan). Fjórir helstu kirkjufeðurnir innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar eru Ambrósíus biskup í Mílanó (~340-397), Ágústínus biskup í Hippó í Afríku (354-430), oft nefndur faðir hennar, Híerónímus (~340-420), sem þýddi Biblíuna á latínu úr grísku og hebresku, og Gregoríus páfi hinn mikli (~540-604). Ísidór frá Sevilla (~560-636) er jafnan talinn síðastur latnesku kirkjufeðranna, helsta verk hans er alfræðiritið Etymologiae (líka nefnt Originies). Upp úr aldamótum 2000 útnefndi Vatíkanið í Róm Ísidór sérstakan verndardýrling tölva og tölvutækni, og þar með tölvunarfræðinga, tölvunotenda, veraldarvefsins, skólabarna og stúdenta, sem heiðra þá e.t.v. dýrling sinn á dánardægri hans 4. apríl.

Introduction to Medieval Europe 300 – 1550, bls. 50-51.
Sigurður Ægisson. „Hverjir eru kirkjufeður?“. Vísindavefurinn 11.12.2007.
http://visindavefur.is/?id=6953
 
http://www.catholic.org/saints/saint.php?saint_id=58
http://www.catholica.is/fath.html
http://saints.sqpn.com/saint-isidore-of-seville/

Klerkur - orðið er notað yfir hvern þann sem tók kirkjulega vígslu, af hvaða stigi sem hún var, eftir tilskylda bóklega menntun og þjálfun. Einungis karlar tilheyrðu klerkastéttinni. Á miðöldum voru vígslustig almennra klerka sjö talsins, fjórar lægri vígslur og þrjár æðri. Lægri vígslurnar fólu ekki í sér ævilanga skuldbindingu við kirkjuna en þeir sem tóku æðri vígslurnar þrjár gengu þar með kirkjunni á hönd og lutu lögum hennar og yfirráðum.

kolefnisblek eða sótblek - í fornöld bjuggu Kínverjar, Egyptar og Rómverjar til blek sem innihélt sót og fljótandi bindiefni sem þeir notuðu til skriftar á papýrus eða pappír. Það hentaði illa á bókfell og var auðvelt að afmá það með vatni.

landnámsmenn - landnámsmenn voru að stærstum hluta heiðnir, þeir voru ekki bóklærðir en báru samt með sér heilmikinn fróðleik sem þeir varðveittu í minni. Þannig kunnu þeir siði, reglur og lög sem þeir fóru eftir, aðferðir við húsagerð, búskap, smíðar, matargerð og allt annað sem nauðsynlegt var til að lifa af. Jafnframt kunnu þeir sögur og kvæði, aðferðir við útskurð, útsaum og gerð skrautmuna, sem þeir notuðu sér til skemmtunar og til að fegra umhverfi sitt. Fróðleikurinn barst mann fram af manni, einn kenndi öðrum við dagleg störf en formlegt skólahald þekktist ekki.

latína - var sameiginlegt tungumál kaþólskra um allan heim. Messur fóru að stórum hluta fram á latínu og hún varð einnig sameiginlegt ritmál fræðimanna á miðöldum. Latína gekk líka undir heitinu bókmál hér á landi.

leikmenn - eru menn sem ekki voru í þjónustu kirkjunnar. Orðið er notað til aðgreiningar frá prestum og öðrum kirkjunnar þjónum.

límingarstafur - til að flýta skriftum og spara skinn voru stafir stundum látnir renna saman eins og íslenskt æ sem er límingarstafur úr a og e. Algengast var að límingarstafir væru a og annar stafur, til eru an, af, og ar límingar svo eitthvað sé nefnt.

lýsa - orðið er notað um það þegar handrit eru myndskreytt. Erlendis voru handrit oft skreytt gulli sem lýsti af síðunum eins og orðið illuminere gefur til kynna en það er t.d. notað um að lýsa handrit.

lýsing - er myndskreyting í handriti. Þar sem ríkidæmi var nægilegt var gull oft notað í skreytingarnar og þá ljómuðu þær á síðum handritsins, enda er orð á borð við illumination notað um handritalýsingar í öðrum tungumálum.

máldagi - fólk gaf kirkjum ýmsa muni og arfleiddi þær jafnvel af einstökum hlutum eins og bókum til að eiga von um betra líf eftir dauðann. Munirnir voru skráðir sem eignir kirkjunnar og kallaðist skráin máldagi sem einnig gat geymt skrá um eignir jarðar en máldagabók nefnist safn af skrám yfir eignir kirkna.

málhljóð - tungumál veraldar innihalda margs konar hljóð sem eru mismunandi eftir hverju máli. Nærtækt er að benda á muninn á r-hljóði í dönsku, frönsku og íslensku. Þetta veldur því að ef við lærum tungumál eftir u.þ.b. 10 ára aldur getur verið erfitt að ná tökum á öllum hljóðum erlenda málsins og þess vegna tölum við með hreimi. Þrátt fyrir að mörg tungumál noti latneska stafrófið hljómar það mismunandi eftir tungumálum. Auk þess hefur oftast þurft að bæta við sérstökum stöfum til að tákna þau hljóð málsins sem ekki falla undir stafrófið eins og t.d. sérhljóðin: á, é, í, ú, samhljóðin: þ, ð og tvíhljóðin: ei, ey, au.

munkar - munkur er maður sem hefur gengið í klaustur og nunna er kona sem hefur gert hið sama. Í því felst að lofa að eignast ekki maka, vera hlýðinn og fátækur, dveljast í klaustrinu og helga líf sitt guði.

nasalstrik - lárétt strik sem dregið var yfir sérhljóð sem stytting eða band og táknaði nefhljóð, n eða m eða nefhljóðssamband, n eða m með fleiri stöfum, dæmi: mönnu, oft notað í lok orða.

nunnur - nunna er kona sem hefur undirgengist klausturreglu og munkur er maður sem hefur gert hið sama. Í því felst að lofa að eignast ekki maka, vera hlýðin og fátæk, dveljast í klaustrinu og helga líf sitt guði.

papýrus - er unninn úr plöntu sem kallast papýrusreyr og vex nær eingöngu í Egyptalandi. Papýrus var unnin úr stöngli papýrusreyrsins. Hann var skorinn í þunnar ræmur sem voru lagðar hlið við hlið, síðan voru aðrar ræmur lagðar þversum þangað til blöðin voru orðin hæfilega stór. Blöðin voru því næst barin og pressuð saman en síðan límd hvert við enda annars með hveitilími. Þannig voru búnar til lengjur sem voru látnar þorna í sól en síðan vafðar upp í svokallaðar rollur. Þá var sedrusviðarolía borin á þær öðru megin og þegar hún hafði þornað var flöturinn tilbúinn til skriftar. Gallinn við papýrusinn var hversu lítið hnjask hann þoldi og auk þess óx efnið í hann aðeins í Egyptalandi. Því var fljótlega leitað að öðru efni sem hentugra þótti til skriftar og bókagerðar.

pennar - orðið penni er dregið af latneska orðinu penna sem þýðir fjöður.

pergament - orðið er notað yfir skinn sem verkað hefur verið til bókagerðar, hvort sem það er af kálfum, sauðkindum eða geitum. Heitið pergament er dregið af borgarheitinu Pergamum (nú Bergama í Tyrklandi) en borgin var þekkt fyrir bókfellsgerð til forna.

prestsefni - ungur maður sem var að læra til prests.

ritunartími - sá tími sem handrit er skrifað á.

rithönd - einstaklingsbundin skrift sem oft er skoðuð nákvæmlega til að rannsaka tengsl milli handrita og skrifara í þeim tilgangi að kanna hvort sami skrifari hafi verið að verki oftar en einu sinni.

rollur - áður en bækur komu til sögunnar voru skrifuð blöð, annað hvort úr papýrus eða bókfelli, límd eða saumuð saman á hliðunum og vafinn upp í vafninga sem kallast rollur. Rollurnar voru yfirleitt geymdar í háum, lokuðum krukkum þegar þær voru ekki í notkun.

rotun - aðferð við afhárun skinna, þau voru fyrst bleytt með keytu (þvagi) eða blöndu af vatni og saur hunda og fugla sem látinn var rotna, en því fylgdi óvinsæl lykt. Síðan var skinnunum staflað í hrúgu og þau látin rotna uns hárin voru laus frá húðinni.

skrifaraskóli - tveir eða fleiri sem skrifa lík stafatákn og beita sama kerfi við bönd og styttingar og greinamerki eru af sama skrifaraskóla. Þeir hafa líklega lært af sama kennara eða við sömu stofnun en geta svo farið í ólíkar áttir og gerst munkar, nunnur, prestar eða bændur.

skrifpúlt - eru vinnuborð með hallandi borði til að skrifa við, oft ætluð til að standa við.

skrifstofur - voru sérstakar vinnustofur skrifara á miðöldum. Þær voru víða til húsa þar sem atvinnuskrifarar voru að störfum, í klaustrum og á stórbýlum en ekki í kotbæjum.

skækill - er sá hluti skinnsins sem hefur verið utan um útlimina á dýrinu.

sorta - er dökkur mýrarjarðvegur með rotnuðum jurtaleifum sem var forðum notaður til litunar á svörtum fatnaði.

sortulyng - planta af lyngætt með grænum spaðalaga blöðum, myndar rauð ber, Arctostaphylos uva-ursi.

spássíugreinar - eru skrifaðar á spássíur blaða, ýmist af skrifaranum sjálfum eða af notendum handritsins síðar meir. Þær eru oft vettvangur fyrir kvartanir sem tengjast líkamlegri vanlíðan skrifara, aðbúnaði þeirra eða lélegum launakjörum. Guðrækilegar hugleiðingar, persónulegar athugasemdir og kvartanir, t.a.m. varðandi nám af bókum eru jafnframt algengar spássíugreinar.

staðir - kirkjujarðir sem voru upphaflega í eigu höfðingja sem höfðu reist þar kirkju og gefið svo kirkjunni jörðina að hluta eða öllu leyti, en bjuggu áfram á jörðinni, höfðu forræði yfir kirkjunni og fengu sinn hluta af tíundinni.

stétt - mismunandi þjóðfélagsstaða eða atvinna fólks hefur um aldir oft verið notuð til að raða því niður í stéttir, t.a.m. aðall, bændur, vinnufólk, verkafólk, menntafólk, bakarar, prentarar o.s.frv. og stjórnað því hvaða tækifæri fólk hefur haft, t.a.m. til menntunar. Á miðöldum hafði fólk mjög mismunandi aðgang að menntun eftir því hvaða stétt það tilheyrði. Alþýðufólk hafði afar fá tækifæri til þess á meðan efnafólk hafði greiðari aðgang að þeirri menntun sem í boði var.

stórbýli - á stórbýlum bjó efnafólk, höfðingjar og auðugir bændur. Þar var oft mikill húsakostur og margt fólk saman komið. Þar voru því e.t.v. betri skilyrði til náms eða sagnaskemmtunar en á smærri búum.

styttingar - ýmis tákn voru notuð reglubundið í skrift til að spara skinn og flýta fyrir skriftum. Styttingar eru yfirleitt stafur með einhvers konar tákni fyrir ofan, t.d. láréttu striki í gegnum leggi háleggjaðra stafa, s.s. h og k fyrir hann og konungur eða fleiri en einn staf, s.s. þverstrik í gegnum hátt s og l sem táknar skal.

sútun - aðferð við að verka skinn í leður, notuð eru efni sem viðhalda styrk og mýkt skinnsins en koma í veg fyrir að þau rotni.

tekjulind - er eitthvað sem gefur af sér tekjur, annað hvort peninga eða vörur.

tíund - skattur á efnameiri bændur sem greiddu árlega einn tíunda eigna sinna í skatt, lögfest 1097 á Íslandi, nokkru fyrr en á hinum Norðurlöndunum (1104). Tíundin átti að skiptast jafnt á milli biskups, kirkna, kennimanna og fátækra.

veraldlegur - orðið er notað um þá menn eða þau verk sem ekki tilheyrðu kirkjunni.

víðir - tré eða runnar, planta af ætt dulfrævinga (Salicaceae).

vikursteinn - moli af vikri sem myndast við eldgos. Vikur er frauðkenndur og hæfilega harður til að gott sé að nota hann til að fægja hluti. Stundum var vikri blandað í sápu, e.t.v. í gólfþvotta á trégólfum, og svokölluð vikurkol voru notuð til að þrífa innan potta.

ŝingfararkaupsbóndi - á þjóðveldistímanum var hverjum bónda sem átti tilgreinda lágmarkseign skylt að vera þingmaður einhvers goða. Goðinn gat kallað tíunda hvern þingmann sinn til þingreiðar en þeir sem heima sátu greiddu þingfararkaup. Efnameiri bændur voru því nefndir þingfararkaupsbændur.