Heilagur Georg vegur drekann

Þessi mynd er ekki úr elsta hluta Teiknibókarinnar AM 673a III 4to en hún líkist málverki enda hefur einhver sett liti í hana eftir á.
Í sögu heilags Georgs er sagt frá því að í díki nokkru nálægt borginni Kampedus hafi átt aðsetur illvígur dreki. Á degi hverjum hélt
drekinn til borgarinnar í leit að æti og þurftu borgarbúar að fórna manni í hvert skipti. Þeir köstuðu hlutkesti um valið og dag einn
kom það í hlut hinnar yndislegu konungsdóttur, Kleodolindu, að deyja á þennan hátt. Hinn hugumstóri riddari Georg mátti ekki til
þess hugsa að Kleolinda yrði drekanum að bráð og bjargaði henni naumlega með því að reka drekann á hol en færði síðan hræið
borgarbúum sem lofuðu guð og margir tóku skírn, en þetta var í heiðnum sið. Fremst á myndinni rekur Georg drekann í gegn sitjandi
hest sinn, klæddur brynju og hjálmi og heldur á skildi. Bak við hann stendur konungsdóttirin með kórónu og slegið hár og fylgist með
en foreldrar hennar, konungshjónin, sjást í fjarlægð á hallarsvölunum. Sauðkindin stendur á enginu en í fjarska sjást skip á sjónum.