Bókmenning berst til Íslands

Bókleg menntun berst til Íslands

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Með fjölgun nemenda í dómskólum og háskólum á miðöldum jókst þörf fyrir bækur og bókagerð. Hér sést Henry of Germany halda fyrirlestur fyrir hóp nemanda í háskólanum í Bologna, einum elsta háskóla Evrópu. Handritið er prússneskt frá 14. öld. Bildarchiv Preussischer Kulturbesitz, Berlin Miniature 1233, Kupferstich-kabinett smpk.

Þróun kirkju og bókmenningar á Íslandi
Íslensk bókmenning miðalda er afsprengi kristinnar evrópskar bókmenningar, sem var einkum skráð á latínu, en þróaðist svo í samræmi við samfélag og aðstæður í landinu. Sérkenni hennar felst í fjölbreyttu efni sem skrifað var á móðurmálinu og hefur varðveist í skinnhandritum frá miðöldum eða yngri pappírsafritum sem geyma texta miðaldaverka. Ýmsar samverkandi ástæður gætu skýrt af hverju margt var ritað á móðurmáli á Íslandi fremur en á latínu, máli kirkju og fræða í Vestur-Evrópu. Að vísu gefur handritavarðveislan alls ekki skýra mynd af fjölda latínubóka í landinu í kaþólskri tíð og því ómögulegt að áætla hlutfallið milli latínurita og rita á móðurmálinu á þeim tíma. Eyðing kaþólskra rita eftir siðaskiptin 1550 og minni áhugi handritasafnara á 17. öld á slíkum bókum ræður þar mestu um. Fólki hefur hins vegar löngum verið hugleikið hvernig upphafi og þróun sagnaritunar, ekki síst Íslendingasagna, var háttað sem og varðveislu fornra kveðskapargreina og goðsagna í verkum kristinna miðaldahöfunda. 

Landnemabyggð og norrænt menningarsamfélag
Skýringa á sérkennum íslenskra miðaldabókmennta hefur m.a. verið leitað í samfélagslegum, menningarlegum og landfræðilegum þáttum, allt frá landnámi og fram til ritunartíma þeirra á 12. öld og síðar. Í byggðum fólks af ólíkum uppruna í nýju landi koma ólíkir menningarstraumar saman, þar á meðal frásagnarefni, kveðskaparform eða sagnaminni. Þar varðveitist e.t.v. líka fróðleikur, kvæði og sagnir úr ‘gömlu löndunum’ sem hluti af minningum þeirra sem fóru að heiman og verða mögulega síðar hluti af upphafssögu ‘nýja landsins’. Ritun þeirrar sögu getur svo líka snúist um að staðfesta eignarhald og völd ráðandi höfðingjaætta með því að vísa til arfsagna frá landnámi og rekja skyldleika til fólksins sem festi sér þá landsvæði og mótaði stjórnkerfi landsins.

Norrænar byggðir stóðu á Englandi, Skotlandi, Írlandi, Bretlandseyjum, Frakklandi og víðar, á landnámstímanum og sumar vel fram yfir kristnitöku á Íslandi. Elsta skrift í Noregi og á Íslandi sýnir t.d. tengsl við enska skrift, en ritun á móðurmáli var blómleg allt frá 9. öld, ekki aðeins hjá Engilsöxum heldur líka Írum. Hugsanlega átti það fordæmi sinn þátt í ritun Íslendinga og Norðmanna á móðurmáli, því þeir notuðu líka norrænu en ekki aðeins latínu, m.a. á skjöl og bréf innan umdæmis erkibiskupsstólsins í Niðarósi, sem náði einmitt yfir vestnorræna mál- og menningarsvæðið. Væntanlega hefur það stutt enn frekar við ritun sagna og fræða á móðurmáli þar sem norræna málsvæðið var þá miklu stærra en Ísland eitt.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Horft niður Almannagjá á Þingvöllum þar sem Alþingi kom saman á sumrin.

Samfélagsgerð og landshættir
Rætur sagnaritunar og víðtæk ritun á móðurmáli hafa líka verið raktar til samfélagsgerðar á þjóðveldisöld, þ.e. höfðingjaveldisins, sem stóð þar til Ísland varð hluti af norska konungsveldinu á árunum 1262-64. Náin ætta- og hagsmunatengsl fólks í landinu og ásókn þekktra innlendra höfðingja eða ætta eftir völdum og áhrifum, einnig eftir að Íslendingar lutu norskri krúnu, gætu líka varpað ljósi á efni og bókmenningu miðalda. Því eru ættartölur sem víða má finna í miðaldaverkum alls ekki ‘óþarfa aukaefni’, heldur geta gefið vísbendingar um tilurð textans, s.s. um mögulega ritbeiðendur, höfunda eða skrifara miðaldaverka – og sjónarmiðin að baki samningu þeirra, afritun eða umritun ef um slíkt er að ræða.

Dreifð byggð án þéttbýlismyndunar gerði íslenskt samfélag e.t.v. kyrrstæðara en víða annars staðar í Evrópu. Þar settu borgamyndun, stofnun dóm- og klausturskóla, hirð- og einkaskóla, og síðar háskóla, eflaust meira mark á lærdóm og bókmenningu klerka og yfirstétta en á strjálbýlu landi í miðju Atlantshafi. Ísland hefur þó ekki verið menningarlega einangrað á miðöldum, mörg varðveitt miðaldaverk vitna einmitt um erlenda menningarstrauma og tengsl við evrópska bókmenningu. Engu að síður var landið í nokkurri fjarlægð frá æðstu valdastofnunum kirkjunnar og konungi sínum frá 1262-64. Nýir straumar hafa e.t.v. borist seinna eða í minna mæli til landsins, hvort sem þeir lutu að konungsvaldi, kirkjupólitík eða bóklegum lærdómi. 

Upphaf kirkjuhalds og lærdóms í landinu
Þróun innlendrar kirkju og sú viðleitni íslenskra lærdómsmanna að skipa landinu stað innan sögu og heimsmyndar kristinna landa, þar á meðal norrænu landanna, hafa síðast en ekki síst verið taldir áhrifavaldar í bókmenningu miðalda. Náin tengsl voru milli kirkjulegs og veraldlegs valds á Íslandi fram til síðari hluta 13. aldar. Upphafsár íslenskrar kirkjusögu varpa því ákveðnu ljósi á innleiðingu og aðlögun ritmenningar að samfélaginu.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Kristur í tignarsæti á broti úr messusöngbók frá Höskuldsstöðum á Skagaströnd, AM Dipl. Isl. Fasc. V 12. Hér er A-teiknari Teiknibókar, AM 673 a III 4to, að verki.

Kristinn menningarheimur
Með kaþólsku kirkjunni bárust evrópsk menningaráhrif til Norðurlandanna og Íslands, sem stóð á útjaðri hins kristna heims en kynntist þá og eignaðist hlutdeild í heimsmynd hans og menntahefð. Í Evrópu voru hinar svokölluðu sjö frjálsu listir kenndar í skólum en það námsfyrirkomulag var arfur frá klassískri fornöld Rómverja. Guðfræði var hornsteinn kristinnar menntunar og aðalkennslugreinin, en þann sess skipaði heimspeki eða lögfræði hjá Rómverjum til forna. Ekki er víst að menntun hafi verið með alveg sama sniði um alla álfuna en einhverrar lágmarkskunnáttu hefur líklega alltaf verið krafist af kirkjunnar þjónum.

Hinar sjö frjálsu listir
Á miðöldum var frjálsu listunum skipt í þríveginn (trivium) og fjórveginn (quadrivium) eftir því hvort fengist var við orð eða hluti. Þrívegurinn náði yfir þær greinar sem fengust við tungumálið, í grammatica (málfræði) var latínan kennd, í dialectica (rökfræði) var mönnum kennt að aga hugsun sína og í (mælskulist) hvernig ætti að koma henni frá sér í viðeigandi búningi. Á Íslandi voru þessar greinar iðulega nefndar latínulist, þrætubók og málsnilld til forna.

Fjórvegurinn voru þær greinar sem fengust við hluti, arithmetica (tölvísi), geometrica (flatarmálsfræði), astronomia (stjörnufræði) og musica (tónfræði). Samsetning þessara fjögurra greina er ævaforn, rakin til skóla Pýþagórasar á Sikiley um 500 f. Kr. Ástæða þess að tónlist og stjörnufræði féllu í sama flokk og stærðfræði var sú að tónlist var jafnframt hlutfallareikningur og stjörnufræðin eins konar hagnýt rúmfræði þar sem menn reiknuðu út tímatal. Í sameiningu gengu greinarnar undir nafninu hinar sjö frjálsu listir (septem artes liberalis), stundum einnig höfuðíþróttirnar sjö.

Menntastefna Karlunga
Karl mikli Frakkakonungur (742-814), eða Karlamagnús (fr. Charlemagne, lat. Carolus Magnus), braut undir sig og sameinaði öll kristin ríki Vestur-Evrópu í eitt stórveldi. Hann beitti sér mjög fyrir menningarlegum umbótum innan ríkis sins og fékk hinn engilsaxneska Alkvin frá Jórvík á Englandi til að stýra því starfi. Árið 800 tók Karl sér keisaratign sem Karl I keisari rómverska heimsveldisins. Stuttu áður gaf hann út þá tilskipun að í hverju biskupsdæmi og hverju klaustri skyldu lærlingum kenndir Davíðssálmar, en jafnframt nótnalestur og söngur, reikningslist og málfræði (þ.e. latína) sem töldust til hinna frjálsu lista.

Menntastefnu Karlamagnúsar gætti víða í Evrópu á miðöldum og hann var álitinn fyrirmynd hins kristna konungs. Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur, sem ríkti frá 1217 til dauðadags 1263, lét t.a.m. setja Karlamagnús sögu saman á norrænu upp úr frönskum söguljóðum og hefur sú saga m.a. varðveist í íslenskum handritum (elst er AM 180 c fol, frá 1375-1425). Hún er líka til í sænsku handriti úr safni Árna Magnússonar, AM 191 fol, sem skrifað var í Askeby klaustrinu á Austur-Gotlandi í Svíþjóð undir lok 15. aldar.