Handverkið
Skinnaverkandi með hálfmánalagaðan hníf,. Mynd úr handriti frá Nürnberg Amb. 317. 2° 34r. |
Bókagerð á miðöldum
Þegar ritöld hófst á Íslandi voru bækur búnar til úr skinni. Skinn hefur verið notað á ýmsan hátt í gegnum aldirnar, t.d. í veiðarfæri, aktygi, skó eða fatnað, en fyrir um 4500 árum var fundin upp aðferð við að verka skinn og gera úr því gott og handhægt efni til að skrifa á. Slíkt skinn nefnist bókfell eða pergament og í það má nota húðir af sauðkindum, geitum og kálfum.
Bókfell er ólíkt leðri að því leyti að skinnið hefur ekki verið sútað eftir afhárun heldur strekkt og síðan þurrkað. Strekkingin veldur breytingum í skinninu og gerir það afar endingargott sé það geymt við réttar aðstæður þar sem hvorki er of þurrt né of rakt.
Bókfell var dýrt efni og flóknara í framleiðslu en papýrus, en sökum þess að það var mun endingarbetra náði það fljótlega útbreiðslu. Bókfell barst til norðvesturhluta Evrópu með kristni og var algengasta efni í bókagerð á miðöldum. Frá 14. öldinni breiddist síðan notkun pappírs út í Evrópu, ekki síst í kjölfar prentlistarinnar, en á Íslandi leysti pappír bókfell smám saman af hólmi í bókagerð á 16. öld.
Bækur og bókfell
Í fyrstu var bókfell skorið í ferhyrndar lengjur sem síðan voru saumaðar saman og vafðar upp í rollur eins og gert var við papýrusinn. Nokkrum öldum eftir Kristsburð komu síðan bækur til sögunnar. Í stað þess að sauma saman lengjur voru tilsniðin blöð lögð saman og bundin í bækur. Miklu handhægara þótti að finna ákveðinn stað í texta með því að fletta bókum en að snúa rollum og þar af leiðandi öðlaðist bókarformið vinsældir.
Bókagerð á miðöldum var mikið og margþætt verk. Fyrst þurfti að útvega skinn og verka það, því næst að undirbúa skrifflötinn, sjóða blek og skera til penna. Þá var hægt að hefja skriftir. Þegar lokið hafði verið við að skrifa textann voru litir blandaðir og notaðir í kaflafyrirsagnir og stundum myndskreytingar. Að síðustu var bókin bundin inn og þá loks var hún fullgerð.
Líklega hefur myndast ákveðin verkaskipting eða sérhæfing í bókfellsverkun og bókagerð með tímanum, að minnsta kosti erlendis. Skinnið var þá fyrst verkað, strengt í tréramma og þurrkað á einum stað en síðan sent þangað sem unnið var að gerð bókarinnar sjálfrar. t.d. í klaustrum eða hjá atvinnuskrifurum.
Lestur, skrift og bókagerð fylgdu kristni og bárust til Íslands frá öðrum löndum. Þannig þekkingu þarf oft að aðlaga þeim aðstæðum sem fyrir eru, sérstaklega á eyju eins og Íslandi sem er fjarri öðrum löndum. Þetta á ekki síst við um handverkskunnáttu enda löguðu Íslendingar verklag í bókagerð að þeim aðstæðum og efnivið sem fyrir var í landinu, bæði í skinnaverkun og gerð bleks og lita.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima