Stíltegundir
Hvernig var unnið?
Eftir að lokið var við að skrifa textann var bókin lýst eða skreytt ef svo bar undir. Þá skildi skrifarinn eftir hæfilegar eyður til að hægt væri að bæta við fyrirsögnum, myndstöfum og upphafsstöfum kafla.
Það var svo ýmist skrifarinn sjálfur eða sérstakur handritalýsandi sem skrifaði fyrirsagnir og teiknaði og málaði stafi í eyðurnar. Kaflafyrirsagnir voru nær alltaf rauðskrifaðar án tillits til þess hvort handritið var skreytt að öðru leyti. Þær voru ekki settar fremst í línu eins og venja er nú á dögum heldur ýmist inni í texta eða í lok hans og var þá jafnvel látin standa aftast í tveimur til þremur línum.
Valþjófsstaðarhurðin sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íslands, nr. 11009. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi safnsins. |
Stíltegundir í handritalýsingum
Á Norðurlöndum, ekki síst í Noregi, var tréskurður þjóðarlist allt aftan úr heiðni. Menn ófu saman keltneska fléttinga og Úrnesstílinn af mikilli snilld. Þegar rómanski blómsveigastíllinn, sem hafði vínviðarteinunginn að fyrirmynd, barst til Norðurlanda um miðja tólftu öld varð til sérstakt afbrigði sem sameinaði þessar listhefðir og varð vinsælt um aldir á Íslandi, bæði í útskurði og silfurvíravirki. Frá gotneska stílnum tóku Íslendingar síðan inn blómamyndir, eikarlauf og rósir þrátt fyrir fastheldni sína í notkun rómanskra skrautsveiga.
Myndstafur í rómönskum stíl í lögbókarhandritinu AM 132 4to frá byrjun 15. aldar. |
Rómanski stíllinn
Á elsta skeiði íslenskrar bókagerðar hlýtur rómönsk lýsingahefð upphafsstafa að hafa staðið í miklum blóma. Að minnsta kosti náði hún slíkri fótfestu að allar götur síðan var hún ráðandi í íslenskum handritalýsingum miðalda og talsvert fram yfir siðaskipti. Grunnform rómanska stílsins er hringlaga myndflötur en innan hans var ákveðin myndbygging og var meginatriði myndarinnar oftast fyrir miðju hringsins. Hvert myndatriði var kyrrstætt og raðað í myndreitinn af miklum hagleik. Bent hefur verið á að hugsanleg ástæða fyrir því að íslenskum llistamönnum var hringformið og kyrrstaða rómanska stílsins svo töm og hafi verið leiknir í að raða myndefnum sínum á hringlaga myndfleti, hafi verið skreytihefð víkingaaldar sem m.a. einkenndist af útskurði og hringlaga ámáluðum skjöldum sem notaðir voru til að skreyta híbýli. Í útskurði var erfiðara að ná fram sveigjum og klæðafellingum eins og síðar einkenndi gotneska stílinn.
Myndstafur í gotneskum stíl í ríkulega skreyttu lögbókarhandriti, Svalbarðsbók AM 343 fol. |
Gotneski stíllinn
Gotneski stíllinn átti upphaf sitt í húsagerðarlist þegar farið var að nota oddboga í stað sveigboganna sem einkenndu rómanskan stíl. Í skreytilist, höggmyndalist, útskurði, myndlist og handritalýsingum sjást gotnesk áhrif á því að teikningar verða fíngerðari og minna stílfærðar. Meira er lagt upp úr hreyfingu í myndum, s.s. eðlilegri fellingum í klæðum fólks, sveigðari líkömum og nostrað er við smáatriði þannig að myndir urðu raunverulegri þar með talin dýr og jurtir. Frá gotneska stílnum tóku Íslendingar síðan inn blómamyndir, eikarlauf og rósir þrátt fyrir fastheldni sína í notkun rómanskra skrautsveiga.
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima