Prentvæn útgáfa
Verkefni
Tegundir texta og markhópar
A. Margar tegundir texta voru skrifaðar á skinn til forna. Hvaða markmið lágu að baki ritun konunga sagna, Íslendinga sagna, riddara sagna, kvæða, lögbóka og trúarrita?
-
Fyrir hverja var skrifað? Hver var markhópurinn?
-
Hverjir þessara texta voru síður gjaldgengir á skemmtunum og hvers vegna?
-
Hvaða sambærilegir textar eru prentaðir nú til dags?
-
Hafa breyttar aðstæður kallað á nýjar gerðir eða tegundir bóka? Hafið barnabækur t.d. í huga í þessu samhengi.
-
Hafa fleiri um það að segja nú en til forna hvers konar bækur eru gefnar út?
B. Auglýsingar og markaðssetning ráða sífellt meiru um hvernig vörur, þar á meðal bækur, seljast.
-
Búið til auglýsingar til að markaðssetja Íslendinga söguna sem þið lesið, bæði sem bók og kvikmynd. Gerið ykkur grein fyrir því til hverra auglýsingin á að höfða (markhópur).
- Gerið a.m.k. tvenns konar auglýsingar sem höfða til tveggja ólíkra markhópa. Skrifið einnig kynningartexta fyrir bókarkápu, myndbands- eða DVD-hulstur.
Til kennarans
Verkefnið þjálfar knappa endursögn helstu efnisatriða sögunnar sem unnið er með. Auk þess ætti vinnan að gera nemendur meðvitaðri um áherslur og markhópa í auglýsingamennsku þannig að þeir átti sig á hvaða lögmál búa að baki markaðssetningu hverju sinni.
Kostnaður við bókagerð
-
Hvaða kostnaði þurfti að reikna með þegar bækur voru búnar til á miðöldum? Var kostnaður mismunandi eftir handritum? Skipti stærð bókanna þá einhverju máli?
-
Höfðu allir ráð á að láta búa til bækur? Hvað myndi Flateyjarbók kosta nú til dags? Í hana fóru 102 kálfar og tveir menn unnu við skriftir og myndskreytingar um tveggja ára skeið. Gefum okkur að kálfsverð sé u.þ.b. 75.000 kr. og vinnulaun 200. 000 kr. á mánuði fyrir hvorn skrifara. Hvað gætu blek, pennar og litir kostað? Útbúið kostnaðaráætlun.
|