Kirkjan kemst á legg
Klerkur í stól frammi fyrir söfnuði, úr lögbókarhandritinu Reykjabók AM 345 fol. |
Auðugir bændur reisa kirkjur
Í upphafi kristni á Íslandi skorti ekki aðeins presta heldur einnig kirkjur. Margir efnaðir höfðingjar og bændur létu þá byggja kirkjur á jörðum sínum og komu sonum sínum eða öðrum efnilegum piltum til prestmennta. Íslensk kirkja var framan af bænda- eða höfðingjakirkja þar sem kirkjueigendur héldu og réðu yfir kirkjum sínum og klerkum. Synir þeirra (og síðar e.t.v. dætur) sem settir voru til náms innan lands eða utan, tóku síðan við embættum og menntastarfi kirkjunnar. Svipuð þróun varð víðast í frumkristni hinna norrænu landanna en þar efldist kirkjuvaldið öllu fyrr. Á Íslandi stóðu kirkjuítök höfðingja lengur og þeir áttu fyrir vikið meiri þátt í að móta bókmenningu í landinu.
Innlend kirkjustjórn
Tvær höfðingjaættir, Haukdælir og Oddaverjar, voru sérstaklega áberandi við mótun og stjórn íslenskrar kirkju frá fyrstu tíð. Það voru afkomendur þriggja leiðtoga höfðingja við kristnitökuna, Síðu-Halls Þorsteinssonar, Gissurar hvíta Teitssonar og tengdasonar hans Hjalta Skeggjasonar, sem tengdust síðan innbyrðis á ýmsa lund. Haukdælir og Oddaverjar voru meðal helstu valdaætta landsins á þjóðveldisöld og ítök þeirra mikil, bæði veraldleg og andleg. Á höfuðbólum þeirra, í Haukadal í Biskupstungum og Odda á Rangárvöllum, risu einnig þekktustu lærdómssetur landsins, utan biskupsstóla og klaustra.
Nær allir biskupar landsins fram yfir 1200 áttu Síðu-Hall að sameiginlegum forföður en voru auk þess langflestir af ætt Gissurar hvíta, en Teitur Ísleifsson, afabarn hans, var ættfaðir Haukdæla. Oddaverjar, séra Sæmundur fróði Sigfússon og afkomendur hans, voru þekktir fyrir lærdóm og áttu ríkan þátt í að móta íslenska kirkju en sátu sjaldnar í æðstu embættum hennar. Þeir töldust til helstu höfðingja landsins og gátu státað af tengslum við Noregskonunga eftir að Loftur, sonur Sæmundar, kvæntist Þóru laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs, um 1120. Sonur þeirra, Jón Loftsson í Odda (1124-97), var virtasti höfðingi landsins á sinni tíð. Ýmis innlend fræðaskrif, s.s. Fyrsta málfræðiritgerðin, og upphaf ritunar konungasagna hafa, m.a. af þessum ástæðum, verið rakin til Oddaverja.
Fyrsti biskup Íslands
Ísleifur (1006-80), sonur Gissurar hvíta, var fyrstur Íslendinga til að stunda bóknám svo víst sé talið. Hann fór ungur í fylgd föður síns til Herfurðu (Herford) á Saxlandi til náms við nunnuklaustrið þar. Klaustrið var þá eitt helsta menntasetur aðalsins og í nánum tengslum við munkaklaustrið í Corvey á Saxlandi, mikillar miðstöðvar trúboðs á Norðurlöndum. Þaðan kom t.d. Ansgar, fyrsti erkibiskup í Hamborg-Brimum (d. 865), á sínum tíma til að stýra trúboði á Norðurlöndum. Þessi tengsl hafa e.t.v. ráðið námsdvöl Ísleifs í Herfurðu en að henni lokinni var hann vígður til prests og sneri aftur til Íslands.
Til tíðinda dró í innlendri kirkjustjórn árið 1056 þegar Ísleifur var vígður fyrsti biskup Íslands og fékk umboð til að stýra kirkju og kristnihaldi í landinu. Hann var án fasts biskupsstóls og hafði aðsetur á föðurleifð sinni, og goðorði, í Skálholti. Þar er sagt að hann hafi stofnað skóla til að mennta presta enda báru biskupar ábyrgð á menntun klerka í umdæmi sínu. Sérstakt skólahús eða kennslustofur hafa varla verið í Skálholti á þessum tíma og nemendur sennilega hlotið einkakennslu.
Kennsla Ísleifs í Skálholti
Menntun Ísleifs á Saxlandi mótaði eflaust kristnihald og fræðslu í landinu í tíð hans. Um skólahald, sem var áður á hendi trúboðsbiskupa og farandpresta, en biskup landsins bar nú ábyrgð á segir Ari fróði í Íslendingabók: En er það sáu höfðingjar og góðir menn, að Ísleifur var miklu nýtri en aðrir kennimenn, þeir er á þvísa landi næði , þá seldu honum margir sonu sína til lærlingar og létu vígja til presta. Í Kristnisögu, frá um 1200, segir líka frá fræðslu Ísleifs: „Hann lærði marga ágæta menn og lét vígja til presta, en af þeim urðu síðan tveir byskupar, Jón Ögmundarson hinn helgi og Kolur Víkverjarbyskup.“ Jón varð fyrsti biskup á Hólum, en Kolur (eða Kollur) varð biskup í Víkinni í Noregi, og hafði aðsetur þar sem nú er Osló.
Stoðir innlendrar kirkju
Gissur sonur Ísleifs (1042-1118) varð næsti biskup yfir Íslandi, vígður 1082, tveimur árum eftir dauða föður síns. Hann var í útlöndum þegar Ísleifur lést en kom heim sumarið eftir, var þá kosinn biskup og vígður ári síðar. Gissur nam líka í Saxlandi og treysti mjög stoðir innlendrar kirkju í biskupstíð sinni. Hann gaf höfuðból ættarinnar, Skálholt, undir fastan biskupsstól og stóð fyrir setningu tíundarlaga 1097, þeirra fyrstu á Norðurlöndum, en þau hafa eflaust verið rituð þó heimildir fyrir því skorti. Tíundin var eignaskattur sem tryggði rekstur biskupsstóls og kirkna, prestlaun og fátækrahjálp. Að ósk Norðlendinga skipti Gissur landinu í tvö biskupsdæmi og setti biskupsstól að Hólum í Hjaltadal 1106.
Kirkjan að Hólum að vetrarlagi. Mynd af Wikipedia. |
Biskupsstóll á Hólum
Jón Ögmundarson (1052-1121) var kosinn fyrsti biskup á Hólum. Hann hafði lært hjá Ísleifi í Skálholti en síðan í Danmörku og Noregi. Jón var vígður til embættis 1106 af erkibiskupnum í Lundi sem Ísland heyrði undir frá stofnun erkistóls þar 1104. Hann flutti kirkjuvið með sér úr vígsluförinni og reisti glæsilega dómkirkju á Hólum. Þar stofnaði hann fljótlega prestaskóla og fékk tvo kennara frá Lundi til að kenna latínu og sönglist. Einnig lagði Jón grundvöll að fyrsta klaustri landsins á Þingeyrum í Húnavatnssýslu en það var ekki stofnað formlega fyrr en 1133, eftir daga hans.
Höfðingjar efla kristni
Oddaverjinn Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133) var prestsonur af ætt Síðu-Halls, yngri samtímamaður Gissurar biskups en jafnaldri Jóns biskups. Hann var sendur ungur til náms, sennilega í Frakklandi. Eftir áralanga fjarveru sneri Sæmundur heim, tók prestvígslu og settist að á föðurleifð sinni og goðorði í Odda. Heimildir segja frá kennslu hans og ritstörfum á latínu, e.t.v. þeirra fyrstu af hendi Íslendings. Engin ritverk hans hafa þó varðveist svo vitað sé en þau hafa mótað innlend fræðaskrif og verið heimildir síðari verka.
Höfðingjar landsins, sér í lagi Sæmundur fróði og Gissur biskup, nánir samstarfsmenn þeirra, skyldmenni og eftirmenn, tóku höndum saman við að koma innlendri kirkju og rithefð hennar á legg. Fyrirmyndir að kirkjustjórn, lagagerð og skattlagningu hafa þeir vafalaust sótt til námsára sinna á Saxlandi og í Frakklandi. Skrásetning landslaga eftir munnlegri geymd, þ.e. eftir Markúsi Skeggjasyni lögsögumanni, hófst t.d. veturinn 1117-18 hjá Hafliða Mássyni á Breiðabólstað í Húnaþingi, tengdasyni Teits Ísleifssonar í Haukadal, bróður Gissurar. Ritun laganna var að undirlagi kirkjunnar manna sem helst þekktu þær hugmyndir að lög ættu að standa á bók.
Gissur – sem konungur og biskup í senn
Í frásögn Hungurvöku stafar ljóma af biskupstíð Gissurar: „og var rétt að segja að hann var bæði konungur og byskup yfir landinu meðan hann lifði“. Eflaust er svo sterkt til orða tekið vegna mikilvægis hans við að móta og styrkja kirkju og kristni í landinu. Upphaf lagaritunar, setning tíundarlaga og kirkjuréttar var líka oftar í verkahring valdameiri höfðingja, konunga eða erkibiskupa, en stólbiskupa yfir landshluta eða landi.
Hungurvaka greinir einnig frá því að séra Sæmundur fróði og Markús Skeggjason lögsögumaður hafi stuðlað að lögtöku tíundarinnar ásamt Gissuri biskupi. Hafliði Másson stóð að vali Jóns biskups á Hólum með Sæmundi og Gissuri og hafa þessir menn greinilega verið áhrifamiklir á upphafsárum innlendrar kirkju.
Á árunum 1122-33
Árabilið frá 1122-33 markar tímamörk tveggja merkra atburða í sögu og bókmenningu Íslands. Fyrra árið var Ketill Þorsteinsson (1074-1145) vígður biskup á Hólum (náfrændi Sæmundar og tengdasonur Gissurar biskups) en hið síðara er dánarár þeirra Sæmundar fróða og Þorláks Runólfssonar (1086-1133) biskups í Skálholti. Fyrsti kristinréttur landsins (hinn forni) var settur að undirlagi þessara biskupa og að ráði Sæmundar fróða og Össurar erkibiskups í Lundi. Á sama tíma hófst ritun þjóðar- og kirkjusögu, með Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar. Sömu menn stóðu að báðum verkum og kunna þau að hafa tengst í hugum þeirra. Með kristinréttinum var lagður lögbundinn grunnur að kristinni kirkju og trúarlífi landsmanna en að sögulegri undirstöðu og sjálfsmynd hins kristna þjóðveldis í Íslendingabók. Ritinu virðist beint til Íslendinga, þá bóklærðra höfðingja, til staðfestingar á ríkjandi valdastrúktúr samfélagsins, enda skráð á móðurmáli ekki latínu, eins og algengast varð erlendis um rit af sama toga.