Handritasöfnun hefst
Fornmenntaáhugi kviknar á Íslandi
Tímabilið frá siðbreytingu 1550 og til 1770 er oft nefnt Lærdómsöld á Íslandi. Þá jókst lærdómsiðkun mjög, með tilkomu alþýðufræðslu í kjölfar lútersks siðar, prentverks og pappírs. Afritun texta skinnhandrita yfir á pappír og skipuleg söfnun fornrita, var angi af fornmenntastefnunni, sem nefndist húmanismi í Evrópu, og skaut fyrst rótum á Íslandi að nokkru ráði um 1600. Á Norðurlöndunum, og víðar í Norður-Evrópu, beindist áhugi húmanista ekki aðeins að sögu og menningu klassískra fornþjóða heldur líka að eigin sögu og menningu. Tilurð og efni íslenskra skinnhandrita vöktu því athygli fræðimanna í þeim löndum.
Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn. Ljósmyndari Davíð Kristinsson. |
Prentverk og forn fræði
Eftir að prentækni Gutenbergs kom fram um 1450 var hægt að fjöldaframleiða bækur hraðar og betur en áður. Tækni hans olli byltingu í bókaútgáfu og fyrir 1500 höfðu um 30.000 bókatitlar verið prentaðar í Evrópu, þar á meðal ýmis verk klassískra höfunda á latínu. Í Norður-Evrópu hófst prentun latínuverka frá fornöld og miðöldum um og upp úr 1500. Fyrstu sögulegu ritin komu út í Frakklandi og Þýskalandi, s.s. Kirkjusaga Beda prests (Historia ecclesiastica gentis Anglorum, frá 731), Saga Bretakonunga eftir Geoffrey af Monmouth (Historia Regum Britanniae, frá 1136) og Frankasaga Gregory af Tours (Decem Libri Historiarum eða Historia Francorum, ~590).
Heimildir um forna sögu norrænna landa
Í upphafi 16. aldar hófst einnig undirbúningur, efnisöflun og ritun, fyrir prentútgáfu af sögu norrænu landanna í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, sem þá tilheyrði danska ríkinu. Söguritunin tengdist þjóðernispólitík landanna en á þeim tíma var konungsveldi þeirra breytt úr kjörveldi í einveldi, sem varð ríkjandi stjórnarfar í Evrópu á 17.-19. öld, og markaði upphaf ríkisvalds og þjóðríkja í líkingu við þau sem þekkjast nú til dags.
Ein helsta heimild Dana um forna sögu sína, Danasaga Saxa málspaka (Gesta Danorum, frá um 1200), var fyrst prentuð á latínu 1514 í París í útgáfu Christiern Pedersens (~1480-1554) sem hóf líka danska þýðingu verksins en entist ekki aldur til þess. Anders Sørensen Vedel (1542-1616) tók við verkinu og kom þýðingin út 1575. Fimm árum síðar gaf Vedel út annað mikilvægt verk um forna sögu norrænu landanna, rit Adams frá Brimum (Gesta Hammaburgensis ecclesiae pontificum, frá því um 1075), sem þá kom fyrst út á prenti. Báðar útgáfurnar urðu efniviður rannsókna og rita um norræn fornfræði og sögu.
Forsíða Brevis Commentarius de Islandia frá 1593. Yfirskriftin er feikilöng eins og algengt var á þeim tíma. Birt með leyfi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. |
Varnarrit um Ísland
Á Íslandi var Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum (f. 1541/42, biskup 1571-1627) áhrifamikill við upphaf fornmenntastefnunnar. Honum mislíkuðu neikvæðar og oft rangar hugmyndir lærðra Evrópumanna um land og þjóð og fékk náfrænda sinn, Arngrím Jónsson lærða (1568-1648) sem var rektor latínuskólans á Hólum, til að skrifa varnarrit um Ísland. Afraksturinn var rit á latínu, máli fræðimanna, Brevis Commentarius de Islandia (Stutt greinargerð um Ísland) og þar vitnaði Arngrímur í íslensk skinnhandrit máli sínu til stuðnings. Í Skálholti virðast álíka sjónarmið hafa verið á lofti því Oddur Einarsson, biskup þar (f. 1559, b. 1589–1630) skrifaði Íslandslýsingu á latínu um svipað leyti og hóf að safna íslenskum handritum fyrstur manna.
Rit Arngríms Brevis Commentarius kom út í Kaupmannahöfn 1593. Þar dvaldi hann veturinn áður og komst í kynni við mikils metna fræðimenn, s.s. Arild Huitfeldt (1546-1609), ríkisráð og sagnaritara konungs, sem gaf út Danmarks Riges Krønnike á árunum 1595-1604. Hún hafði þá verið lengi í bígerð því Christiern Pedersen, Anders Sørensen Vedel og tengdafaðir hans, Hans Svaning (1503-1584), höfðu allir unnið að verkinu áður en Huitfeldt kom því loks í höfn.
Áhugi á íslenskum handritum
Brevis Commentarius vakti nokkra athygli, var t.d. þýtt og gefið út á ensku árið 1599. Í kjölfarið skrifaði Arngrímur fleiri rit um sögu og náttúru Íslands og Norðurlandanna og voru sum þýdd á ensku, hollensku eða þýsku. Einna þekktast er Crymogæa (Ísland eða Hrímland á grísku), sem kom út í Hamborg 1609 og nær yfir sögu Íslands frá upphafi.
Arngrímur var hvattur til að rannsaka efni íslenskra skinnhandrita og átti í bréfaskriftum við marga erlenda fræðimenn. Hann þýddi íslenska texta yfir á latínu og útvegaði íslensk handrit, t.d. fyrir sagnfræðinginn Niels Krag (1550-1602) og rúna- og fornfræðinginn Ole Worm (1588-1654). Worm skrifaðist einnig á við marga aðra íslenska áhugamenn um forn fræði og eignaðist allnokkur íslensk handrit, þar á meðal handrit Snorra-Eddu sem síðan er kennt við hann og nefnt Wormsbók.
Handritasöfnun á vegum Dana og Svía
Skrif Arngríms kynntu fræðimönnum íslensk miðaldarit sem þóttu geyma merkar heimildir um sögu Norðurlandanna. Svíar unnu einnig að þjóðarsögu sinni en áttu ekki sagnarit á borð við Danasögu Saxa og fannst sín ekki getið að góðu einu í riti Adams frá Brimum. Þeim var því mikið í mun að komast yfir íslensk handrit sem höfðu einhvern fróðleik að segja af sænskum fornkonungum og gátu nýst þeim sem heimildir. Því lögðu bæði danskir og sænskir sagnfræðingar mikið kapp á að safna íslenskum handritum, eða afritum með efni þeirra, og náði sú söfnun hámarki um miðja 17. öld.
Svíar auka handritakost sinn
Svíar bættu úr heimildaskorti sínum með söfnunarleiðöngrum, bókakaupum og herfangi. Magnus Gabriel de la Gardie kanslari (1622-86) keypti t.a.m. öll handrit danska fræðimannsins Stephanus Stephanius (d. 1650) af ekkju hans árið 1652 og gaf til Háskólabókasafnsins í Uppsölum 1669. Þegar Svíar lögðu Sjáland undir sig árið 1658 fluttu þeir líka hið mikla bókasafn dómprófastsins Jørgen Seefeldt (1594-1662) í Hróarskeldu til Stokkhólms. Safnið taldi um 26.000 bindi og fóru handrit úr því síðan í Konunglega bókasafnið þar. Í báðum söfnum voru íslenskar skinnbækur sem Brynjólfur biskup hafði sent þeim Stephanius og Seefeldt að gjöf.
Árið 1658 hertóku Svíar einnig danskt kaupskip á leið frá Íslandi en um borð var ungur Íslendingur, Jón Jónson frá Rúgstöðum, sem tók síðar upp nafnið Jón Rúgmann. Hann hafði nokkrar sögubækur í farteskinu, þar á meðal sögur af sænskum fornkonungum, s.s. Heiðreks sögu, Bósa sögu og Herrauðs, Gautreks sögu og Hrólfs sögu Gautrekssonar. Jón var því sendur til Uppsala þar sem sagnfræðingurinn Olof Verilius þurfti aðstoð við að skilja hið forna mál heimildanna, sem Svíar nefndu forngausku. Þar starfaði Jón síðan ævilangt sem skrifari og þýðandi.
Handrita- og bókasöfnun Danakonungs (mynd 4, bokasalurkobi)
Friðrik III Danakonungur (f. 1609, k. 1648-70), fyrsti einvaldur Danmerkur og Íslands, var mikill safnari og áhugamaður um bækur. Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn var sett á fót að hans frumkvæði og grundvallað á einkasafni hans. Friðrik konungur skrifaði Brynjólfi Skálholtsbiskupi 1656 og bað hann að útvega sér íslensk handrit og sögubækur í safn sitt. Brynjólfur, sem hafði meistarapróf í fornfræðum og átti stærsta safn íslenskra skinnbóka á sinni tíð, sá ekki fram á að koma texta þeirra á prent heima fyrir. Hann sendi konungi tvær bókasendingar með afar merkilegum handritum, í og með í því skyni að koma þeim til útgáfu ytra.
Konungsbækurnar úr safni Friðriks III
Í fyrri sendingunni frá Brynjólfi voru bækur úr hans eigin safni, Flateyjarbók (GKS 1005 fol.), Konungsbók Grágásar (GKS 1157 fol.) og Völsunga saga og Ragnars saga loðbrókar (NKS 1824 b 4to) ásamt pappírshandritum. Í þeirri seinni voru m.a. Rímfræði (GKS 1812 4to), Konungsannáll (GKS GKS 2087 4to), Morkinskinna (GKS 1009 fol.), Gráskinna Njálu (GKS 2870 4to) og auk Snorra-Eddu og eddukvæða í handritum sem nefnd eru Konungsbækur (GKS 2367 4to og GKS 2365 4to). Eddukvæðin eru flest aðeins varðveitt í þessu eina handriti sem er einnig þekkt sem Codex Regius upp á latínu.
Íslensk handrit í erlendum söfnum
Langflest íslensk skinnhandrit frá miðöldum varðveittust í fjórum söfnum utan Íslands en þau handrit sem Árni Magnússon eða samtímamenn hans komust ekki yfir og fluttu úr landi hafa yfirleitt glatast. Söfnin voru öll sett á laggirnar á 17. öld en þau eru Háskólabókasafnið í Uppsölum og Konunglega bókasafnið í Stokkhólmi auk Konunglega danska bókasafnsins og Árnasafns í Kaupmannahöfn. Talið er að söfnin fjögur geymi misvel varðveittar menjar u.þ.b. 700-800 íslenskra handrita frá miðöldum, þar af um 500 úr safni Árna. Tímaskeið skinnbóka stóð þó fram yfir miðaldir á Íslandi og varðveitt skinnhandrit eru ríflega 1000 alls, að ógleymdum pappírshandritum sem telja þúsundir.
Með sátt í handritamálinu sömdu Íslendingar og Danir um skiptingu íslenskra handrita milli landanna. Eftir það voru 1666 handrit og handritabrot úr safni Árna og 141 handrit úr Konungsbókhlöðu, auk 1345 fornbréfa í frumriti og nær 6000 afrita fornbréfa, flutt til Reykjavíkur og eru nú í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í Árnasafni í Kaupmannahöfn eru enn um 1400 handrit, sum dönsk eða norsk, auk skjala.