Aðalbygging háskólabókasafnsins í Uppsölum
Carolina Rediviva er aðalbygging háskólabókasafnsins í Uppsölum en háskólinn þar var settur á fót 1477. Sérstakt bókasafn var þá ekki við skólann en kennarar og nemendur höfðu væntanlega aðgang að bókum dómkirkjunnar á staðnum, auk eigin bóka. Gustav II Adolf Svíakonungur (f. 1594, k. 1611-32) stofnaði háskólabókasafnið árið 1620 og gaf safninu þá bækur sem komið hafði verið fyrir á Gråmunkenholmen við Stokkhólm, m.a. leifar bókasafna úr sænskum miðaldaklaustrum. Veglegar bókagjafir konungs til safnsins næsta áratuginn voru iðulega herfang frá meginlandi Evrópu úr Þrjátíu ára stríðinu sem stóð yfir frá 1618-48.
Ljósmynd af Wikipedia. http://www.ub.uu.se/sv/Om-biblioteket/Historik/