Hópverkefni

Bók verður til

  1. Hvaða efni þurfti til að búa til bók á miðöldum? Skoðið Uppskriftabók Árnastofnunar þar sem fjallað er um gerð handrits frá skinnaverkun til skriftar.
  2. Búið til lista yfir þá sem unnu við gerð handrits á miðöldum (skinnaverkanda, skrifara, myndlistarmann og bókbindara) og það sem hver og einn þurfti að kunna.
  3. Handrit voru í nokkrum stærðum. Finnið heiti hverrar stærðar og merkið inn á samsvarandi pappírsstærðir í samvinnu við bekkinn og kennarann og hengið upp á vegg. Skoðið mismunandi stærðir handrita undir Skinn skorið og brotið.
  4. Hvað var gert við skinnið ef rifur eða göt mynduðust við verkun þess og hvers vegna?

Til kennarans
Gefa má nemendum eftirfarandi vísbendingar:

Skinnaverkandi
- verkar skinnið í bókina en hvernig?
Skrifari - undirbýr verkað bókfellið; sker skækla af og sníður síður (e.t.v. í verkahring sérstakrar stéttar), undirbýr skrifflöt með því að pússa skinnið með vikursteini og marka fyrir línum og dálkum. Saumar saman síður í kver, skrifar textann og e.t.v. rauðar kaflafyrirsagnir. Sker pennann og sýður e.t.v. blekið.
Lýsandi eða myndlistarmaður - lýsir eða skreytir bókina með upphafsstöfum eða myndstöfum og skrifar e.t.v. rauðar kaflafyrirsagnir. Blandar liti og bindiefni.
Bókbindari - saumar kver á þvengi og festir á tréspjöld eða saumar inn í selskinn.

Athugið að á fámennum stöðum gæti verið að sama fólkið hafi gengið í öll störf er lutu að bókagerð. Íslensk klaustur voru t.a.m. oft fámenn miðað við það sem gerðist í öðrum löndum og því er alls óvíst að sama verkaskipting hafi ríkt hér á landi og þekktist á meginlandi Evrópu.

Skoðið síðuna Handverkið, einkum undirkaflana Skinnaverkun, Bókin undirbúin, Pennar, blek og litir og Bókband sem og Uppskriftabók Árnastofnunar. Skoðið einnig síðuna Bókaskreytingar. Munið að smella á Viltu vita meira? á síðunum Handverkið, Skinnaverkun og Bókin undirbúin

     

© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima