|
|||||
Velkomin á fræðsluvefinn Handritin heima
Vefurinn fjallar um íslensk miðaldahandrit og þann vitnisburð sem þau hafa að geyma um fornt handverk, fræðastarf og sagnaarf, myndlistarsögu, menningarástand og hugðarefni fólks frá fyrri öldum. Handritin eru arfur kynslóða sem lögðu vinnu í, varðveittu og höfðu ást og áhuga á efni bóka sinna. Flest íslensk handrit frá miðöldum eru varðveitt í safni Árna Magnússonar handritasafnara sem UNESCO setti á varðveisluskrá sína (Memory of the World Register) þann 31. júlí 2009 til marks um mikilvægi þess í alþjóðlegu samhengi.
Íslensk bókmenning miðalda er angi af evrópskri miðaldamenningu enda má gera ráð fyrir að aðferðir og handverk við gerð skinnbóka í Vestur-Evrópu hafi víðast verið með nokkuð svipuðum hætti. Kristin lærdómsmenning var auk þess sameiginlegur hornsteinn evrópskrar ritmenningar og í íslenskum handritum má finna fjölskrúðugar og merkar heimildir um sögu og menningu Norðurlandanna, sem og hluta Evrópu, bæði fræði- og trúarrit, einstakar sagnabókmenntir og kveðskap, auk frásagna af goðum og gyðjum úr norrænni trú.
Fræðsluvefurinn er saminn af Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur og Laufeyju Guðnadóttur í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Kennsluefnið er gefið út af Námsgagnastofnun. Jóhanna Ólafsdóttir ljósmyndari Árnastofnunar tók myndir á vefnum nema annað komi fram. Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir hannaði útlit vefsins í samvinnu við höfunda og sá um myndvinnslu og vefgerð.
Þýsk þýðing þess hluta sem nefnist Handritið var unnin við Institut für Skandinavistik, Frisistik und Allgemeine Sprachwissenschaft (ISFAS) við Christian-Albrechts háskóla í Kiel í umsjón Laufeyjar Guðnadóttur og prófessors Klaus Böldl, og hlaut styrk frá verkefninu Sögueyjan Ísland, vegna þátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt 2011.
Verkið hlaut styrk frá Norræna menningarsjóðnum (Nordisk Kulturfond) árið 2010 undir yfirskriftinni Islandske middelaldershåndskrifter og norrøn kulturhistorie auk styrkja frá Den Arnamagnæanske Kommission, Mennta- og menningarráðuneytinu, Utanríkisráðuneytinu, Bókmenntasjóði (Miðstöð íslenskra bókmennta) og af fjárlögum 2011. Soffía Guðný Guðmundsdóttir stýrði verkinu og er aðalhöfundur þess hluta sem nefnist Sagan. Samstarf um þýska þýðingu hélt áfram við CAU í Kiel í umsjón Laufeyjar Guðnadóttur og prófessors Klaus Böldl. Dönsk þýðing var styrkt af Augustinus Fonden og Fondet for Dansk-Islandsk samarbejde, og í umsjón Soffíu, í samvinnu við Den Arnamagnæanske Samling, Nordisk Forskningsinstitut í Kaupmannahöfn. Sænsk þýðing Handritsins var í umsjón Heimis Pálssonar og unnin í samvinnu við Institutionen för nordiska språk við Háskólann í Uppsölum með styrk frá Stiftelsen Barbro och Sune Örtendahls fond og Letterstedska föreningen. Nöfn þýðenda og yfirlesara koma fram á forsíðum þýðinga.
© Óheimilt er að afrita efnið án þess að geta heimildar eða með leyfi höfunda.
| UM VEF | KRÆKJUSAFN | ORÐASAFN | HEIMILDIR | VEFTRÉ | | |
:: © LogS 2001 :: | :: © hönnun hugrunar 2001 :: |