Prentvæn útgáfa
Árni Magnússon
|
Árni Magnússon, 1663–1730. |
Uppvöxtur
Árni Magnússon fæddist í nóvember 1663 að Kvennabrekku í Dölum og ólst þar upp hjá móðurafa sínum, Katli Jörundarsyni presti og einum fremsta skrifara 17. aldar. Hann óx því úr grasi í návígi við fornar bækur og hlaut menntun heima fyrst í stað, lærði að lesa 5 ára, e.t.v. af Jónsbókarhandriti eins og ýmsir á þeim tíma. Næsta vetur fékk Árni tilsögn í latínu og 10 ára lærði hann grísku og grunnatriði reiknislistar. Ketill lést þegar Árni var 7 ára og fór hann þá til séra Páls móðurbróður síns, sem líka var prestur og skrifari.
Þegar Árni fæddist var Brynjólfur biskup Sveinsson komin á efri ár og hafði sent Friðriki III Danakonungi Flateyjarbók (GKS 1005 fol.) að gjöf í bókasafn hans. Konungsbók Eddukvæða (GKS 2365 4to) og Njáluhandritið Gráskinna (GKS 2870 4to) voru farin sömu leið. Á Íslandi stóðu uppskriftir forntexta og kapphlaup Dana og Svía um söfnun íslenskra handrita hvað hæst. Mörg handrit höfðu verið flutt úr landi, sum á vegum dönsku og sænsku konunganna, önnur af Íslendingum m.a. til að greiða þeim leið í danska stjórnkerfinu, oft vegna embættisveitinga eða kærumála. Íslensk handrit bárust því bæði í einkasöfn erlendra fræði- og embættismanna og í söfn konunga.
Bókaást í blóð borin
Æskuheimili og uppvöxtur Árna hafa líklega átt þátt í að móta þann söfnunaráhuga og bókaást sem einkenndu störf hans síðar meir. Á minnisseðlum, sem hann skráði ýmis atriði á varðandi sögu handrita sinna, minnist hann á að hafa séð konungasagnahandritið Huldu (AM 66 fol.), Njáluhandritið Kálfalækjabók (AM 133 fol.), Ólafs sögu helga (AM 73 b fol.) og Jómsvíkingasögu (AM 288 4to), á uppvaxtarárum sínum í Dölum.
|
|
Aðalbygging Kaupmannahafnarháskóla sem reist var árið 1836 en háskólinn var byggður upp í kringum Frúarkirkju.
Ljósmynd Davíð Kristinsson. |
Nám og starf í Kaupmannahöfn
Árni fór í Skálholtsskóla 17 ára og þaðan til Kaupmannahafnar til frekara náms. Hann varð fljótlega aðstoðarmaður Thomas Bartholin sagnfræðings, er vann að ritun Danmerkursögu sem fornfræðingur konungs. Starfið gerði Árna kleift að leggja fornar menntir fyrir sig í stað þess að starfa að þeim í hjáverkum eins og íslenskir embættismenn eða prestar urðu oft að sætta sig við á meðan hvorki háskóli né eiginleg bókasöfn voru á Íslandi.
Arnas Magnæus, eins og Árni nefndist upp á latínu, var eflaust góður starfskraftur sem kunni skil á skrift og stafsetningu í fornum ritum. Hjá Bartholin lærði hann að meta heimildagildi handrita og mikilvægi þess að safna og varðveita fróðleik um sögu og bókmenntir sem leyndist í gömlum bókum. Árni útskrifaðist með guðfræðipróf 1685, 22 ára gamall, og fór þá á vegum Bartholin í fyrstu söfnunarferð sína til Íslands en bar fá handrit úr býtum.
Upphaf Árnasafns
Ekki leið á löngu þar til Árni tók að safna handritum sjálfur samhliða því að útvega vinnuveitanda sínum bækur. Starf hans fólst í að skrifa upp handrit og þýða tilvitnanir úr þeim á latínu en um leið sætti hann færis og skrifaði textana fyrir sjálfan sig. Hann fékk einnig lánaðar bækur til afritunar úr einkasöfnum danskra embættismanna og leitaði fljótlega eftir aðstoð íslenskra háskólastúdenta við uppskriftirnar. Árni var auralítill á þessum árum og þetta því eina leið hans til að eignast bækur, ekki síst texta úr dýrum skinnbókum. Síðar hafði hann meiri peningaráð og gat þá keypt ýmsar skinnbækur úr erlendum einkasöfum eða dánarbúum fræðimanna og bókasafnara.
Ferðalög og starfsframi
Árni ferðaðist um Noreg í leit að eftirritum og handritum fyrir kirkjusögu sem Bartholin vann að. Hann heimsótti þá Þormóð Torfason, íslenskan sagnaritara Danakonungs fyrir Noreg, til að rannsaka þau fjölmörgu íslensku handrit sem hann hafði flutt með sér úr bókhlöðu konungs vegna ritstarfa sinna. Þar á meðal voru Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók, auk fleiri merkra handrita konungasagna, og á Þormóður heiðurinn af nafngift margra þeirra. Samstarf og vinátta Árna og Þormóðar stóð síðan meðan báðir lifðu. Stuttu eftir að Árni sneri aftur frá Noregi lést Bartholin, aðeins 31 árs gamall. Árni eignaðist íslensk handrit úr dánarbúi hans, þar á meðal Möðruvallabók (AM 132 fol.), stærsta safnrit Íslendingasagna frá miðöldum, og jók þá skinnbókaeign sína til muna.
Árni í skjóli áhrifamanns
Árni varð síðan skjólstæðingur Matthíasar Moth, bróður Soffíu Amalíu Moth, ástkonu Kristjáns V Danakonungs. Fátt er vitað um störf Árna fyrir Moth en árið 1694 fór hann á vegum háskólans til Þýskalands, dvaldi þar í tvö ár og safnaði ýmsum fróðleik, og vann svo sem skjalaritari fyrir Moth er heim var komið. Moth var áhrifamaður og tengsl Árna við hann hafa auðveldað honum að biðja um handrit frá fólki á Íslandi, sem og að styðja landa sína gagnvart yfirvöldum í Kaupmannahöfn, og oft bárust honum handrit að launum fyrir greiðann. Eftir konungsskipti 1699 missti Moth ítök sín en hafði áður útvegað Árna stöðu skjalavarðar við leyndarskjalasafn konungs og vilyrði fyrir stöðu prófessors í dönskum fornfræðum við háskólann. Stöðuna fékk Árni tveimur árum síðar.
|
|
Í AM 469 fol. úr safni Árna eru varðveitt frumgögn jarðarbókar Árna og Páls Vídalín fyrir Barðastrandarsýslu. Önnur frumgögn jarðabókar eru í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands.
|
Íslandsdvöl 1702-12 og hjónaband
Árna gafst ekki mikill tími til að sinna prófessorsstarfinu því hann var sendur til Íslands til að sjá um gerð jarðabókar ásamt Páli Vídalín lögmanni. Verkið, hið fyrsta á Íslandi, fólst í að lýsa öllum jörðum landsins, biskupsstólum og klaustrum, og taka manntal, en samkvæmt því voru Íslendingar um 50.000 árið 1702-03. Árni og Jón áttu líka að kanna kjör leiguliða, hafa eftirlit með verslun, athuga úrbætur á fiskveiðum og grennslast fyrir um störf embættismanna. Það var einstakt tækifæri fyrir handritasafnara að ferðast um landið og fá ótakmarkaðan aðgang að skjölum landsmanna enda spurðist Árni fyrir um skinnbækur og keypti þær sem hann gat fengið. Jarðabókarvinnan dróst verulega, í stað fyrirhugaðrar ársdvalar var Árni í áratug á Íslandi. Ekki flýtti fyrir að skæð bólusótt geysaði árin 1707-9 og lagði um 18.000 að velli, ríflega þriðjung landsmanna. Íslendingar voru eftir það aðeins um 32.000 talsins.
Á þessu árabili var Árni tvisvar í Kaupmannahöfn að vetrarlagi, fyrst 1705-1706 og aftur 1708-1709, en 16. maí það ár kvæntist hann Mette Fischer, efnaðri ekkju sem var 19 árum eldri en hann. Árni var þá 45 ára en eiginkonan 64 ára. Eftir brúðkaupið fór Árni aftur til Íslands að sinna jarðabókavinnunni. Þau hjónin hittust ekki aftur næstu þrjú árin en örfá bréf þeirra á milli hafa varðveist.
Mette Jensdatter Fischer
Mette var ekkja söðlasmiðs konungsins og þekkust þau Árni á meðan fyrri maður hennar lifði. Jón Ólafsson úr Grunnavík, aðstoðarmaður Árna, segir í ævisögu hans að hann hafi gjarnan komið við hjá þeim hjónum í tesopa á leið sinni á skjalasafnið. Gengið hefur verið að því vísu að Árni hafi kvænst til fjár, m.a. vegna aldursmunar þeirra hjóna, en af bréfum til Mette sést að honum hefur þótt vænt um hana og það virðist gagnkvæmt.
Bréfaskipti Árna og Mette
Í september 1709 skrifaði sendi Árni bréf til Mette, sennilega með síðasta haustskipinu frá Íslandi það ár. Hann kallaði hana ‘hjerte allerkiereste’ og sendi henni peninga í fyrir nýjársgjöf svo hún geti þá keypti sér eitthvað fallegt til að bera fyrir hann. Hann bað hana að gæta vel bóka sem hann sendi heim, því þó henni þyki bækur ekki merkilegar hafi þær gildi fyrir hann, og að koma æðardúni og kjöti til skila til hefðarfólks í Höfn. Hann kallaði hana ‘söde barn’ og ‘hierte söde dukke’ og lét fylgja lista yfir það sem hann vantaði og vildi fá sent með fyrsta vorskipinu. Mette leysti vel úr óskum hans.
Eitt bréf Mette til Árna er varðveitt, dagsett 4. apríl 1712, en þá voru þrjú ár frá því þau sáust síðast. Hún skrifaði um ástandið í landinu, stríðið sem ríkti milli Danmerkur og Svíþjóðar á ný og pest sem lagt hafði 30.000 manns að velli, þar á meðal tvær vinnukonur þeirra. Í bréfinu skrifar hún hlýlega til eiginmannsins, rétt eins og Árni til hennar, kallar hann ‘minn hierte mand’ eða ‘min kiereste’, þykir skelfing langt síðan hún sá hann síðast og bíður óþreyjufull eftir að hitta hann á ný: ‘gud ved den lengsel er stor’. Mette varð eins konar umboðsmaður Árna í Höfn á jarðabókarárunum en þau bjuggu síðan saman í 18 ár.
Ísland kvatt
Árið 1712 var Árni boðaður til Kaupmannahafnar og yfirgaf Ísland í síðasta sinn. Hann gekk til fyrri starfa, sem prófessor við háskólann og skjalavörður leyndarskjalasafnsins, og veitti því síðar forstöðu. Vegna stríðsins milli Dana og Svía hætti hann ekki á að senda bókasafn sitt yfir hafið en kom því fyrir, ásamt skjölum er vörðuðu jarðabókina, í 55 kistum í Skálholti. Átta árum síðar var stríðið yfirstaðið og þær fluttar á 30 hestum til Hafnarfjarðar og settar á skip til Kaupmannahafnar. Loks kom Árni bókasafninu fyrir á heimili þeirra Mette við Stóra-Kanúkastræti og þar stóð það uns eldur kviknaði í húsi í vesturbæ Kaupmannahafnar á dimmu haustkvöldi 1728 með skelfilegum afleiðingum.
Söfnunarstarf Árna
Árni Magnússon eignaðist stærsta einstaka safn íslenskra handrita á sinni tíð. Hann hélt áfram söfnun og rannsóknum ytra, spurðist stöðugt fyrir um handrit í bréfum sínum til Íslendinga og réð skrifara í vinnu, m.a. Jón Ólafsson frá Grunnavík, uppeldisson og skrifara Páls Vídalíns, sem starfaði við Árnasafn til æviloka.
Árni safnaði nánast öllu sem hönd á festi, kærði sig þó lítið um latínurit og notaði þau í bókband eða jafnvel fleygði. Hann sóttist sérlega eftir sagnfræðilegu efni, s.s. handritum af Landnámu og Sturlungu, konungasögum, sem honum þóttu trúverðugar, auk annála. Árni hafði mætur á Ara fróða og knöppum stíl hans en taldi Íslendingasögur geta verið varhugaverðar. Forn skjöl og ýmsir gerningar voru honum einnig mikilvægar heimildir.
|
|
Myndin er af teikningu sem Árni Magnússon lét gera af innsigli Þingeyrarklausturs og finnst í handritinu AM 217 8vo, ásamt fleiri teikningum af sama toga og athugasemdum Árna um innsiglin. Þingeyrarklaustur var fyrsta klaustrið á Íslandi, stofnað árið 1133. |
Starfsemi Árna og skrifara hans
Skrifarar Árna afrituðu skjöl, íslensk, norsk og dönsk, undir ströngum fyrirmælum um nákvæm vinnubrögð, og teiknuðu upp innsigli bréfa. Um 6000 afrit skjala hafa varðveist en mörg frumritanna fóru síðan forgörðum. Árni lét líka skrifa upp sögur og kvæði, eftir eigin bókum en ekki síður bókum sem hann fékk ekki í safn sitt. Hann bar saman handrit með svipuðu efni og safnaði stökum blöðum sem hann taldi úr sömu bók á einn stað.
Sérstaða Árna sem safnara
Á 17. öld voru einkum heilar eða heillegar skinnbækur fluttar frá Íslandi því flestir söfnuðu óskemmdum bókum en fáir kærðu sig um brot, slitrur og snepla úr bókum. Sérstaða Árna fólst í því að hann eltist við hvert skinnbrot úr bók, í hvaða ásigkomulagi sem það var. Hann tileinkaði sér það viðhorf að hvert handritasnifsi hefði heimildagildi.
Vinnubrögð Árna skiptu miklu máli því brotin eru vitnisburður um skinnbækur sem til voru á Íslandi og hefðu annars verið óþekktar með öllu. Þeim sem ekki gátu lesið forn handrit, oft dökk og með illskiljanlegri skrift, hefur e.t.v. þótt lítið til þeirra koma, ekki síst ef þau voru óheil. Bókum sem höfðu laskast var því alltaf hættara við eyðileggingu en Árna tókst samt að ná í bókarslitrur frá miðöldum og stundum heilar bækur. Jón Vídalín biskup, vinur hans í Skálholti, tæmdi t.d. bókasafnið þar að skinnbókum og sendi honum.
Seðlasafnið
Árni spurðist alltaf fyrir um uppruna og feril handrita, skráði allt hjá sér í minnisgreinar sínar eða á seðla sem hann lét fylgja bókunum. Hann reyndi að rekja sögu handritanna sem lengst aftur, í von um að finna út hvar og af hverjum þau voru gerð og hvernig þau bárust á milli manna. Öll þessi starfsemi kostaði sitt en sú yfirgripsmikla vinna sem Árni skildi eftir sig hefur reynst fræðimönnum ómæld hjálp við síðari rannsóknir.
Bókband handrita í Árnasafni
Frá upphafi hefur bókbandi og viðgerðum handrita verið sinnt í Árnasafni m.a. til að forðast skemmdir af niðurníðslu eða notkun. Árni fékk fyrst bókbindara til liðs við sig á árunum 1710-20 og var mikið í mun að starfið væri unnið af alúð, ekki skorið mikið af blaðjöðrum og að enginn texti færi forgörðum. Mörg handrit voru þó í lausum kverum þegar Árni lést og hafa bókaverðir og fræðimenn í forsvari fyrir safninu síðan haldið áfram að láta binda inn handrit. Eftir 1920 var lögð aukin áhersla á að stöðva hrörnun gamals bókbands og á árunum 1971-97 var kerfisbundið unnið að viðgerðum og viðhaldi allra handrita sem skilað var til Íslands. Síðan afhendingunni lauk hefur verið hugað áfram að þeim hluta safnsins sem eftir er í Kaupmannahöfn.
|