| FORSÍÐA | SAGAN | HANDRITIÐ | KENNSLUEFNIÐ | MYNDASAFNIÐ | VEFTRÉ |
 
Forsíða > Sagan > Aldur og efni handrita > 15. öld til siðaskipta
 
Sögusviðið »
  Bókmenning berst til Íslands »
  Aldur og efni handrita »
 
  Efni handrita 1150–1250 »
  Efni handrita 1250–1300 »
  14. öldin »
  15. öld til siðaskipta »
  Handritasöfnun og Árnasafn »
Prenta Prentvæn útgáfa

15. öld til siðaskipta

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Skinnbækur síðari alda komast ekki í hálfkvisti við 14. aldar bækur hvað handverk og glæsileik varðar. Úr Pétursdikti í AM 713 4to, um 1550.

Aldaskil í bókagerð
Við upphaf 15. aldar var lægð í bókagerð á Íslandi og fá handrit eru tímasett til fyrri hluta hennar. Um miðja öld glæddist bókagerð á ný og mörg skinnhandrit voru skrifuð til siðskipta 1550 og út 16. öldina. Nokkur eru stór og þokkalega skrifuð en langt í frá jafn glæsileg og á 14. öld. Bækurnar eru minni, skinnið verra og grófara og hver skinnpjatla nýtt þó hún sé illa skorin. Skrift er oft viðvaningsleg og lýsingar með öðrum brag en áður.

Breyttar aðstæður
Bækur vitna ekki um sömu fagmennsku og fyrr enda breyttar aðstæður og óáran í landinu. Þegar norska konungsveldið, og þar með Ísland, féll undir dönsku krúnuna árið 1380 urðu umskipti í menningarlífi og viðskiptum landsmanna og útflutningur bóka til Noregs lagðist af. Vestnorrænu málin höfðu þá líka þróast með ólíkum hætti og sjást ýmsar málbreytingar þegar í handritum á 14. öld. Á fyrstu árum aldarinnar herjaði auk þess plága á landið og hjó stórt skarð í samfélagið.

Enskir og þýskir kaupmenn 
Siglingum milli Noregs og Íslands fækkaði á fyrstu áratugum 15. aldar en Englendingar sóttu þá fast á Íslandsstrendur, til fiskveiða og –kaupa og hefur öldin verið nefnd enska öldin. Þýska öldin, sú 16. er hins vegar kennd við Hansakaupmenn sem urðu þá ráðandi í veiðum og viðskiptum. Samskipti við enska og þýska kaupmenn stóðu fram um 1602 þegar Danir settu í lög að þeir einir mættu stunda verslun við Íslendinga. Eftir það bárust erlendir straumar að mestu úr Danaveldi.  

Áhrif svarta dauða á bókagerð
Svarti dauði herjaði á Evrópu um miðja 14. öld en barst til Íslands árið 1402 og geysaði næstu tvö ár, eins og sjá má af annálum. Afleiðingar plágunnar voru geigvænlegar líkt og annars staðar, um þriðjungur landsmanna lést og heilu héruðin lögðust í eyði. Fátækt, eymd og volæði fylgdi í kjölfarið og efnahagur versnaði til muna. Skrifarar og handverksmenn féllu líka frá og með þeim tapaðist verkkunnátta enda lágu bókaskrif í láginni á meðan samfélagið tókst á við afleiðingar plágunnar.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Í Jónsbókarhandriti, AM 132 4to frá um 1450, eru rómanskar lýsingar en blómaskeið þeirra var á 13. öld.

Efniviður bóka breytist
Þegar bókagerð komst aftur á skrið um miðbik aldar var annars konar efni fest á bækur en áður. Minna var um nýsköpun sagnaefnis en eldri textar voru skrifaðir upp. Ýmsar erlendar trúarbókmenntir voru þýddar en trúarinnlifun og einkaandakt jókst í Evrópu á tímum plágunnar og dýrlingaáheitum fjölgaði.

Varðveitt handrit vitna um vinsældir rímna, fornaldar- og riddarasagna. Íslendingasögur voru einnig skrifaðar upp en síður konungasögur eða biskupasögur. Kvæði, sálmar og rímur var það efni sem mest var samið af. Annálaritun lá niðri um tíma en ritun lögbóka og helgisagna tíðkaðist áfram, mörg handrit þeirra eru tímasett fram til siðskipta. Lýst Jónsbókarhandrit, s.s AM 132 4to (1440–1460) eða Heynesbók AM 147 4to (1525-1550) sýna fastheldni lýsenda á forn skreytiminni, rómönsk og gotnesk, í bland við nýja strauma. Á 16. öld sjást aukin áhrif frá erlendum prentbókum í handritalýsingum.

Nýtt kveðskaparform nær hylli
Rímur voru frá upphafi bókleg grein, eftir nafngreind skáld sem sóttu efnivið til vinsælla sagna, sér í lagi af köppum. Stundum hafa sögurnar glatast og stendur þá ríman ein eftir. Rímur voru kveðnar með sérstöku lagi og nutu mikilla vinsælda frá 14. öld og fram á 20. öld. Hverjum rímum eða rímnaflokki var skipt í margar rímur, líkt og köflum í sögu. Aragrúi rímnahátta varð til og rímnalög, stemmur, sem kveðið var við. Í rímum sameinaðist notkun heita og kenninga úr dróttkvæðahefðinni, lifandi flutningur kvæðafólks og vinsælt söguefni sem fært var í nýjan búning og kveðið fyrir áheyrendur.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Vísur af Maríu Magdalenu II, í AM 713 4to, safni helgikvæða frá um 1550. Blaðræman hefur verið svona frá upphafi enda textinn óskertur.

Endurnýjun og samfelld hefð
Uppskriftir fornsagna viðhéldu samhengi í bókmenntum og tungumáli, jafnt orðafari sem beygingarkerfi. Dróttkvæðahefðin leið undir lok á seinni hluta 13. aldar en helgikvæði voru áfram ort undir dróttkvæðum háttum eða edduháttum, e.t.v. sjást merki þeirra tengsla í AM 757 a 4to frá um 1400, þar sem hlutar úr Snorra-Eddu og þriðju málfræðiritgerð standa framan við fimm helgikvæði. Eftir að Eysteinn munkur boðaði breytingu á skáldamáli og brag með Lilju sinni viðhéldu rímur fornu skáldamáli, þó það væri mun einfaldara og í fastari skorðum en áður.

Safnbækur frá 15. og 16. öld
Efni af ýmsu tagi var safnað á bækur, vinsælar sögur með ævintýrablæ, s.s. Íslendingasögur af útlögum, þættir, fornaldar- og riddarasögur voru oft saman á bók, en helgisögum eða kvæðum var yfirleitt safnað sér á bók. Sagnahandritið AM 556 aog b 4to frá 1475-99, barst í Árnasafn í tvennu lagi en var upphaflega ein bók. Þrjár riddara- og fornaldarsögur eru í b-hluta (44 blöð) en í a-hluta (88 blöð) er ein riddarasaga og þrjár Íslendingasögur, Grettis saga, Gísla saga Súrssonar og Harðar saga og Hólmverja, auk kvæðisins Grettisfærslu en texti þess var skafinn burt og þótti sennilega ósæmilegur enda lýsing á rekkjubrögðum Grettis.

Eyfirsk bókagerð –klaustur eða kirkjujörð?
Í AM 343 a 4to, frá 1450-75, stórri skinnbók með tréspjöldum, eru 15 fornaldar- og riddarasögur.Handritið er 110 blöð en nokkur hafa tapast. Rannsóknir benda til þess að aðalskrifarinn sé sami maður og C-teiknarinn sem safnaði efni í Teiknibókina AM 673 a III 4to á þessu skeiði. Rithönd hans er skyld rithöndum á fleiri handritum, s.s. AM 81 a fol með konungasögum og Perg. fol. nr 7 í Stokkhólmi með riddarasögum, frumsömdum og þýddum. Í handritahópnum eru einnig lög og fleiri veraldlegar sögur, Jónsbók í AM 132 4to, Egils saga, Svarfdæla saga og skert handrit riddara- og fornaldarsagna. Ritunin gæti tengst Benediktsklaustrinu að Munkaþverá en ekki síður Möðruvöllum í Eyjafirði, kirkjustað og einni stærstu jörð landsins þar sem Margrét Vigfúsdóttirstýrði búi í hálfa öld og eflaust voru efni og atgervi til bókagerðar.

Bækur og skrifarar til siðskipta
Fleiri nafngreindir skrifarar eru þekktir frá 15. og 16 öld en aldirnar áður. Nokkrir þeirra skrifa nöfn sín í bækurnar en aðrir hafa t.d. fundist með samanburði rithanda við varðveitt fornbréf. Fá handrit hafa verið tengd við kirkjustofnanir, nokkur við einstaka presta, og vera kann að dregið hafi úr bókagerð klaustranna eftir pláguna miklu, a.m.k. skrifa margir leikmenn bæði trúarlega texta og kirkjuhandrit.

AM 624 4toer þykk bók skrifuð eftir 1500, 170 blöð og sennilega handbók prests sem hefur kryddað ræður sínar með efninu. Þar eru guðfræði, ævintýri, kveðskapur, tónlist, stærðfræði, stjörnufræði, almanök, hómilíur og Duggalsleiðsla. Ensk dæmisagnasöfn eða ævintýri voru þýdd á 15. öld en dæmisögur þekktust fyrr, t.d. í gömlum hómilíum, þó þeim væri ekki safnað sérstaklega á bækur fyrr en á 14. öld.

Bókleg iðja í ætt Lofts ríka
Afkomendur Lofts ríka Guttormssonar, hirðstjóra, sýslumanns og riddara á Möðruvöllum (um 1375–1432) voru mikilvirkir skrifarar og áttu sinn þátt í bókagerð eftir svarta dauða. Loftur var tengdafaðir Margrétar á Möðruvöllum en tveir synir hans stunduðu skriftir um 1420-50. Ormur skrifaði heilagra manna sögur, hluta af Perg. fol. nr. 2 í Stokkhólmi (alls 26 sögur) og AM 238 VIII fol. (óheilt, þrjár sögur) en Ólafur einbeitti sér að ritun veraldlegra sagna, í AM 557 4to (12 sögur) og AM 162 C fol. (óheilt, sex sögur).

Þorleifur Björnsson hirðstjóri á Reykhólum sem lét m.a. skrifa yngri hluta Flateyjarbókará 15. öld var afabarn Lofts ríka. Björn sonur Þorleifs (~1480–1548) bjó á Reykhólum og ritaði a.m.k. þrjár bækur frá um 1500–1540, helgisögur í Reykjahólabók, Perg. fol. nr. 3 í Stokkhólmi (25 sögur), postulasögur sem leifar eru af í AM 667 V og XI 4to og brot úr Opinberun Jóhannesar í AM 667 X 4to. Hálfbróðir Björns, Þorsteinn Þorleifsson skrifaði um 1500–1525 og e.t.v. að undirlagi Björns, fyrri hluta AM 152 fol., sem er með stærstu sögubókum miðalda og geymir 11 sögur á 201 blaði.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Úr Friðþjófs sögu (hins frækna) í AM 510 4to, sögubók úr ritsmiðju þriggja feðga, séra Ara Jónssonar og sona hans, Tómasar og Jóns.

Fleiri þekktir skrifarar
Á seinni hluta 15. aldar var uppi þekktur skrifari, Jón Þorláksson, og sagt að skriffingur hans þrír hefðu aldrei stirnað að honum dauðum. Hann átti bróður og nafna sem kom e.t.v. einnig að skriftum. Til eru fjölmörg handrit og handritabrot sem Jón skrifaði og lýsti, e.t.v. bræðurnir báðir, m.a. leifar tveggja stórra kirkjubóka, messusöngsbókar og grallara með nótum. Jón átti börn með Sólveigu Björnsdóttur afabarni Lofts ríka.

Sonarsonur Jóns og Sólveigar var Ari prestur Jónsson (f. ~1510) og hétu synir hans Tómas og Jón, báðir leikmenn eftir því sem best er vitað. Feðgarnir höfðu samvinnu um skriftir um miðja 16. öld og skrifaði hver öðrum líkt. Handrit úr ritsmiðju þeirraþeirra eru fjölbreytt að efni, m.a. tvö mikil og merk kvæðasöfn, Staðarhólsbók rímna AM 604 4to, mesta rímnasafn miðalda með 33 rímnaflokkum, og AM 713 4to með 53 helgikvæðum, stærsta varðveitta safni þeirra. Feðgarnir skrifuðu líka sögubók AM 510 4to með átta sögum og lítið handrit AM 431 12mo með sögu Margrétar, dýrlings fæðandi kvenna. Auk þess hafa þeir skrifað AM 736 III 4to, um heimsmynd, höfuðskepnur og fleira alfræðiefni, lögbók AM 160 4to og fjögur önnur lögbókarbrot.

Týndar lögbækur
Alþýðumaðurinn Bjarni Jónsson skrifaði margar lögbækur á 16. öld eins og sést af spássíugrein einni þar sem segir: „Er þessi hin átjánda af hendi skrifarans.“ Aðeins er vitað um tvær þessara bóka sem gefur e.t.v. vísbendingu um þá miklu eyðingu handrita sem orðið hefur. Hugsanlega hefur Bjarni skrifað fleiri en átján bækur.

Eyðing kaþólskra bóka eftir siðskipti   
Ljóst er að kaþólskum messubókum og öðrum latneskum og norrænum helgibókum var fargað í stórum stíl um og eftir siðskipti 1550. Leikmenn fengu þá forráð yfir klaustrum, sem áttu eflaust mikil bókasöfn þó ekki séu til tæmandi skrár yfir þau, og tóku ýmsar til eigin handargagns. Að sögn Jóns lærða Guðmundssonar, sjálfmenntaðs fræðimanns og skrifara (f. 1574), létu fulltrúar hins nýja siðar eyðileggja bækur klaustra og kirkna. Bókum Helgafellsklausturs hafi þá verið eytt í 2-3 brennum ásamt öðru „kirkjurusli“ en presturinn sem stóð fyrir bókabrennunum drukknaði síðar í Helgafellsvatni og hefndist þannig fyrir illvirkið. Ekki voru allar kaþólskar bækur brenndar enda gat fólk haft not af bókfelli, t.d. í kápur eða spjöld utan um yngri bækur, og hafa slitrur margra latínubóka varðveist með þeim hætti.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Fyrirsögn uppskriftar séra Jóns Erlendssonar af Íslendingabók fyrir Brynjólf biskup á 17.

Pappír í stað bókfells
Pappír barst til Íslands á 16. öld og tók smám saman við sem efniviður til skriftar, orðinn nær allsráðandi í bókagerð um 1600. Fyrst var pappír einkum notaður í skjalasöfnum biskupsstólanna þar sem bréfaskriftir voru mikilvægur þáttur starfseminnar. Með tíð og tíma nýttu sífellt fleiri pappírinn, tömdu sér þá fljótlegri skriftartegundir og fækkuðu böndum og styttingum, nema helst ef hermt var eftir skrift gamals forrits.

Skrifandi fólki og þ.a.l. líka handritum fjölgaði vegna aukinnar alþýðumenntunar. Í kjölfar skrifa Arngríms lærða (1568-1648) sem flutti erlendum fræðimönnum fregnir af tilurð og efni íslenskra fornrita voru textar skinnbóka afritaðir á pappír í stórum stíl á 17. öld.

Frá lokum þjóðveldisins bjuggu Íslendingar við fastmótað lénskipulag, líkt og önnur lönd Evrópu, og höfðu lítil áhrif á valdaformgerð samfélagsins og yfirstjórn í fjarlægu landi. Þeir viðhéldu ritmenningu sinni sem endurnýjaðist við breytt skilyrði á hverjum tíma, ný viðfangsefni, ný sagna- og kvæðaform og nýjar rithefðir tóku við af þeim eldri. Eljusemi Íslendinga við að skrifa sér eigin bækur um aldir hafa vakið furðu seinni kynslóða.

 

 

um svarta dauða
um Margréti á Möðruvöllum
um bókritun í ætt Lofts ríka
um skrifandi konur
um sagnaskemmtun
um helgisögur í Reykjahólabók