Fornmenntir á 17. öld

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Merk miðaldarit, s.s. Íslendingabók og Hungurvaka, eru aðeins varðveitt í uppskriftum frá 17. öld. Hér má sjá uppskriftir Íslendingabókar.

Handritageymd eftir 1550

Ef marka má handritageymdina var lítið skrifað upp af miðaldabókmenntum á Íslandi fyrst eftir siðbreytingu. Handrit frá þeim tíma eru fá og efnið fábreyttara en áður. Varðveitt fornsagnahandrit, s.s. Íslendinga sagna, eru t.d. mun færri á tímabilinu frá því um 1550 og fram til 1625-50 en þar á undan og eftir. Einkum finnast uppskriftir rímna, sem voru vinsælt skemmtiefni undir lok miðalda, og lögbókarhandrit, og það þrátt fyrir að Guðbrandur biskup hafi látið prenta Jónsbók, lögbók landsins, árið 1578. Helgisögur og trúfræðilegir textar úr kaþólskum sið höfðu úrelst en í stað þeirra barst nýtt efni til landsins. Textar úr dönsku og þýsku, oft tengdir trúfræði lúterskrar kristni, voru þýddir og skrifaðir upp.

Áhugaleysi eða eyðing pappírshandrita? 
Þar sem fjöldi skinnhandrita hefur varðveist frá 14. öld og fram til siðbreytingar vekur handritafæð tímabilsins 1550-1650 eftirtekt. Enda þótt varðveisla og eyðing handrita í aldanna rás sé oft tilviljunum háð getur hún þó líka átt sér skýringar. Á þessu tímaskeiði tekur pappír hægt og bítandi við af bókfelli til skriftar, en hann var ekki jafn endingargott efni og hætt við að mörg elstu pappírshandritin hafi eyðilagst. Fólk hefur því mögulega lesið og skrifað upp fornsögur þó pappírshandrit þeirra séu ekki til frá þessum tíma. Smekkur fólks getur líka hafa breyst og áhugi á fornsögum dvínað. Eftir siðbreytingu höfðu kirkjunnar menn, t.d. Guðbrandur biskup, ímugust á ýmsu efni frá kaþólskri tíð, ekki aðeins frásögnum af helgu fólki, heldur líka persónum sagna frá heiðnum tíma, þ.e. textum sem gerast áttu fyrir kristnitöku.  

Smelltu á myndina
Brynjólfur Sveinsson (1605–75) Skálholtsbiskup 1639–74. Mynd af Wikipedia.

Heimildir fremur en afþreying
Guðbrandur biskup, Arngrímur lærði, samtímamenn þeirra og eftirmenn litu á fornar bókmenntir sem sögulegar heimildir en síður sem heppilegt afþreyingarefni. Þessi trú á heimildagildi fornsagna mótaði viðhorf norrænna fræðimanna og almennings til þeirra lengi. Hugmyndir fólks um tilurð og þar með heimildagildi fornsagna hafa breyst og nú er m.a. rætt um vægi munnlegra arfsagna í ritun bóksagna sem voru skráðar af ráðandi valdastétt og í hennar þágu. Enn eru þó skiptar skoðanir á sannleiksgildi sagna.

Biskupar landsins voru áfram í fararbroddi fornmenntamanna, þeir Þorlákur Skúlason á Hólum (f. 1597, b. 1628-56), afabarn og arftaki Guðbrands,og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti (f. 1605, b. 1639-74) einn lærðasti maður landsins á sinni tíð. Báðir voru vel heima í hugmyndum húmanista eftir nám í Kaupmannahöfn og réðu skrifara til að afrita heila texta, sérstaklega þá sem þóttu hafa sögulegt gildi. Þeir voru upphafsmenn að gríðarlegri uppskriftaöldu þar sem margir prestar og skrifandi leikmenn um allt land skrifuðu upp forna texta, stundum með útskýringum, og hófu þá aftur til vegs og virðingar. Gera má ráð fyrir að fleiri hafi þá kynnst og notið fornsagna en fyrst eftir siðbreytingu og framan af 17. öldinni.

Vitneskja um skrifara
Heimildir um tilurð pappírshandrita frá 17. öld eru ríkulegar miðað við aldirnar á undan. Skrifararnir eru oft þekktir, vitað hvenær og hvar handrit voru skrifuð og jafnvel eitthvað um félagslega stöðu og bakgrunn ritbeiðendanna. Ísland var enn dreifbýlt sveitasamfélag, án borga eða bæja, og menningarlífið nátengt kirkjunni. Skrifararnir eða þeir sem létu skrifa bækurnar voru gjarnan prestlærðir eða börn presta, en talið er víst að skrifandi fólk hafi fundist í öllum stéttum. Einhverjir hafa haft skriftir að atvinnu, að hluta eða að fullu, t.a.m. skrifarar biskupanna Þorláks og Brynjólfs.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
AM 442 4to og AM 448 4to, tvö pappírsafrit skinnbókarinnar Vatnshyrnu sem brann í Kaupmannahöfn 1728.

Gildi pappírsuppskrifta
Textar miðaldaverka í pappírsuppskriftum þóttu lengi lítils gildir við rannsóknir á textum sem einnig hafa varðveist í skinnhandritum. Þar sem skinnhandrit geyma eldri texta þykja þau yfirleitt betri heimildir um elsta texta sögu eða verks, og hafa því textafræðilegt gildi. Í ýmsum tilfellum má þakka pappírshandritum frá 17. öld að við þekkjum texta verka eða handrita sem hafa glatast eftir að þau voru skrifuð upp. Reyndar eru ógrynni uppskrifta frá 17. öld skrifaðar eftir skinnhandritum sem síðar tortímdust, að mestu eða öllu leyti. Íslendingabók Ara fróða og Hungurvaka eru dæmi um miðaldatexta sem aðeins varðveittust á pappír. Sama máli gegnir um texta Vatnshyrnu, en það var stórt safnhandrit Íslendingasagna sem brann í Kaupmannahöfn 1728. Bókin var kennd við Stóra-Vatnshorn í Haukadal, talin skrifuð fyrir Jón Hákonarson í Víðdalstungu sem lét einnig gera safnrit konungasagna, Flateyjarbók GKS 1005 fol. Pappírsafrit Vatnshyrnu hafa verið lögð til grundvallar sem aðaltextar við útgáfu í það minnsta fimm Íslendingasagna.

Fjölbreytileiki og viðtökurannsóknir
Pappírsuppskriftir hafa öðlast meira vægi í textarannsóknum í seinni tíð, ekki síst sem heimildir um viðtöku texta eða sögu, ekki einungis á miðöldum heldur allt fram til upphafs 20. aldar. Ýmsar Íslendingasögur, þar á meðal Njáls saga, Egils saga og Laxdæla saga, eru t.a.m. varðveittar í um eða yfir 50 handritum frá ólíkum tímum og landshlutum, gerðum af fólki með mismunandi bakgrunn og samfélagsstöðu.

Uppskriftir eða prentun fornrita
Tilgangur uppskriftanna var sá sami og um aldir, bæði fyrir og eftir tíma prentverksins, þ.e. að útbúa fleiri og oft aðgengilegri eintök af texta, eða afrita handrit sem fengust að láni en hvorki gefins né keypt. Með tilkomu pappírs varð skinnhandritum reyndar sérlega hætt við að glatast. Mörgum þótti ekkert tiltökumál að fleygja skinnbókum eða endurnýta þær þegar efni þeirra hafði verið afritað. Að því leyti var tilkoma pappírs bæði til að stuðla að varðveislu efnis en um leið til þess að gömlum bókum var fargað.

Brynjólfi biskupi þótti ekki nóg að afrita skinnbækurnar heldur vildi hefja prentun miðaldatexta, líkt og tíðkaðist þá þegar í Evrópu. Eina prentverk landsins var hins vegar í eigu Þorláks Hólabiskups, sem prentaði 30 rit á sinni tíð en eingöngu kristilega texta. Þrátt fyrir eigin áhuga á fornum menntum stóð hann í vegi fyrir að Brynjólfur fengi aðra prentsmiðju til landsins og kæmi prentáformum sínum þannig í verk.

Smelltu á myndina
Stækkaðu myndina enn meira
Prenttækni Gutenbergs umbylti bókaútgáfu og þar með útbreiðslu hugmynda og lærdóms í Evrópu. Eina prentverk landsins barst hingað 1530 og var stýrt af kirkjunnar mönnum um aldir.

Fyrstu prentútgáfur og þýðingar íslenskra miðaldarita
Svíar og síðan Danir urðu fyrstir til að prenta texta íslenskra miðaldaverka enda ötulir við að bæta handritaeign sína á 17. öldinni og ákafir í að birta heimildir um sögu sína. Fyrsta prentaða útgáfan kom út í Uppsölum 1664, Hrólfs saga Gautrekssonar, fornaldarsaga sem Jón Rúgmann hafði í farteskinu 1658 þegar Svíar hertóku skipið sem hann var á. Jón vann upp frá því með Olof Verelius að útgáfum forntexta með sagnaefni um Svíþjóð, bæði á frummálinu og í sænskri þýðingu. Næstu ár gáfu þeir út brot af Ólafs sögu Tryggvasonar (1665), Herrauðs og Bósa sögu (1666) og Hervarar sögu (1672).

Fyrstu latínuþýðingar íslenskra miðaldaverka komu út í Kaupmannahöfn árið 1665. Þá gaf Peder Resen (1625-88), lagaprófessor og borgarstjóri, út þrjú verk, Snorra-Eddu, Hávamál og Völuspá, á latínu og dönsku, en útgáfan var byggð á vinnu íslenskra fræðimanna og stúdenta þar í borg. Ári síðar gaf Jan Dolmer út Hirðskrá, norsk hirðlög frá um 1270, ásamt danskri þýðingu. Í kjölfarið þýddi hann Hirðskrána á latínu, til að hún yrði aðgengileg fræðimönnum, og gaf Resen hana út á tungumálunum þremur árið 1673.

Prentun fornrita á Íslandi
Á Íslandi dró fyrst til tíðinda í prentun fornrita þegar Þórður biskup í Skálholti, (f. 1637 b. 1674–1697), fékk prentverkið eftir lát bróður síns, Gísla biskups á Hólum (f. 1631 b. 1657–1684). Báðir voru synir Þorláks Skúlasonar, fyrri Hólabiskups sem átti prentverkið áður, og flutti Þórður það frá Hólum í Skálholt 1685. Árið 1688 komu út fjögur verk, Íslendingabók Ara fróða, Landnámabók, Kristni saga og Grönlandia Arngríms lærða. Næstu tvö ár kom Ólafs saga Tryggvasonar út í tveimur bindum hjá Skálholtsprenti.

Eftir andlát Þórðar biskups 1697 komst prentsmiðjan í eigu 16 ára sonar hans, Brynjólfs. Áform hans um bókaútgáfu fóru þó fyrir lítið og 1703 seldi hann Birni Þorleifssyni Hólabiskupi prentsmiðjuna sem var þá flutt norður á nýjan leik.

18. öldin var erfiðleikatímabil í sögu Íslands, drepsóttir, náttúruhamfarir og fjárpestir herjuðu á landsmenn. Útgáfa og bóksala voru því dræm. Árið 1756 var prentsmiðjan þó í umsjá Björns Markússonar, sýslumanns Skagfirðinga og varalögmanns, sem lét þá prenta Nokkra margfróða söguþætti og Ágætar fornmannasögur í talsverðu upplagi, 1000 eintök hvora bók. Bækurnar innihéldu margar styttri Íslendingasögur og tvo þætti en seldust illa, eflaust vegna harðærisins í landinu. Björn lét einnig fyrstur prenta tvær þýddar rómönsur.

Handritamenning Íslendinga á síðari öldum
Með tilkomu pappírs gafst efnaminna fólki líka efniviður til skriftar og eftir því sem alþýðumenntun jókst lærðu sífellt fleiri að lesa og skrifa. Þar sem trúarleg rit voru nær eina prentmálið fram á miðja 18. öld lifði handritamenningin áfram. Flestar bækur af veraldlegum toga voru handskrifaðar og stundum voru prentbækurnar líka afritaðar. Erlendar prentbækur af ýmsu tagi bárust auk þess til landsins, voru þýddar og síðan skrifaðar upp. Fólk skrifaði bækurnar ýmist sjálft eða fékk leiknari skrifara til verksins en efnið fór bæði eftir því hvað var tiltækt hverju sinni og áhugasviði eða stöðu verðandi bókareiganda. Þessi mikla uppskrifta- og handritamergð er nokkuð einkenni á íslenskri ritmenningu síðari alda og geymir handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns fjöldann allan af slíkum handritum.