Uppskriftir á pappír af Vatnshyrnu, safnriti ÍslendingasagnaÍ Vatnshyrnu hafa verið Flóamanna saga, Laxdæla saga, Hænsa-Þóris saga, Vatnsdæla saga, Eyrbyggja saga, Kjalnesinga saga, Króka-Refs saga, Stjörnu-Odda draumur, Bergbúa þáttur, Kumblbúa þáttur, Draumur Þorsteins Síðu-Hallssonar, Bárðar saga Snæfellsáss og Þórðar saga hreðu. Handritið komst í eigu danska prófessorsins Peder H. Resens sem gaf það til Háskólasafnsins í Kaupmannahöfn en þar brann það 1728. Uppskriftir Eyrbyggja sögu eftir Vatnshyrnu eru til að mynda AM 442 4to með hendi Ketils Jörundssonar afa Árna Magnússonar og AM 448 4to skrifað af Ásgeiri Jónssyni en vísurnar þar eru með hendi Árna.
Textar Laxdæla sögu, Eyrbyggja sögu, Vatnsdæla sögu, Hænsa-Þóris sögu og styttri gerð Flóamanna sögu hafa verið gefnir út eftir 17. aldar uppskriftum af Vatnshyrnu.