Bækur voru dýrar
Elstu íslensku handritin eru skrifuð á skinn. Það var óhemju mikið verk að búa til stórar bækur úr skinni og erfitt að gera sér grein fyrir hversu langan tíma tók að vinna hverja bók. Að sjálfsögðu fór það líka eftir stærð bókarinnar en til þess að fá einhverja hugmynd um efni og vinnu við gerð handrits skulum við skoða dæmi frá Bretlandi. Þar er til reikningur frá árinu 1384 þar sem kostnaður við gerð handrits í tveimur bindum er tekinn saman.

Fyrir 156 blöð af bókfelli (kálfsskinn)   £ 4, 68    
Fyrir skreytingu upphafsstafa   £ 22, 03    
Fyrir bókband   £ 1, 10    
Fyrir borgun til mannsins sem samdi tónlistina í bókinni   £ 0, 34    
Fyrir laus bókaspjöld   £ 0, 68    
Fyrir útsaum   £ 0, 61    
Fyrir liti í skreytingarnar   £ 0, 10    
Fyrir launum skrifarans, Tómasar Preston, í tvö ár   £ 4, 00    


Eins og sést á reikningnum hefur bókin kostað á bilinu 30 - 35 pund á sínum tíma. Til að reyna að reikna út hversu mikið það er á okkar dögum má miða við laun skrifarans, sem fær 4 pund fyrir tveggja ára vinnu og bera saman við meðalárslaun nú á dögum. Upphæðina má svo margfalda með átta eða níu til að fá út kostnaðinn við gerð handritsins.

Á þessum reikningi sést líka hvaða kostnaði þarf að gera ráð fyrir í bókagerðinni. Skinnið í bókina er til dæmis dýrara en laun skrifarans, að ekki sé minnst á upphæðina sem fer í skreytingar. Sumar erlendar bækur eru mjög mikið skreyttar og þessi bók hefur líklega verið ríkulega skreytt. Minna skreyttar eða óskreyttar bækur hafa verið mun ódýrari en samt sem áður kostað sitt, bæði efniviður og vinnulaun.

Íslensk handrit eru sum fallega skreytt þó þau jafnist ekki á við glæsilegustu handrit annarra landa. Nokkur varðveitt handrit hefur áreiðanlega kostað töluvert að láta gera. þar á meðal eru Flateyjarbók, Stjórn og Skarðsbók Jónsbókar en þessi handrit eru öll í stóru broti og myndskreytt.