Heilsíðumynd úr Flateyjarbók

Flateyjarbók GKS 1005 fol., sem líklega var skrifuð og lýst á árunum 1387-1394, er í grunninn safn konungasagna, þó jafnframt
leynist í henni ýmis kvæði, t.d. elsta skráða ríman, annáll og efni sem hvergi hefur varðveist annars staðar eins og Grænlendingasaga
sem segir frá fundi Vínlands eða Ameríku. Þrátt fyrir veraldlegt efni prýða bókina fjölmargir skreyttir upphafsstafir og nokkrir
myndstafir sem oft teygja sig niður á neðri spássíu eins og sjá má á þessari mynd. Á myndinni má sjá fæðingu Ólafs Tryggvasonar
trúboðskonung við upphaf sögu hans en Ólafur kristnaði m.a. Ísland.

Stíll lýsinganna í Flateyjarbók er blanda af rómanskri og gotneskri hefð, þ.e. blanda af kyrrstöðu og hreifingu í líkamsstöðu og
klæðafellingum. Íslendingar voru mjög fastheldnir á rómönsk einkenni í handritalýsingum þrátt fyrir að þeir hafi einnig tekið inn
stíleinkenni gotneska stílsins og Flateyjarbók er einmitt dæmi um þess konar blöndun. Meðal rómanskra einkenna má nefna
kynjadýr sem víða skjóta upp kollinum, ákveðnar blaðtegundir og fléttur. E.t.v. má segja að persónurnar séu ekki jafnfágaðar og
fíngerðar og títt er t.a.m. í hinu hágotneska Stjórnarhandriti AM 227 fol. Sá sem lýsti Flateyjarbók var Magnús Þórhallsson prestur.