Goðsagnaefni
Fjallað er um ýmiss konar efni í norrænu goðsögunum. Mörgum þeirra eru gerð skil í myndskreytingum Jakobs Sigurðssonar skálds og bónda við það handrit Snorra-Eddu sem kallast Melsteðs-Edda og var skrifuð af honum á 18. öld. Jakob skrifaði og skreytti mörg handrit á og hafa sum þeirra varðveist á Landsbókasafni.
Bókin barst til Kanada með íslenskum landnámsmönnum úr Þingeyjarsýslu á 19. öld og var í eigu fjölskyldu sem bar ættarnafnið Melsted og af því dregur bókin nafn sitt. Bókin var afhent Stofnun Árna Magnússonar að gjöf þann 13. febrúar 2000 af Erni Arnari Magnússyni ræðismanni í Minnesota og fjölskyldu hans, og ber nú safnmarkið SÁM 66.
|
Fenrisúlfur bundinn |
|
Þór veiðir Miðgarðsorminn
|
|
Hesturinn Sleipnir Sleipnir er bestur hesta ásanna, hestur Óðins. Hann er með átta fætur. Hann kom undir þegar æsirnir léku á borgarsmiðinn sem samið hafði um það við þá að byggja svo góða borg á þremur misserum að held væri fyrir bergrisum og hrímþursum. Að launum vildi hann eignast gyðjuna Freyju og sólina og mánann. Þegar nær dró umsömdum verklokum og útlit var fyrir að borgarsmiðurinn stæði við sinn hluta samnings, m.a. vegna aðstoðar hests síns Svaðilfara, tóku goðin til sinna ráða og fengu Loka til að grípa inn í. Loki breytti sér í meri sem fór til fundar við Svaðilfara og ærsluðust þau saman alla þá nótt og smíðin tafðist sem því nam. Smiðurinn færðist í jötunmóð af bræði þegar hann sá fram á að ljúka ekki við verkið en Þór sá við því og hjó hann í höfuðið með Mjöllni og sendi hann niður undir Niflheim en æsirnir héldu Freyju, sól og mána. Merin, þ.e. Loki, varð hins vegar fylfull og átti folaldið Sleipni í fyllingu tímans. |
|
|
|
Dauði Baldurs
|
|
Baldur í Helju Eftir dauða Baldurs spurði Frigg hver af ásum vildi eignast alla hennar ást og hylli með því að ríða Helveg og reyna að heimta Baldur úr helju. Hermóður hinn hvati, sonur Óðins, tók það að sér og fékk hestinn Sleipni til fararinnar. Æsir fluttu lík Baldurs á skip hans Hringhorna og vildu gera bálför hans. Þegar Baldur var borinn út á skipið sprakk kona hans Nanna Nepsdóttir úr harmi og var einnig lögð á bálið. Á meðan reið Hermóður níu nætur um dimma og djúpa dali uns hann kom á Gjallarbrúna og frétti að Baldur væri á leið niður og norður um Helveg. Hermóður fann loks Baldur og bar hann upp erindið við Helju sem sagðist ekki sleppa Baldri nema allir hlutir í heiminum, lifandi og dauðir, grætu hann. Hermóður reið heim til Ásgarðs með tíðindin en erindrekar voru siðan sendir um allan heim að biðja þess að Baldur yrði grátinn úr Helju. Það gerðu allir nema gýgurin Þökk sem talin er hafa verið Loki dulbúinn. Og því varð Baldur áfram í Helju. |
|
Ganglera þótti þetta geysihagleg geit.
|
|
Óðinn, Loki og Hænir Örninn gæddi sér á góðum hluta uxans og við það reiddist Loki, greip stöng mikla og reiddi af öllu afli í kropp arnarins. Við það flaug örninn upp og Loki fylgdi með. Örninn neitaði að sleppa Loka lausum nema hann sæi til þess að Iðunn og epli hennar hyrfu á brott frá Ásgarði. Loki stóð við orð sín og kom Iðunni ásamt eplakörfunni út fyrir hlið Ásgarðs þar sem Þjassi sótti hana. Æsir urðu æfir því elli sótti hart að þeim eftir að Iðunn var horfin með yngingareplin, sem héldu þeim ungum og hraustum. Loki náði þó hvorutveggja aftur og hefndum að auki. |
|
Baugi borar í Hnitbjörg |
|
Óðinn stelur skáldamiðinum Þegar Bölverkur, þ.e. Óðinn, hafði sigrast á bjarginu og var skriðinn í gegn um gatið sem Baugi hafði borað hitti hann fyrir Gunnlöðu og lá hjá henni þrjár nætur og drakk af miðinum þrjá drykki í boði hennar. Fyrst drakk hann úr kerinu Óðreri, síðan úr Boðn en síðast úr Són og hafði þá torgað öllum miðinum. Hann brást þá í arnarham og flaug sem ákafast en áður en hann vissi af var Suttungur á eftir honum einnig í arnarham. Þegar æsir sáu Óðin koma í arnarlíki settu þeir ker sín út og Óðinn spýtti miðinum í kerin, þó ekki öllum því hluti mjaðarins stóð aftur úr honum og er sá hlutur leirskálda. Óðinn gaf mjöðinn ásunum og þeim mönnum sem kunna að yrkja. |
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima