Trúarrit
Myndirnar á þessari síðu eru úr handriti sem nefnt er Stjórn AM 227 fol. Handritið, sem er frá miðri 14. öld, þykir geyma fegurstu handritalýsingar íslenskar frá miðöldum og er stíllinn hágotneskur. Lýsingarnar er gerðar af listfengi, fínlega dregnar og litaðar. Handritið er talið eiga rætur að rekja til Þingeyrarklausturs ásamt fleiri bókum og gera má ráð fyrir að 3-5 hafi unnið að gerð þess, bæði við skriftir og lýsingar. Texti Stjórnar hefur að geyma þýðingar og útleggingar á nokkrum bókum Gamla testamentisins og er nafnið talið vísa til stjórnar guðs á veröldinni.
Í bókinni eru sjö heilsíðuskreytingar en sex þeirra sjást hér. Myndirnar segja sögur úr biblíunni og tengjast þeim kafla sem er að hefjast hverju sinni. Ef myndirnar eru skoðar vel sést að einhvern tíma hefur verið skorið efst af blöðum handritsins. Þar vantar hluta af myndskreytingunum.
Sköpun heimsins. | Fall Jeríkó. | Samúel smyr Davíð til konungs. |
Fórn Abrahams. | Freisting Jesú. | Ísak og Jakob. |
© LogS
Prentað af fræðsluvefnum Handritin heima